Greinasafni: Söfn
Skógasafn
Þar sem þjóðmenningu er gerð skil
Í Skógum undir Eyjafjöllum er eitt af eldri og merkari byggðasöfnum þessa lands. Í dáfögru umhverfi er safn þetta ein af perlum landsins. Fegurðin og sagan fara þarna saman og er margan fróðleik að finna þar og njóta.

Upphaf
Frumkvöðull að stofnun safnsins er Þórður Tómasson. Áhugi hans á íslenskri þjóðmenningu og varðveislu hennar kviknaði strax á æskuárum. Þórður hefur verið iðinn við að rita á blað og varðveita menningu þjóðarinnar með útgáfu rita og bóka um þjóðleg fræði og annan fróðleik samhliða störfum sínum við safnið. Árið 1997 var Þórði síðan sýndur sá verðskuldaði heiður að hann var gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands. Byggðasafnið í Skógum á sér nú rúmlega sextíu ára sögu, en það var formlega stofnað árið 1949. Á þeim tíma var það í kjallaraherbergi í Hérað-skólanum í Skógum og var opnað til sýningar 1. desember sama ár.
Árið 1952 fékk safnið að gjöf átt-æringinn Pétursey frá Jón Halldórssyni kaupmanni í Suður-Vík. Varð þá brýnt að koma safninu í eigið húsnæði. Því fór svo að árið 1955 var reist myndarlegt safnhús sem rúmaði Pétursey og gott betur.

Með byggingu safnhússins hófst uppbygging á gömlum bæjarhúsum á safnsvæðinu. Árið 1968 var fyrsta húsið flutt að Skógum og endur-reist þar. Fljótlega bættust fleiri byggingar við. Og nú síðast kirkja og skólahús. Árið 1990 var svo ákveðið að reisa viðbyggingu við safnhúsið. Áraskipið Pétursey var flutt í húsið og stendur þar með rá og reiða. Einnig var stofnað skjalasafn fyrir Rangárvalla-  og Vestur-Skaftafellssýslu í kjallara nýja hússins.
Þann 20. júlí 2002 var opnað nýtt sýningarhús í Skógasafni. Hér birtist þróun samgangna og tækni á Íslandi á 19. og 20. öld. Þarna getur að líta gömul reiðtygi, fyrstu vélarnar í bílum og mótorbátum, gamla bíla, vegagerðartæki, verkfæri og ferða-búnað frá ýmsum tímum. Einnig er saga póstþjónustu, rafvæðingar og fjarskipta rakin á sýningunni. Í júní 2008 opnaði Slysavarnafélagið Landsbjörg í samvinnu við Skógasafn nýja sýningu í Samgöngusafninu sem gerir áttatíu ára sögu björgunar-sveitanna í landinu skil.

Skógakaffi

Skógasafn rekur kaffihús sem er til húsa í Samgöngusafninu. Í Skógakaffi er tilvalið að setjast niður, í smekklegu umhverfi, eftir að hafa kynnt sér þetta skemmtilega uppsetta safnasvæði sem laðar til sín þúsundir erlendra og innlendra ferðamanna ár hvert. Starfsmenn kaffihússins taka vel á móti gestum en auk kaffiveitinga er þar boðið upp á létta heimatilbúna rétti svo sem ýmsar tegundir af súpum og heimabakað brauð, salat og samlokur. Kaffihúsið er opið daglega á sumrin milli kl. 10:00 og 17:00. Utan þess tíma er hægt að opna í hádeginu fyrir hópa að lágmarki 8 manns, ef pantað er með fyrirvara.

Byggðasafnið Skógum

Skógum • 861 Hvolsvelli
487 8845
skogasafn@skogasafn.is
www.skogasafn.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga