Greinasafni: Heilsa
Laugarvatn Fontana
Byggir á gamalli hefð
Í sumar var opnaður baðstaður við Laugavatn, Fontana, þar sem gestir geta notið náttúrubaða í fallegu umhverfi.  „Þetta er nýr baðstaður sem byggir á gamalli hefð frá Laugarvatni þar sem stunduð hafa verið gufuböð beint yfir hvernum að minnsta kosti frá 1929,“ segir Anna G. Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Fontana. „Þarna hefur fólk sótt endurnýjum og styrk og nú er búið að byggja glæsilega baðaðstöðu.“ Um er að ræða gufu beint yfir hvernum fræga, þá er hægt að baða sig í heilsu-baðvatni í þrískiptri baðlaug og fara í sauna sem er að finnskri fyrirmynd. Hitastigið í gufunni er breytilegt eftir náttúrulegum aðstæðum eða frá 40 til 50 gráðum og er rakastigið hátt. Gufa hversins berst inn í gufuklefana í gegnum rimlagólf og geta gestir heyrt í hvernum og séð hann auk þess að finna ilminn af gufunni.

Hvað baðlaugarnar varðar þá eru þær fjölbreyttar; misheitar og misdjúpar. Þar eru svæði til slökunar og hvíldar og önnur svæði þar sem hreyfing er meiri bæði á vatni og fólki. Þá er heitur pottur á svæðinu og þeir sem í honum sitja geta notið fagurs útsýnis.

Anna segir að húsið láti lítið yfir sér þegar komið er að því; það sé byggt úr náttúrulegum efnum svo sem steini, torfi og timbri. „Það fellur mjög vel inn í landslagið og hönnunin þykir mjög falleg og smekkleg. Rýmið sem komið er inn í er fallegt og bjart og ég sé ekki betur en að fólki líði vel hvort sem það er úti á laugarsvæðinu eða innanhúss. Fólk fær svipaða tilfinningu í gufuklefunum og áður; þetta er þröngt og dulúð inni í rýmunum en klefarnir yfir gufunni eru sömu stærðar og gömlu klefarnir þannig að hefðinni er haldið í heiðri.“  Kaffihús er í byggingunni og er lögð áhersla á hollustu en Anna segir að það sé líka hægt að fá sér eitthvað sætt með kaffinu. „Hér fæst vara úr nágrannabyggðum; hverabrauð eru bökuð í hvernum við hliðina á byggingunni og silingur er veiddur í Apavatni. Þá er ýmislegt úr nágrenninu í smurðu brauði og samlokum sem boðið er upp á.“

Laugarvatn Fontana er opið allt árið og ætti stemmningin ekki að vera minni á veturna; svo sem í ljósaskiptunum og þegar norðurljósin skreyta himininn.

Laugarvatn Fontana

Hverabraut 1 • 840 Laugarvatni
486 1400
fontana@fontana.is
www.fontana.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga