Greinasafni: Skipulag
Ekki markmið að vaxa sem mest
Þótt Seltirningar stefni ekki á að verða fjölmennt sveitarfélag, segir Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri brýnt að auka framboð á ólíkum tegundum íbúða á næstu árum.

Mynd:Jónmundur Guðmarsson
bæjarstjóri
 
 Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi segir að á síðustu árum hafi framkvæmdir verið miklar í sveitarfélaginu miðað við mörg fyrri ár – og verði það áfram í framtíðinni. „Í rauninni má segja að lítið hafi verið byggt á Seltjarnarnesi allt frá 1990 þegar Mýrahverfið reis,“ segir hann, „en með nýju aðalskipulagi, sem tók gildi í maí 2006, hefur verið mörkuð ný og heildstæð sýn á Seltjarnarnes til ársins 2024. Þar er gert ráð fyrir nokkurri fjölgun íbúða án þess þó að við göngum gegn almennri sátt í sveitarfélaginu um að bærinn vaxii ekki um of; það er að segja, að við verðum ekki of fjölmenn.
 Fyrir utan smærri verkefni munu verða til tvö ný hverfi á Seltjarnarnesi á næstu tveimur til fimm árum. Annars vegar er um að ræða uppbyggingu á Hrólfsskálamel, þar sem gert er ráð fyrir áttatíu til níutíu nýjum hágæðaíbúðum. „Það verkefni er þegar komið af stað á vegum Íslenskra aðalverktaka og hitt er síðan umbreyting Bygggarða, gamla iðnaðarhverfisins á Seltjarnarnesi – en nýtt aðalskipulag gerir einmitt ráð fyrir að það svæði breytist úr iðnaðarhverfi í íbúabyggð á aðalskipulagstímabilinu sem nær til 2024. Hins vegar er ljóst að þróun svæðisins og uppbygging mun að öllum líkindum taka skemmri tíma.“
 
 Sama flatarmál og Mónakóborg
 
Vegna ákvörðunar bæjaryfirvalda um þessa breytingu, má segja að leyst hafi verið úr læðingi frumkvæði og kraftur atvinnulífsins, að sögn Jónmundar. „Þessa dagana er verið að vinna að gerð deiliskipulags fyrir svæðið. Fari fram sem horfir geri ég ráð fyrir því að uppbygging gæti þarna verið að hefjast í náinni framtíð, mögulega innan árs.
 Það er verið að skipuleggja þetta sem heildstætt íbúðahverfi, aðallega hágæða fjölbýli og hugmyndir hafa verið uppi um allt að 180 íbúðir. Það, ásamt Hrólfsskálamelum, auk smærri verkefna gera það að verkum að allt að 290 nýjar íbúðir gætu verið að verða til á Seltjarnarnesi á næstu árum. Það þýðir að fjöldi íbúa gæti að nýju slagað upp í það sem hann var mestur, eða rétt í kringum fimm þúsund manns.
 Flatarmál Seltjarnarness er jafn mikið og flatarmál Mónakóborgar. Þar búa um 30.000 manns. Á Seltjarnarnesi eru nú tæplega 4.600 íbúar, þannig að vissulega mætti byggja meira og hærra, ef það væri sérstakt markmið – en svo er ekki. Hér hefur löngum verið mikil sátt um að halda þessari tilteknu stærð, með 4600 til 5000 íbúa. Ástæðan er sú að stærðin og byggðaformið, íbúafjöldinn eins og hann er nú, ásamt óbyggða svæðinu hér a vestanverðu nesinu eru þættir sem gefa Seltjarnarnesi sína sérstöðu og gera það að eftirsóknarverðu svæði til búsetu.“
 Það má segja að markmiðið með þessum tveimur verkefnum, Hrólfsskálamelum og Bygggörðum sé að bjóða, í auknum mæli, upp á annað búsetuform en nú er á Seltjarnarnesi. Langstærstur mhluti fasteigna á Seltjarnarnesi eru sérbýli, annað hvort raðhús eða einbýli. Með því að bjóða upp á íbúðir í hágæða fjölbýli, sjáum við fyrir okkur að geta gert tvennt í senn; boðið upp á slíkan kost fyrir fólk sem hér býr og vill búa hér áfram, en vill minnka við sig, losa stærri eignir; og hins vegar laðað til okkar nýja íbúa sem kjósa þetta búsetuform fram yfir sérbýli.“
 
 Íbúafækkun snúið við
 „Meðal markmiða okkar er auðvitað að höfða til yngra fólks, en þá ber þess að geta að fasteignaverð á Seltjarnarnesi hefur farið mjög hækkandi á seinustu árum og er með því hæsta sem gerist á landsvísu. Því er ekki hægt að neita að það getur verið erfitt fyrir fólk sem er að hefja búskap að kaupa sína fyrstu íbúð á Seltjarnarnesi. Þannig hefur það lengi verið en mér finnst þróunin á fasteignamarkaði á undanförnum árum hafa ýtt undir það. Þegar talað er um fasteignakaup ungs fólks á Seltjarnarnesi er því einkum átt við fólk á milli þrítugs og fertugs sem er að kaupa sína aðra eða þriðju fasteign.“ Seltirningum hefur á seinustu árum farið nokkuð fækkandi, allt til ársins í ár. Jónmundur segir það vissulega hafa verið áhyggjuefni vegna þess að íbúafjöldi og þá sérstaklega íbúafjölgun er nátengt tekjustofni sveitarfélagsins og getu til þess að sinna lögbundinni þjónustu við þá sem hér búa. „Ég held að skýringanna á þessari fækkun sé helst að leita í þvi að Seltjarnarnes byggðist upp á frekar stuttu tímabili af fólki sem fyrst og fremst var að reisa sér sérbýli. Síðan hefur tíminn liðið, börnin vaxið úr grasi, flutt að heiman, þannig að það hefur verið að gisna í húsunum á seinustu árum, þróunin er sú að það eru stöðugt færri íbúar í hverju sérbýli.“

  Ekki fleiri en fimm þúsund
 „Fólk situr kannski eftir eitt og tvennt í stórum fasteignum, vill gjarnan minnka við sig en ekki flytja af Seltjarnarnesi og þá hefur skortur á annars konar búsetuúrræðum, til dæmis smærri íbúðum í fjölbýli, gert það að verkum að þessi eðlilega hringrás á sér ekki stað, eða er of hæg til að íbúafjöldinn haldist sá sami, eða vaxi. Einmitt þess vegna held ég að þau tvö nýju hverfi sem ég nefndi, ásamt öðru sem í bígerð er, komi til með að koma þessari hringrás af stað. Fólk í stórum húsum selji þau og kaupi sér smærri íbúðir. Þar með losni stærra húsnæði fyrir stærri fjölskyldur sem hafa not fyrir slíkar eignir.
 Eina fyrirsjáanlega hættan sem ég hef séð steðja að okkar sveitarfélagi er þessi fækkun, því hún hefur bein áhrif á getu sveitarfélagsins til að afla tekna og sinna þjónustu við sína íbúa. Hér eru skattar lágir miðað við önnur sveitarfélög á Reykjavíkursvæðinu og því brýnt að íbúafjöldinn sé stöðugur – og helst aukist – til að skattstofninn endurnýi sig. Ef við ætlum okkar að verða ekki fjölmennari en 5000 gefur það auga leið að hér þarf jafnvægi á milli þeirra sem eldri eru, mögulega við lok síns starfsaldurs, og þeirra sem eru í blóma lífsins, afla góðra tekna, þannig að sveitarfélagið geti í senn boðið öllum lægri opinberar álögur en gengur og gerist og veitt samkeppnisfæra þjónustu á öllum helstu sviðum.
 Við sjáum fyrir okkur að þessi mögulega fjölgun í nýjum hverfum muni ekki þrýsta á innviði bæjarins, svo sem skóla eða leikskóla og því þurfum við ekki að gera ráð fyrir slíku. Á hinn bóginn held ég að mjög brýnt sé fyrir okkur að bregðast við þörfum aldraðra hvað varðar búsetu og þjónustu, með fjölgun þjónustuíbúða – en ekki síst byggingu hjúkrunarheimilis til þess að þjónusta okkar öldruðu og sjúku. Við erum í samstarfi við Reykjavíkurborg og heilbrigðisráðuneytið um byggingu níutíu rýma hjúkrunarheimilis á svokallaðri Lýsislóð við Grandaveg. Þá lóð keypti Seltjarnarnesbær sérstaklega vegna þess að hún þótti henta fyrir slíkt samstarf. Við höfum verið tilbúin að leggja lóðina, sem metin er á um hálfan milljarð inn í verkefnið án útgjalda fyrir hina samstarfsaðilana til að gera hjúkrunarheimilið að veruleikaen því miður hafa orðið tafir á á því af ýmsum ástæðum. Á hinn bóginn tel ég að bygging þessa hjúkrunarheimilis sé með allra brýnustu verkefnum á sviði heilbrigðismála á höfuðborgarsvæðinu – og þá ekki síður fyrir ríki og Reykjavíkurborg en okkur. Ég hef trú á því að við komum þessu verkefni á koppinn á næstu misserum.“ 

Það er víða þannig á Seltjarnarnesi að eldri og smærri hús standa á stórum lóðum, kannski rétt í einu horni lóðarinnar. Það hafa ýmsir aðilar séð sér leik á borði að kaupa þær upp, rífa þau hús sem fyrir eru og byggja síðan ný og stærri hús.
 
 Stórar lóðir
 Eitt þrónunarverkefni í viðbót á Seltjarnarnesi er bygging tuttugu og fimm íbúða við Skerjabraut fyrir fimmtíu ára og eldri. „Þar er fyrrum prjónastofan Iðunn sem á að víkja fyrir íbúðabyggð og ég held að þetta sé mjög í takt við þá þróun sem við erum að sjá hér,“ segir Jónmundur. „Fyrirtæki eru að færa sig annað, til dæmis næsr markaðnum eða aðdráttarleiðum – og vegna þess hversu vinsælt Seltjarnarnes hefur verið til búsetu hafa framkvæmdaaðilar verið mjög fljótir að kaupa upp ýmis svæði til að byggja upp íbúðahúsnæði.
 Við sjáum líka annan anga af hækkandi fasteignaverði hér hjá okkur, sem er fólgið í uppkaupum og niðurrifi eldra húsnæðis og þá byggingu stærri eigna eða fleiri eigna á sama bletti. Það er víða þannig á Seltjarnarnesi að eldri og smærri hús standa á stórum lóðum, kannski rétt í einu horni lóðarinnar. Það hafa ýmsir aðilar séð sér leik á borði að kaupa þær upp, rífa þau hús sem fyrir eru og byggja síðan ný og stærri hús. Það eru all nokkur dæmi um það hér hjá okkur og ég hef grun um að sú þróun muni að einhverju leyti halda áfram.“ 


 
 Enginn iðnaður
 Á Seltjarnarnesi er takmörkuð hefð fyrir iðanaðarhverfum og verslun og þjónusta er öll á afmörkuðu svæði. Þegar Jónmundur er spurður hvort á þessu verði einhverjar breytingar, segir hann svo ekki vera. „Sá iðnaður sem við höfum haft hér hefur fyrst og fremst tengst starfsemi úti við Bygggarða; smíðaverkstæði, birfreiðaverkstæði og önnur þjónusta. Þar er einnig rekin plastverksmiðja en í raun má segja að dagar þess háttar starfsemi séu nokkuð taldir á Seltjarnarnesi með þessari umbreytingu hverfisins. Miðbærinn okkar og aðstaða fyrir verslun og þjónustu er hins vegar hér austanmegin, við Eiðistorg og Austurströnd. Þar gerir aðalskipulag ráð fyrir að meginþungi verslunar og þjónustu verði áfram á Seltjarnarnesi – og þessa dagana er að hefjast vinna við deiliskipulag þess svæðiðs sem ætlað er að skilgreina okkar framtíðarsýn í verslunar og þjónustu á Seltjarnarnesi.“

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga