Greinasafni: Veitingar
Stemmning á Grænum kosti á sumrin
Grænmetisfæði fyrir alla þjóðina
Grænn kostur er fyrir löngu orðin frægur fyrir gómsæta grænmetisrétti sína og má til marks um það nefna biðraðir sem standa jafnvel út á götu þegar hið geysivinsæla grænmetislasagne er borið fram á fimmtudögum. Starfsfólk Græns kostar hefur þó hvergi nærri lagt hendur í skaut, heldur hyggst kynna bættar matarvenjur og aukið heilbrigði fyrir sem allra flestum Íslendingum – og það með góðu bragði.

Jóhanna Jónasdóttir, veitingastýra Græns kostar, segir að sér sýnist að neyslumynstur Íslendinga sé í sífellu að færast út í tvær öfgar – annars vegar sá hópur fólks sem fer æ lengra í heilsusamlegu fæði og lífsstíl og svo fólk sem virðist stefna í sífellt meiri öfgar í óhollustu og óheilbrigði. „Okkur langar til að vera hluti af því afli sem leiðir fólk yfir í betri og heilbrigðari lífsstíl og ná til þess fólks sem er að feta sig áfram í heilbrigðismálum.“  Jóhanna segir hugmyndafræðina á bak við veitingastaðinn einfalda og það sé ekki síst ástæðan fyrir vinsældum staðarins – en Grænn kostur býður upp á lífrænt ræktað grænmetisfæði sem bæði er bragð af og skilur viðskiptavini eftir með magafylli. „Umfram allt viljum við að maturinn sé eins nálægt uppruna sínum og mögulegt er. Í öllum mat er ákveðin orka og þegar hann fer í gegnum hverskonar framleiðsluferli minnkar orkan og næringin hverfur úr matnum. Þess vegna leggjum við mikið upp úr því að nálgast eins fersk hráefni og er í boði hverju sinni,“ segir Jóhanna. Þessa dagana gerist hráefnið vart ferskara, enda eru lífrænar uppskerur á Íslandi núna í blóma sínum. Þar sem Grænn kostur sérhæfir sig í grænmetisfæði segir  Jóhanna  það koma skemmtilega á óvart þegar skoðaður er þverskurður viðskiptavina staðarins. Þá kemur  í ljós að hlutfall grænmetisæta þeirra á meðal er svipað því sem gengur og gerist hjá þjóðinni – kjötæturnar sækja semsé grimmt í grænmetisfæðið, sem hlýtur að segja sitthvað um gæðin.

Réttur dagsins hjá Grænum kosti er vel útilátin máltíð sem Jóhanna segir að sé sérhönnuð með það að markmiði að enginn fari út svangur af Grænum kosti. „Það vill svolítið loða við grænmetisfæðið í hugum fólks að hér sé um að ræða einhver örfá salatblöð og lítið annað, en með máltíðunum okkar fylgja hinsvegar salöt, brauð, hrísgrjón og ýmiskonar sérlagaðar og bragðgóðar sósur. Það kemur því fólki sem kemur hingað í fyrsta skiptið á óvart hversu mikill matur þetta er.“ Jóhanna er einnig sérlega stolt af bakkelsis úrvali staðarins, en þeim hafi tekist að gera einstaklega bragðgóðar kökur og smákökur, sem eru í senn afar hollar og lausar við bleikt hveiti og sykur. Þá hafi hráfæðiskakan einnig slegið rækilega í gegn.

Á Grænum kosti má því bæði fá næringarríka og afar bragðgóða máltíð í hádeginu eða staldra við yfir tebolla og hollum kökum og lesa blaðið. Á Grænum kosti eru auðvitað útisæti sem hafa notið mikilla vinsælda á góðviðrisdögum og segir Jóhanna að á sumrin ríki alveg einstök stemmning á staðnum þar sem fólk úr öllum mögulegum þjóðfélagshópum sameinast yfir hollu grænmetisfæði.

Grænn Kostur

Skólavörðustíg 8 • 101 Reykjavík
552 2028
graennkostur@isl.is
www.graennkostur.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga