Greinasafni: Skipulag
Vogar: Við erum fyrst og fremst að selja lífsgæði

Óvíða fjölgar íbúum hlutfallslega meira en í Vogum á Vatnsleysuströnd. Bæjarstjórinn, Róbert Ragnarsson segir það stefnu sveitarfélagsins að byggja upp fjölskylduvænt samfélag í þessari náttúruparadís.

Vogar á Vatnsleysuströnd er rétt um tólf hundruð íbúa sveitarfélag, fyrst og fremst þéttbýli, en síðan dreifbýli meðfram ströndinni þar sem búa um hundrað manns. Þann 1. Janúar 2006 var nafni Vatnsleysustrandarhrepps breytt í Sveitarfélagið Vogar, samhliða því að stjórnskipan sveitarfélagsins var breytt. Sveitarfélagið er því að vissu leyti nýtt, en byggir á gömlum og traustum grunni.

Sveitarfélagið Vogar er næst landstærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum og íbúum hefur fjölgað jafnt og þar þétt síðastliðin ár, enda í Vogum mjög fjölskylduvænt og stutt að sækja atvinnu og þjónustu.

„Við erum því bæði þorp og sveit,“ segir bæjarstjórinn, Róbert Ragnarsson, og er rosalega rólegt og vinalegt samfélag, „við  erum með litla fallega kirkju út með ströndinni og lítinn og  góðan skóla inni í þorpinu. Hér er mjög vaxandi íþróttafélag og félagsstarf yfir höfuð. Eins og algengt er í smærri sveitarfélögum er kvenfélagið mjög afgerandi hér og má segja að konurnar á svæðinu séu allt í öllu.“

 

Heilsustefna í skóla og leikskóla
Í grunnskólanum eru 220 nemendur en í sveitarfélaginu öllu eru fjögur hundruð börn yngri en átján ára þannig að segja má að Vogar séu mikið barnasveitarfélag. „Leikskólinn  hjá okkur er sprunginn og verið að vinna að nýjum,“ segir Róbert. „Það er nýbúið að stækka skólann og við erum með á teikniborðinu enn aðra viðbyggingu sem við áætlum að taka í gagnið 2010 og þá mun skólinn rúma 450 nemendur. Aðbúnaður í skólanum er mjög góður. Þetta er að stærstum hluta nýtt úsnæði og búið að endurnýja mikið af tækjabúnaði í leiðinni. Ég held að ég geti líka  fullyrt að við séum með flottasta skólamötuneyti á landinu vegna  þess að salurinn er um leið samkomusalur sveitarfélagsins.

Hvað leikskóla- og grunnskólastarf varðar, þá er að leikskólinn okkar heilsuleikskóli. Við erum að reyna að heimfæra þá stefnu yfir á grunnskólann líka og erum núna að fylgja sömu viðmiðum á báðum skólastigum. Heilsuskóli þýðir meiri hreyfing, íþróttir inni í stundatöflunni og við erum með íþróttakennara í leikskólanum. Það er ávaxtastund tvisvar á dag og maturinn má ekki vera mjög saltur og það mega engin rotvarnarefni vera í honum. Við erum að heimfæra þetta yfir á grunnskólann þar sem maturinn er ókeypis fyrir nemendurna. Þetta er samfélag þar sem foreldrarnir eru í burtu allan daginn, vegna þess að stór hluti af íbúunum vinnur fyrir utan sveitarfélagið. Okkur finnst mikilvægt að börnin hafi aðgang að heitum mat í hádeginu, óháð efnahag, og nái svo samfelldum vinnudegi með tómstundum á meðan foreldrarnir  eru fjarverandi vegna vinnu.“

Friðaðar tjarnir, ósnortin strandlengja
Þegar Róbert er spurður út í tónlistarnám, segir hann krakkana stunda slíkt nám í Keflavík, Hafnarfirði og Kópavogi. „Við greiðum framlag í þann skóla sem hver og einn nemandi velur. En nú teljum við okkur vera komin með nógu mikinn fjölda  af börnum til að geta rekið tónlistarskóla, þannig að hann erkominn á teikniborðið. Hér er  þó starfandi kirkjukór og síðan er kominn vísir að skólakór. Við fengum nýjan skólastjóra í haust og hann hefur verið að  vinna í að hleypa skólakór af stokkunum.“

Bæjarstjóranum verður tíðrætt um hversu öruggir foreldrar geta verið um börnin sín í Vogum. Sjálfur á hann son í grunnskólanum. „Hér er mjög lítil umferð og síðan eru krakkarnir að leika sér á útivistarsvæðunum, við tjarnirnar og í móunum. Skipulagið gerir ráð fyrir því að tjarnirnar séu friðaðar og reynum að hreyfa eins lítið við strandlengjunni og unnt er, þannig að íbúarnir hér geti notið þess að ganga meðfram ósnortinni strandlengju. Þá er ég ekki bara að tala um þá strandlengju sem liggur meðfram bænum, heldur í öllu sveitarfélginu. Síðan erum við með skipulögð útivistarsvæði; íþróttasvæðið okkar í Vogum, þar sem er íþróttahús, fótboltavöllur og sundlaug. Þær íþróttir sem eru mest áberandi hjá okkur eru fótbolti, sund og nú nýlega karfa. Við erum með lið í 1. deild í körfunni. Þetta er að vaxa með auknum fjölda. Hér í þorpinu erum við síðan með gríðarlega góðan golfvöll á Kálfatjörn, sem er í dag níu holu völlur en verið að teikna stækkun upp í átján holur.“

 Golf, hestar og gönguleiðir
„Síðan er allt svæðið mikil náttúruparadís. Við erum, til dæmis, með Keili, Háabjalla og Snorrastaðatjarnir og merktar gönguleiðir að öllum þessum stöðum. Það hefur alltaf verið frekar ofarlegar í tengslum við ferðaþjónustu að efla gönguleiðirnar og þær eru margar mjög fallegar hér. Við erum líka með smábátahöfn þar sem allir gömlu karlarnir eru með bátana sína og spjalla við gesti og gangandi, erum með hesthús sem er  stöðugt að fjölga, flottan golfvöll sem er að stækka. Þetta er mikil draumastaður.“

Um þessar mundir er verið að vinna skipulag að tveimur nýjum hverfum í Vogum. Annars vegar, miðbæjarsvæðinu og hins vegar, Grænuborgarhverfi. Á miðbæjarsvæðinu verða um hundrað íbúðir, sem og  verslunar- þjónustusvæði. „Íbúðirnar skiptast til helminga í sérbýli og fjölbýli, þetta eru 26 einbýli ef ég man rétt. Svæðið verður væntanlega byggingarhæft í haust, þannig að það verður tilbúið 2009 til 2010. Grænuborgarhverfið er norðan við bæinn og nálægt sjó. Þar verða mjög flottar sjávarlóðir. Þar er gert ráð fyrir rúmlega tvö hundruð íbúðum í fyrri áfanga og tvö hundruð í seinni áfanga. Þegar seinni áfanginn fer af stað, áætlum við að reisa þar nýjan skóla. Mér skilst að gatnagerð hefjist á þessu svæði í sumar og það verði líka byggingarhæft í haust. Það er fjárfestingarfélagið Þórusker sem á þetta land og ætlar að byggja þarna.“

Nýjar þjónustuíbúðir
Þegar Róbert er spurður hvers konar fólk búi í Vogum, segir hann: „Það er fyrst og fremst ungt fólk. Við erum að byggja upp fjölskylduvænt umhverfi og því líklegt að það verði helst ungt fólk sem er að horfa til okkar. Eins og í svo mörgum  svona litlum samfélögum flyst eldra fólk í burtu, til dæmis til Keflavíkur, þegar það er orðið 67 ára, en núna erum við í næsta mánuði að taka í gagnið þjónustumiðstöð, með þrettán íbúðum. Þar með höfum við byggt upp kjarna þannig að fólk  geti verið hér allt sitt líf, þurfi ekki að flytjast í burtu til að faraá dvalarheimili. Þetta eru eignaríbúðir og síðan eru parhús í kring. Við þurfum ekki á meira húsnæði að halda í þessum geira eins og er þar sem eldri borgarar eru aðeins 7% af íbúafjöldanum.“

Til marks um það hversu hratt Vogar eru að byggjast upp, þá bjuggu þar milli fjögur og fimm hundruð manns fyrir tuttugu árum. Árið 1994 voru þeir orðnir 680, þremur árum seinna um sjö hundruð, árið 2004 eru þeir 940 og 2007 er talan komin upp í 1225. En hvers vegna flytur fólk frekar í Vogana en í Reykjanesbæ? „Það sem ég held að við höfum fram yfir Reykjanesbæ er að við erum í rauninni þorp. Ef þú átt heima í Reykjanesbæ, býrðu í hverfi í stórum bæ. Okkar sérstaða er líka þessi heilsuviðmið í skólanum og leikskólanum. Við höfum verið að efla íþróttastarfið, það er  hagstætt verð hjá okkur á fasteginum, við erum lægri en Hafnarfjörður en aðeins hærri en Reykjanesbær og það er nokkru styttra að keyra höfuðborgarsvæðið fyrir þá sem vinna þar. Við erum fyrst og fremst að selja þau lífsgæði sem allir foreldrar eru að leita að fyrir börnin sín.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga