Greinasafni: Söfn
Steinasafn Petru á Stöðvarfirði
Faldir fjársjóðir úr firðinum
Þetta sérstaka safn, sem er það stærsta sinnar tegundar í heiminum, ætti enginn að láta fram hjá sér fara sem á leið um Austfirði.  Ljósbjörg Petra María Sveinsdóttir  fæddist árið 1922 og var frá barnæsku náttúrubarn af guðs náð. Allt frá blautu barnsbeini hafði hún áhuga á steinum en hóf ekki að safna þeim af alvöru fyrr en árið  1946 þegar hún og eiginmaður hennar fluttu í Sunnuhlíð, þar sem safnið er staðsett í dag. Við flutninginn fékk Petra svigrúm til að geyma alla fjársjóðina og hina fegurstu steina sem hún hafði rekist á í gegnum tíðina. Það var þó aldrei sérstaklega á dagskránni að opna safn. Á sjötta áratugnum hóf Petra að raða steinum í garðinum umhverfis hús sitt sökum plássleysis innandyra og til að punta garðinn.  Steinasafnið dró að sér athygli ferðamanna sem gjarnan bönkuðu uppá og vildu fá að skoða herlegheitin og var það ætið auðsótt mál. Gestunum fór æ fjölgandi og í fjörutíu ár tók Petra á móti þúsundum gesta á heimili sínu og leyfði þeim að skoða steinana án endurgjalds. Margir þeirra töldu sig vera að skoða safn þegar þeir voru í raun staddir á heimili þessarar gjafmildu konu. Í fjöldamörg ár var Petra hvött til þess að þiggja greiðslu af gestum sínum en hún hafnaði því ávallt með þeim rökum að steinarnir væru ekki hennar eign frekar en annarra Íslendinga. Hún lét þó tilleiðast fyrir rest og hóf að þiggja aðgangseyri af gestum sínum til að standa straum af kostnaði við gestakomurnar.

Steinarnir á safninu skipta þúsundum og eru í öllum stærðum og gerðum. Stórir, littlir, oddhvassir og sléttir. Allar helstu steinatengundir landsins má finna í safninu svo sem jaspis, silfurberg, geislasteina og hrafntinnu og undirtegundirnar skipta tugum.  Því er óhætt að segja að litadýrðin í safni Petru spanni allt litróf regnbogans.  Athygli vekur að lang stærsti hluti safnsins eru steinar af Austfjörðum og þá helst Stöðvarfirði. Það er nær ótrúlegt að allir þessir fjölbreyttu og fallegu steinar sem Petra hefur af alúð safnað saman skuli koma frá litlum firði á Austfjörðum, en ekki úr ævintýralandi. Steinasafnið er skýr vitnisburður um alla þá leyndu og dýrmætu fjársjóði sem leynast allstaðar í kringum okkur en fæst okkar gefa gaum í amstri hversdagsins.

Steinasafn Petru
Fjarðarbraut • 755 Stöðvarfjörður
475 8834
petrasveins@simnet.is
www.steinapetra.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga