Greinasafni: Veitingar
Ástríða í kjötiðnaði
Pylsumeistarinn
Við Laugalæk stendur sérverslun Pylsumeistarans. Þegar stigið er inn í verslunina tekur á móti manni lyktin af reyktu kjöti og fyrir augunum er kjötborð með Lúxus skinku, salami, spænskum lomo, chorizo og  margskonar grillpylsum. Pylsumeistarinn sérhæfir sig í hágæða framleiðslu á grillpylsum, sterkum pylsum og skinku.  Sigurður Haraldsson kjötiðnaðarmeistari og sambýliskona hans Ewa Bernadeta Kromer stofnuðu fyrirtækið árið 2004. Ewu hafði lengi dreymt um að reka sína eigin sérverslun. Umræðan um aukaefnalaus matvæli  og meiri hollustu í þjóðfélaginu gerði það að verkum að nú fannst henni vera rétti tíminn. „Mér hefur fundist vöntun á sérverslunum eins og eru svo víða erlendis. Þær bjóða bæði upp á möguleikann að viðskiptavinurinn velji sjálfur hversu mikið magn hann kaupir af vörunni og einng fær hann að vita nákvæmlega hvað er að finna í matvörunni,“ segir Ewa. Í pylsurnar notar Sigurður uppskriftir frá öllum heimshornum til að mynda Þýskalandi, Ítalíu, Frakklandi, Póllandi, Spáni og Danmörku. „Við vinnum allt á gamla mátann, við notum ekki kartöflumjöl, hveiti eða soja við framleiðsluna,“ útskýrir Ewa

Fastakúnnunum fjölgar

„Við höfum fengið mjög góðar viðtökur hérna,“ segir Ewa. „Hér í hverfinu býr til dæmis mikið af eldra fólki og því finnst æðislegt að geta komið og keypt skammta af til dæmis hreinni skinku fyrir einn eða tvo. Sumar af kjötvörunum eru  því þó framandi, en þá fæ ég oft spurningar um hvað sé best að hafa með einhverri ákveðinni pylsutegund eða skinkutegund og flestir eru spenntir fyrir að prufa eitthvað nýtt. Fastakúnnarnir eru orðnir þó nokkrir,  það er einn sem kemur alltaf inn og biður um fimm sneiðar af sömu skinkunni, það er oft þannig að þegar fólk hefur kynnst svona hreinni afurð, verður ekki aftur snúið.“

Hjónin vinna framleiðsluna af mikilli alúð. „Öll meðferð á kjötinu skiptir máli allt frá fyrsta handtaki að því síðasta. Þegar við afgreiðum kjötið út úr búðinni, er til dæmis mikilvægt að við pökkum  því inn í bréf í stað plasts, það viðheldur ferskleika kjötsins,“ útskýrir Ewa.

Sigurður vinnur allt sjálfur og er stöðugt að finna nýjar aðferðir. „Hingað koma margar fyrirspurnir frá fólki sem hefur annaðhvort fengið ákveðna pylsutegund erlendis og langar að fá hana aftur, eða er sjálft af erlendu bergi brotið og langar í eitthvað sem það þekkir frá sínu heimalandi og hann getur oftar en ekki bjargað því,“ segir Ewa.

Pylsumeistarinn

Hrísateig 47 • 105 Reykjavík
571 3915
kjotpol@visir.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga