Greinasafni: Veitingar
Maður lifandi boðar breytta tíma
Lífrænn lífsstíll gerður skemmtilegur
Mörgum þeim sem vilja breyta um lífsstíl virðast gjarnan vaxa það í augum að stíga skrefið til fulls yfir í grænan, lífrænan og heilbrigðan lífsstíl. Það kann að virðast ógerningur að skipta út flestu því sem við leggjum okkur til munns fyrir hráefni sem við höfum ef til vill ekki einu sinni heyrt um áður. Maður Lifandi býður fólki sem stendur á slíkum krossgötum upp á lausnir sem taka af allan vafa. Verslanir Maður Lifandi bjóða upp á fjölbreytt úrval lífrænna vara sem samræmist vöruúrvali annarra matvöruverslana af svipaðri stærð og veita faglega ráðgjöf í þokkabót fyrir þá sem ekki þekkja vel til. Veitingastaðir Maður Lifandi bjóða svo upp á spennandi og ljúffenga rétti úr heilnæmum og lífrænum hráefnum.

Arndís Thorarensen, framkvæmdastjóri Maður Lifandi, segir það vera dálitla köllun hjá sér að sýna Íslendingum fram á að lífrænn og grænn lífstíll sé umfram allt léttur og skemmtilegur og stuðli að aukinni vellíðan - bæði líkamlegri og andlegri. „Ég verð oft vör við þær hugmyndir fólks að þessi lífsstíll sé tileinkaður einhverjum sérstökum samfélagshópum og eru hippar oft nefndir í því samhengi. En staðreyndin er sú að grænn lífsstíll stuðlar að ánægjulegra lífi fyrir alla þá sem tileinka sér hann,“ segir Arndís.

Það segir sig ef til vill sjálft að með því að draga sem mest úr óæskilegum aukefnum í fæðunni stuðlum við að auknu heilbrigði, en Arndís bendir á að grænn og lífrænn lífsstíll nái mun lengra en það. „Þegar þú kaupir lífrænt ert þú í raun að kjósa þér hvernig samfélagi þú vilt búa í með veskinu. Þú ert að kjósa mannúðlegar aðstæður fyrir verkafólk og dýr og þú ert að stuðla að sjálfbærni. Vellíðanin sem fylgir því að stuðla að betra samfélagi er góð viðbót við það að borða hollan og góðan mat,“ segir Arndís. Einhverjir kunna að halda að lífræn matvæli séu dýrari heldur en hefðbundin matvæli, sem er þó ekki raunin þegar horft er á stærra samhengi hlutanna (Arndís bendir þó reyndar á að það sé í raun rangnefni að tala um hefðbundin matvæli þegar auðvitað sé átt við ólífræn matvæli.) „Mikið af ólífrænum vörum innihalda léleg hráefni, fyllingarefni, viðbætt vatn og alls konar efni sem gera þær ódýrari í framleiðslu. En þegar þú kaupir lífræna vöru færð þú hreina vöru úr heilnæmum hráefnum án óæskilegra kemískra aukefna sem er að auki næringarríkari og þarft þú því að nota minna af henni,“ segir Arndís.

Veitingastaðir Maður Lifandi hafa notið mikilla vinsælda og er salatbarinn ekki síst ástæðan fyrir því. „Ég held því fram að salatbarinn okkar sé algerlega einstakur og endurspegla viðtökur viðskiptavina okkar það. Ástæðan held ég að sé sú að við bjóðum upp á vandaða og bragðgóða rétti í salatbarnum, en ekki aðeins niðurskornar gúrkur og tómata, sem margir virðast sjá fyrir sér þegar þeir hugsa um salatbar. Það virðist koma sumu fólki á óvart að sjá hversu vel útilátnir réttirnir okkar eru og standa margir jafnvel í þeirri meiningu að hér sé eingöngu boðið upp á grænmetisfæði, en kjúklinga- og fiskréttirnir okkar hafa verið gríðarlega vinsælir hjá viðskiptavinum okkar,“ segir Arndís. Þetta sumarið, segir Arndís, sé Græna þruman algerlega að slá í gegn, en þar er um svokallaðan grænan þeyting að ræða, sem er í senn uppfullur af næringu, fyrirtaks staðgengill fyrir millimál og  einstaklega bragðgóður.

Hvort sem fólk er í leit að nýjum kosti í stað skyndibita, að lífrænum og náttúrulegum mat-, snyrti- eða hreinlætisvörum, eða að hugleiða lífsstílsbreytingar, þá hvetur Arndís fólk til að líta við í verslunum Maður Lifandi og kynna sér málið. „Starfsfólk okkar býr yfir mikilli þekkingu á sviðinu og er vel meðvitað um að ef til vill þekki ekki allir lífrænan og heilbrigðan lífsstíl vel. Það er því afar auðsótt að fá faglega ráðgjöf og aðstoð á sölustöðum okkar. Nú eru íslensku lífrænu uppskerurnar að koma á markað og því aldrei betri tími en nú til að líta við,“ segir Arndís. Maður Lifandi rekur verslun og veitingastað bæði í Borgartúni og Hæðasmára í Kópavogi og til viðbótar huggulegan veitingastað í Hafnarborginni í Hafnarfirði.

Maður Lifandi
Borgartún 24 • 105 Reykjavík
585 8700
madurlifandi@madurlifandi.is
www.madurlifandi.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga