Greinasafni: Arkitektar
Við hlustum á viðskiptavininnÞað ríkja alþjóðlegir straumar og áhrif á arkitektastofunni KRark, sem hefur á sínum snærum arkitekta víða að úr heiminum.
Fyrir átta árum kom ungur arkitekt, Rafael Cao Romero Millán, hingað til lands, eiginlega í ævintýraleit. Hann ætlaði ekki að stoppa lengi – en er hér enn og starfar sem framkvæmdastjóri arkitektastofunnar KRark við Suðurlandsbraut. Ævintýrið segir Cao, eins og hann er kallaður, hófst á því að vinur hans og skólabróðir, Carlos, átti íslenska kærustu og kom hingað til að hitta hana, fór að starfa með Kristni Ragnarssyni hjá KRark og líkaði vel. Þremur árum seinna vantaði fleiri arkitekta á stofuna og spurði Kristinn Carlos þá hvort hann þekkti ekki fleiri arkitekta í Mexíkó sem gætu hugsað sér að koma hingað til lands að vinna. Sá hafði samband við Cao – sem sló til og hér ætlar hann að lifa og starfa áfram. 
„Það er gott að búa hér,“ segir Cao. „Þar fyrir utan er mikið um að vera hér á stofunni, alltaf meira en nóg að gera, verkefnin skemmtileg, eitthvað nýtt að gerast á hverju ári, stofan stöðugt að stækka og starfið því mjög ögrandi.“ 

Norðurturninn við Smáralind 

Skortur á arkitektum 
Cao segir mikinn skort á arkitektum á Íslandi og því hafi KRark í gegnum árin brugðið á það ráð að fá arkitekta erlendis frá. „Það má segja að með stækkuninni haf stofan orðið mjög alþjóðleg. Við erum með arkitekta frá Kosovo, Kína, Írlandi, Þýskalandi, Mexíkó, Póllandi og höfum áður verið með arkitekta frá Taiwan, Ítalíu, Venesúela, Argentínu og Madagaskar. Það er því óhætt að segja að hugmyndabanki okkar standi saman af áhrifum alls staðar að úr heiminum.“ 
KRark er almenn arkitektastofa, þar sem fólk getur látið hanna fyrir sig hvers konar húsnæði, allt frá einibýlishúsum, raðhúsum, parhúsum og fjölbýlishús að iðnaðarhúsnæði, verslunar- og þjónustuhúsnæði, sumarbústöðum, hesthúsum og skemmum. Þegar saga KRark er skoðuð, má sjá þar ótal glæsileg og sérstæð hús, ávallt stílhrein og línur skýrar. Meðal stærri verkefna sem KRark hafa hannað og nú eru í byggingu, eru Norðurturn Smáralindar, byggingin sem er að rísa við Skógarlind, í hallanum við Núpalind og síðan gríðarmikið skrifstofuhús við Urðarhvarf.

Urðarhvarf 8, Kópavogi 

„Með þessari aðferð tekur aðeins einn mánuð að vinna það sem áður tók sex til sjö mánuði. Ég spái því að þetta eigi eftir að verða byggingaraðferð framtíðarinnar. Það er mikil breyting.“ 

Jorge González Enriquez, Kristinn Ragnarsson, Rafael Cao Romero Millán. Mynd Ingó 

Enginn tími til að taka þátt í samkeppnum 
„Þetta eru stærstu verkefnin sem við erum með í bili,“ segir Cao en þegar hann er spurður hvort stofan hafi hlotið þessi verkefni í samkeppni, hristir hann höfuðið og segir: „Nei, við höfum ekki mikið verið að taka þátt í samkeppnum; við höfum hreinlega ekki tíma til þess. Þegar við tökum að okkur verkefni, er það vegna þess að við erum beðnir um það. Hingað kemur fólk og biður okkur að teikna fyrir sig íbúðarhúsnæði, verktakar sem hafa lengi skipt við okkur leita til okkar aftur og aftur, einnig fjárfestar sem vilja fá okkur til að hanna verkefni sem þeir ætla sér að fjárfesta í. Hvað þessi þrjú stóru verkefni varðar, þá eru það ÞG verktakar sem fengu okkur til að hanna húsnæðið í Urðarhvarfi, í Smáralindinni voru það fjárfestar og síðan eru það verktakar sem eiga húsið við Skógarlind.“ 

Skógarlind 1 

Cao segir KRark ekki með neinn einn ákveðinn stíl sem hægt sé að þekkja húsin þeirra af. „Það má kannski segja að við vinnum út frá fúnkisstíl – vegna þess að þegar fólk leitar til okkar, ræðum við mjög ítarlega við það til þess að finna lausn á því verkefni sem við erum að fara að taka að okkur. Við gerum allt í samráði og samvinnu við þann aðila sem er að kaupa af okkur hönnun á húsnæði. Við hlustum á viðskiptavininn og leggjum mikla áherslu á að veita góða þjónustu.“ Ný efni – nýjar aðferðir Á stofunni eru tólf starfsmenn, auk þess sem KRark starfar með arkitektum erlendis, mest þó í Þýskalandi og Mexíkó. Um tuttugu manns starfa við stofuna eins og er og sá hópur fer stækkandi. Hér á landi vantar allar arkitekta- og verkfræðistofur mannskap og við höfum brugðið á það ráð að fá fólk erlendis frá.“ Þegar Cao er spurður hvernig erlendum arkitektum gengur að vinna í íslenskri náttúru og umvherfi, segir hann alla arkitekta sem þeir ráða fá tveggja mánaða aðlögunar- og þjálfunartíma. „Þennan tíma notum við til að kynna fyrir þeim náttúru, veðurfar, hvernig Íslendingar hugsa, hvers vegna við hönnum á þann hátt sem við gerum hér og setja þá inn í reglugerðir og kerfi. Þetta gerum við til að fá frá þeim þá sömu þjónustu og gæði sem við leggjum áherslu á.“ Cao segir Ísland vissulega mjög frábrugðið Mexíkó hvað varðar náttúru og umhverfi, að ekki sé talað um veðurfarog að hér séu allt önnur efni notuð í hönnun húsa. „Hins vegar skiptir það engu máli,“ segir hann. „Það eru ekki til nein endanleg efni í neinu landi. Það eru alltaf að koma ný efni á markaðinn og það er sama hvar þú býrð, þú þarft alltaf að fylgjast með og læra nýja hluti.“ Það eru til dæmis alltaf að koma ný efni á markaðinn í klæðningum og gleri, auk þess sem byggingaraðferðir þróast. Frá 2005-2006 hefur verið erfitt að fá verktaka til að byggja fyrir fólk og við höfum brugðið á það ráð að bjóða upp á forsteyptar einingar. Eftir að við ljúkum við hönnun húsanna, sendum við beiðni til verksmiðja sem vinna að forsteyptum húsum og biðjum þær að setja húsin saman. Þetta er mjög vönduð og nákvæm vinna og nýtur sífellt meiri vinsælda. Með þessari aðferð tekur aðeins einn mánuð að vinna það sem áður tók sex til sjö mánuði. Ég spái því að þetta eigi eftir að verða byggingaraðferð framtíðarinnar. Það er mikil breyting.“ 

Kópavogsbraut 77 

Endalaust ný verkefni 
Aðalaatriðið við hönnun húsa hjá KRark segir Cao vera að notkun og útlit fari saman og að burðarvirkið sé einfalt og húsið þar af leiðandi mun ódýrara fyrir viðskiptavininn. En hvenær varð slíkur skortur á arkitektum hér á landi? 
„Þetta hefur gerst á síðatliðnum tveimur til þremur árum. Það hefur risið hér gríðarlegt magn af byggingum og það eru endalaust ný verkefni. Og ef svo ólíklega vill til að verkefnum fækki hér, þá er alltaf hægt að fara í útrás. Eins og er erum við m.a. að vinna að nýjum verkefnum eins og Hampiðjureitinn í Reykjavík, verkefni við Laugaveg og Lindargötu ásamt margvíslegum verkefnum bæði í Kópavogi og nýju byggingasvæðunum í Mosfellsbæ, auk einingaverksmiðju í Þorlákshöfn.

 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga