Greinasafni: Sveitarfélög einnig undir: Söfn
Minjasöfnin í Skagafirði
Einstök sinnar tegundar
Sögusetur íslenska hestsins var stofnað 2001 af Hestamiðstöð Íslands, Byggðasafni Skagfirðinga og Hólaskóla og er staðsett þar. Sögusetur íslenska hestsins er alþjóðleg miðstöð þekkingar og fræðslu um íslenska hestinn; eiginleika, notkun og samfélagsleg áhrif, frá landnámi til nútíma. ,,Ég held að flestir muni njóta þess að sjá þær breytingar sem hafa orðið á  notkun og umgengni um íslenska hestinn gegnum aldirnar sem þarfasti þjónninn okkar, hvort sem er til starfa í landbúnaði eða til ferðalaga fyrr á öldum. Svo koma þessir breyttu tímar þegar dráttarvélar og bílar taka við hlutverki hestsins. Hann fer þá úr því hlutverki að vera vinnuhestur í að vera reiðhestur. Yngri kynslóðin þekkir ekki þessa tíma og getur varla gert sér í hugarlund hvernig var að vera uppi á þessum tíma. En eftir að hafa komið á sögsetrið er margt af yngra fólkinu afar undrandi en jafnframt hrifið af því sem þarna er að sjá. Þetta er því afar góð sögustund fyrir yngri kynslóðina, ekki síst ef það er þarna á ferð með sínum nánustu,” segir Rósa Vésteinsdóttir. Á sögusetrinu er  frumherjanum Theódóri Arnbjörnssyni, sem var fyrsti hrossaræktarráðunauturinn og starfaði frá 1920 til 1979, gerð sérstök skil. Hann markaði djúp spor í ræktun íslenska hestsins, var brautryðjandi í ræktun og meðferð hrossa. Sögusýning íslenska hestins er eina sýning sinnar tegundar í heiminum. ,,Hugur margra sem hafa numið á Hólum leitar til efri hæðarinnar á Sögusetrinu en þar voru um tíma geymdar helstu matarbirgðir bændaskólans á Hólum. Þar má enn sjá ummerki eftir saltkjötstunnur og fleira en staðurinn var einkar vinsæll þegar ástæða var til að draga sig tímabundið í hlé, t.d. þegar ástin blómstraði!”

Minjahúsið

Sigríður Sigurðardóttir safnstjóri segir að í Minjahúsinu séu margvíslegar sýningar í mismunandi sölum. ,,Í sumar voru opnaðar sýningar sem fjalla um þrjá einstaklinga sem ættir rekja til Sauðárkróks og Skagafjarðar eða hafa búið hérna. Þetta eru Jóhannes Geir Jónsson myndlistamaður sem er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki; tónlistarmaðurinn, tónskáldið og kórstjórinn Eyþór Stefánsson sem bjó og starfaði í Skagafirði allt sitt líf og svo Guðrún frá Lundi sem flutti á Sauðárkrók á fullorðinsárum og skrifaði allar sínar bækur þar. Við reynum að leiða gestum fyrir sjónir hvernig þau skiptu máli fyrir samfélagið. Í húsinu eru sýningar á fjórum verkstæðum á Sauðárkróki sem hafa verið í nokkur ár og eru sýnd hér eins og þau voru. Þetta eru úrsmíðaverkstæði Ottós Michaelsen áður en hann fór suður, járnsmíðaverkstæði Jóns Nikodemussonar og trésmíðaverkstæði Ingólfs bróður hans með öllu eins og þeir skildu við þau. Í fjórða lagi er söðlasmíðaverkstæði sem samsett er af safnmunum frá 1870 til 1950 og á að sýna hvað menn voru að sýsla hér við á þessum árum, ekki bara hnakkar og beisli,” segir Sigríður.

Torfbærinn í Glaumbæ á engan sinn líka

Húsaskipan hins aldna stórbýlis Glaumbæjar í Skagafirði og hversdagsáhöldin í sínu eðlilega umhverfi bera á áhrifaríkan hátt vitni um horfna tíð og daglega iðju fólksins. Sýningin ,,Mannlíf í torfbæjum á 19. öld” var fyrst opnuð 1952 og hefur verið endurnýjuð nokkrum sinnum síðan. Sérstaða Glaumbæjar í Skagafirði er fyrst og fremst sú að bærinn sker sig frá öðrum torfbæjum á landinu og hann er meira og minna allur úr torfi. Sýningin í bænum er að flestu leyti ekki frábrugðin mörgum öðrum minjasöfnum í torfbæjum hérlendis. Á efri hæð Áshússins er m.a. sýning þar sem sagt er frá kaffineyslu Íslendinga í þrjár aldir, frá Bólu-Hjálmari og útskurði hans og aðbúnaði í eldhúsum um 1950. Það er kolaeldavél á neðri hæðinni og svo nálgumst við nútímann svolítið á efri hæðinni. Þar er minningarherbergi um Moniku á Merkigili og sagt frá hennar merkilega lífshlaupi. Þar er einnig ,,sparistofa” eins og þær voru fyrr á árum og sýndir eru munir sem tengjast fleiri nafnkenndum einstaklingum,” segir Sigríður Sigurðardóttir safnstjóri. Það er nokkur útbreiddur misskilningur að hafi aðrir torfbæir verið heimsóttir og skoðaðir, s.s. á Grenjaðarstað og að Laufási í Eyjafirði sé búið að skoða þá alla. Því fer hins vegar fjarri því torfbærinn í Glaumbæ á engan sinn líka.

Skagafjörður

Skagfirðingabraut 21 • 550 Sauðárkrókur
455 6000
skagafjordur@skagafjordur.is
www.skagafjordur.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga