Greinasafni: Hótel og gisting
Steindórsstaðir
Gistihús í sæluríki náttúrunnar

Enn ég um Fellaflóann geng,
finn eins og titring í gömlum streng,
hugann grunar hjá grassins rót
gamalt spor eftir lítinn fót.


Svo orti Jón Helgason í kvæði sínu Á Rauðsgili. Jón var fæddur á Rauðsgili sem er í næsta nágrenni við Steindórsstaði í sunnanverðum Reykholtsdal, litlu innar en Reykholt.  Þar er rekin bændagisting. Boðið er upp á gistingu í sjö herbergjum í uppábúnum rúmum og með morgunverði. Gestum er frjálst að koma með eigið nesti, því eldunaraðstaða er í húsinu auk allra nauðsynlegra áhalda. Margt er sjá og gaumgæfa í nágrenni Steindórsstaða. Vinsæl gönguleið er upp með Rauðsgili. Fjöldi fallegra fossa er í gilinu og austanvert við ána er svo Fellaflóinn sem Jón Helgason orti um eins og fram kemur hér að ofan.

Við Bæinn er hjáleið á Okveg og er það vinsæl reið- og gönguleið. Fagurt útsýni er af hálsinum fyrir ofan bæinn.
Á Steindórsstöðum er aðalbúgrein kúabúskapur. 30 mjólkandi kýr eru á bænum og annað eins af geldneyti. Þá eru einnig kindur þar, hross, hundar og köttur. Skógrækt er á nálega 25 hekturum. Ábúendur eru í Félagi skógarbænda á Vesturlandi. Fyrir var hér skógarreitur, “Imbugarður”, en byrjað var að planta í hann 1944. Var það Ingibjörg Pálsdóttir (d.11. 09. 2001),  fyrrum bústýra á bænum, sem átti heiðurinn af þeirri ræktun. Kornrækt er lítilsháttar, en kornið er þurrkað og aðallega nýtt sem fóður fyrir kýrnar. Silungsvatn, Sandvatn, er hér sunnan við hálsinn og er þar mjög góður matfiskur. En vegna þess hve aðgengi að vatninu er erfitt er ekki veitt í því sem skildi.

Gistihúsið er nýuppgert og  skal fólki bent á heimasíðuna www.steindorsstadir.is vilji það kynna sér betur hvaðeina sem varðar staðinn sjálfan og nágrennið. Það er við hæfi að vitna frekar í Jón Helgason, sem lauk ofangreindu kvæði með þessum línum:

Handan við Okið er hafið grátt,
heiðarfugl stefnir í suðurátt,
langt mun hans flug áður dagur dvín,
drýgri er þó spölurinn heim til mín.


Jón Helgason.

Steindórsstaðir

Reykholt • 320 Borgarfjörður
435 1227
steindorsstadir@steindorsstadir.is
www.steindorsstadir.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga