Greinasafni: Skipulag einnig undir: Arkitektar
Þjóðgarðsmiðstöð fyrir Snæfellsjökulsþjóðgarð á Hellissandi
Opin samkeppni var haldin árið 2006 um þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi fyrir Snæfellsjökulsþjóðgarð. Þessi samkeppni er liður í uppbyggingu á þjóðgarðsmiðstöðvum á Íslandi og fer önnur samkeppni í gang fljótlega fyrir Vatnajökulsþjóðgarð; þjóðgarðsmiðstöð á Skriðuklaustri.Tillaga Arkís að þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi var hlutskörpust árið 2006 og hlaut 1. verðlaun. Tillagan byggir á samtali við náttúruna. Húsið kallast á við jökulinn og náttúruna í kring, dýraríki, mannlíf og landslag – og því er ætlað að styrkja hughrif gesta sem heimsækja staðinn. Það var ákveðið að fella bygginguna að umhverfi sínu, þannig að hún væri ekki að drottna yfir því, heldur aðlagast því. Það er gömul gönguleið í hrauninu frá fornri tíð og var byggingin lögð á þessa gönguleið til að styrkja hana auk þess að á henni eru í dag tjaldstæði og Sjóminjasafnið á Hellissandi.
Grunnhugmynd tillögunnar er þrískipt bygging sem skiptist í; fiskibeinið, þjóðveginn og jökulhöfðann. Fiskibeinið er íklætt lerki að utan og þar er þjónustuhluti miðstöðvarinnar að hluta auk aðstöðu þjóðgarðsvarðar. Þjóðvegurinn liggur á milli fiskibeinsins og jökulhöfðans og myndar tengingu milli byggingarinnar og umhverfisins. Hann er að hluta til úr gleri og ofan á þessum þjóðvegi er útsýnispallur með útsýni til allra átta og að jöklinum. Síðan er það jökulhöfðinn, aðalhluti byggingarinnar, sem er að mestu leyti fyrir sýningar og upplýsingar fyrir þjóðgarðinn. Hann er hápunktur byggingarinnar og er klæddur stáli sem nefnist Cortenstál en það ryðgar upp að ákveðnu marki og skapar þau áhrif að samhljómur myndast með árstíðunum og litaafbrigðum þeirra. Lögð var áhersla á einfalda og mjög sterka efniskennd í húsinu sem endurspeglast í formi þess.
Byggingin er um 500 fermetrar og hugsunin er sú að húsið sé fyrir ferðamenn og aðra gesti sem eru að skoða þjóðgarðinn og fá upplýsingar um hann. Síðan er þetta auðvitað aðstaða starfsmanna þjóðgarðsins. Núna er að hefjast endanleg hönnun á húsinu til byggingar og það er áætlað að byggingu þess ljúki 2011.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga