Greinasafni: Sveitarfélög
Spennandi nýjungar á Skaganum
Akranes er tilvalinn áfangastaður fyrir ferðafólk
Akranes er tilvalinn áfangastaður fyrir ferðafólk og þar er að finna marga áhugaverða staði og skemmtilega afþreyingu. Langisandur er án efa ein flottasta baðströnd á Íslandi og þar er verið að byggja upp góða aðstöðu fyrir almenning og sjósundfólk. Við Langasand hefur verið byggður glæsilegur sólpallur þar sem gestir og ferðafólk geta slakað á og notið góðra veitinga.  Þá er Akrafjall auðvelt uppgöngu og kjörið fyrir fjölskylduferðir. Óþarft er að nefna knattspyrnuna, en hún vill tíðast verða það fyrsta sem mönnum dettur í hug þegar Akranes er nefnt.

Minigolf, Frisbígolf  og leikir í Garðalundi

Nú hefur verið settur upp mini-golfvöllur í Garðalundi á Akranesi, á grasflötinni við innganginn í lundinn. Þar með bætist við enn ein nýjungin í Garðalundi í sumar en þann 17. júní sl. var nýr og glæsilegur grill- og útikennsluskáli tekinn í notkun í lundinum. Um leið var „tréhestum” Guðmundar Sigurðssonar,  handverksmanns og þúsundþjalasmiðs komið fyrir við skálann en þessi listaverk Guðmundar eru hugsuð sem leiktæki fyrir börn og eru unnin úr trjávið úr Skorradal.  Komið hefur verið fyrir sjö mini-golfbrautum, hverri annarri skemmtilegri og erfiðari viðfangs en vonir standa til að fjölga megi brautunum í sumar. Trésmiðjan Akur á Akranesi annaðist hönnun, smíði og uppsetningu brautanna, sem eru opnar Skagamönnum, gestum og gangandi án endurgjalds í allt sumar. Fólk verður þó að mæta með sínar eigin kylfur og kúlur, a.m.k. fyrst um sinn á meðan reynsla fæst á verkefnið. Rétt er að hvetja fólk - af gefnu tilefni - til að ganga vel um þessa nýju aðstöðu sem og aðra sem sett hefur verið upp á svæðinu.
 Þá er búið að setja upp sk. „Frisbí-golf” í Garðalundi, en Frisbígolf mun vera íþrótt náskyld golfinu, nema hvað notaðar eru sérstakar gildrur í stað hefðbundinnar golfholu og þá er notaður frisbídiskur í stað kúlunnar. Golfkylfur eru óþarfar með öllu! Þessi íþrótt er raunar stundum kölluð „Folf“ – af augljósum ástæðum.
Þá hefur einnig verið komið fyrir „dótakassa” í Garðalundi en í honum eru alls kyns leikir og tæki til skemmtunar, s.s. kubb og aðrir kastleikir, frisbídiskar, boltar, golfkylfur og krokkett. Kassinn verður opinn alla daga frá morgni til kvölds og geta gestir í Garðalundi leikið sér með innihald kassans að vild og án endurgjalds. Ástæða er til að hvetja til góðrar umgengni og ganga vel frá öllum leikföngum að notkun lokinni. 
 
Upplýsingamiðstöðin á Akranesi fer vel af stað
Í sumarbyrjun var opnuð ný og glæsileg upplýsingamiðstöð við Kirkjubraut 54-56 á Akranesi og ráðinn sérstakur starfsmaður til að sinna miðstöðinni og tengdum verkefnum. Starfsemin hefur farið vel af stað og fjölmörg verkefni eru þegar í farvegi á vegum miðstöðvarinnar.
 
Nýr Visitakranes.is vefur
á íslensku og ensku

Nýr og uppfærður kynningar- og upplýsinga- vefur fyrir Akranes er kominn í loftið á vefslóðinni www.visitakranes.is. Vefurinn er unninn af Atómstöðinni í samstarfi við Upplýsinga- miðstöðina á Akranesi og fleiri aðila. Þessi nýji vefur er tengdur við vefsvæði Markaðsstofu Vesturlands og um leið gagnagrunn Ferðamálastofu og því hafa notendur vefsins aðgang að greinargóðum upplýsingum um þjónustu, afþreyingu og gistimöguleika á Akranesi, Vesturlandi og raunar landinu öllu. Þar má einnig finna ýmsar upplýsingar um Akranes, áhugaverða staði, gönguleiðir, náttúru og sögu – og upplýsingar um ferðaþjónustuaðila á Akranesi.
 
Velkomin til Akraness – kortið  (The Akranes Welcome Card)
Búið er að gefa út sérstakt þjónustukort fyrir Akranes, „Velkomin til Akraness – kortið“; á ensku „The Akranes Welcome Card“ en kortið er gefið út á vegum Upplýsingamiðstöðvarinnar á Akranesi í samstarfi við Strætó bs. og fleiri aðila. Ferðamenn geta ýmist keypt 24 tíma eða 48 tíma kort sem veitir aðgang að Strætó á milli Reykjavíkur og Akraness, þjónustu ýmissa stofnana bæjarins s.s. sundlaug, Safnasvæðinu og Kirkjuhvoli en auk þess veita ýmis verslunar- og þjónustufyrirtæki á Akranesi afslátt af vörum og þjónustu gegn framvísun kortsins. Kortið verður m.a. til sölu á öllum upplýsingamiðstöðvum í Reykjavík og einnig á Keflavíkurflugvelli auk annarra sölustaða. Markmiðið með útgáfu kortsins er að sjálfsögðu að hvetja gesti og ferðafólk til að heimsækja Akranes.

 Ofangreinar aðgerðir eru liður í þeim áformum Akraneskaupstaðar að styðja við uppbyggingu ferðaþjónustu á Akranesi, m.a. með því að koma upp fjölbreyttari afþreyingu og efla upplýsingamiðlun og kynningarstarf gagnvart gestum og ferðafólki, en ekki má gleyma því að öll þessi uppbygging nýtist að sjálfsögðu einnig íbúum á Akranesi.

Akraneskaupstaður

Stillholti 16-18 • 300 Akranesi
433 1000
tomas.gudmundsson@akranes.is
www.akranes.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga