Greinasafni: Skipulag
Öflug fjölskylduþjónusta og tengsl við náttúrunaMenn vilja hafa hér dálitla sveit í borg segja Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Finnur Birgisson skipulagsstjóri um Mosfellsbæ – en þar eru þrjú glæsileg íbúðarhverfi í byggingu.
Mosfellsbær er án efa eitt fallegasta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu, með fjöll og dali, fell og heiðar, sjávarströnd og fjórar ár sem liðast um bæjarlandið. Samt er svo stutt síðan Mosfellsbær var einskonar miðjulaus sveit að það er auðvelt að líta framhjá þeim kostum sem búsetu þar fylgir.
„Þegar ég flutti í þetta ágæta bæjarfélag, sem þá hét Mosfellssveit, bjuggu hér um þúsund manns,“ segir bæjarstjórinn, Haraldur Sverrisson. „Hér voru tvær eiginlegar götur í sveitinni og maður vann við það á sumrin sem strákur að smala fé úr görðum bæjarbúa – þannig var sveitin. Síðan gerist það að byggðin fer að stækka mjög hratt. Fyrsta stökkið kom snemma á áttunda áratugnum, en í kjölfarið á Vestmannaeyjagosinu 1973 fluttu allmargir Vestmannaeyingar hingað. Þetta var mikill viðburður hér í sveitarfélaginu sem síðan hefur verið að stækka mjög hratt. Það hefur að visu gerst í ákveðnum stökkum – en umgjörðin um byggðina er alltaf sú sama. Menn vilja hafa hér dálitla sveit í borg.“

Einstök náttúra

Þegar Haraldur og skipulagsstjóri bæjarins, Finnur Birgisson, eru spurðir hverjir séu helstu kostir Mosfellsbæjar, segja þeir: „Við eigum hér mjög fallega náttúru, strandlengjuna, fellin, fossana, heiðarnar með vötnum sínum, og árnar sem eru fjórar; tvær inni í byggðinni og tvær á mörkum bæjarlandsins. Tvær þeirra eru miklar og merkilegar laxveiðiár. Sérstaða Mosfellsbæjar felst í því hversu margar landslagsgerðir þar er að finna. Þetta er sú ímynd Mosfellsbæjar sem bæjarbúar vilja halda á lofti. Öll skipulagsmál hafa gengið út á það að búa til hagkvæma byggð sem fólki líður vel í, og tengist náið náttúrunni og þeim lífsgæðum sem fólk vill njóta við þessar aðstæður. Í skipulaginu hefur verið lögð sérstök áhersla á stíga og góðar göngu- og reiðleiðir. Hesthúsin eru nú komin inn í miðja byggð og frá þeim liggja reiðleiðir út úr byggðinni. Hesthúsahverfið er einnig nálægt ströndinni og meðfram henni liggja gönguleiðir og hjólastígar. Á Blikastaðanesi er glæsilegur golfvöllur sem brátt verður 18 holur, auk þess sem annar golfvöllur er uppi í Mosfellsdal. Bæjarbragurinn byggist á þessari tengingu byggðar, náttúrunnar, umhverfis og tómstunda. Rétt handan við næsta fell er svo Mosfellsdalurinn, þar er maður kominn út í sveit þar sem er að finna margar tegundir landbúnaðar, s.s.ylrækt og sauðfjárbúskap, að ógleymdri hestamennskunni. En þrátt fyrir þessa miklu tengingu við náttúruna, umhverfið og sveitina, ertu örskotsstund að fara hvert sem þú þarft að fara, hvort heldur er til vinnu eða annað.“

Ríkulegt tómstundalíf
Finnur segir mannlífið í Mosfellsbæ vera fjölbreytt og allt skipulag taki mið af sem fjölbreyttustu þörfum, allt eftir því hvort fólk vilji búa í sérbýli eða fjölbýli, í mikilli nálægð við þjónustu eða ekki. „Við höfum lagt áherslu á fremur dreifða byggð, þannig að þéttleikahlutfall hér er lágt miðað við sveitarfélögin í kringum okkur. Byggðin er lágreist og við erum með lægra hlutfall af fjölbýlishúsum en almennt gerist á höfuðborgarsvæðinu – en erum þó með fjölbreytta íbúðagerð. Hlutfall sérbýlis er því fremur hátt hér.“ „Við höfum lagt mikla áherslu á að þjónusta fjölskyldufólk á sem bestan hátt,“ segir Haraldur. „Við erum með frábæra skóla og það er engin bið eftir leikskólaplássum, auk þess sem sú þjónusta er boðin á sanngjörnu verði Við höfum lagt mikið upp úr uppbyggingu tómstundaaðstöðu og íþróttamannvirkja, rekum stóra og fjölsótta íþróttamiðstöð og höfum nýlega opnað eina glæsilegustu sundlaug landsins.“ En það eru ekki allir að hamast í íþróttum og þegar Haraldur er spurður um tónlistarlífið, getur hann svo sannarlega leyft sér að halla sér aftur í stólnum og brosa. „Við erum með eitt fjölbreyttasta tónlsitarlíf á landinu. Hér starfa um tíu kórar og þeim fer fjölgandi. Við erum með listaskóla sem er einstakur á landsvísu, – eina sveitarfélagið á landinu sem rekur slíkan skóla, þar sem boðið er upp á samþættingu á myndlist, tónlist og leiklist. Skólahljómsveitin okkar er margrómuð og það er mikil hefð fyrir tónlist í skólum hér. Má í því sambandi nefna að öll börn í Mosfellsbæ fá grunntónlistarmenntun ókeypis. Það er hluti af skólastarfinu. Við leggjum geysilegan metnað í skólastarfið hér og leggjum mikið upp úr því að samtvinna skólastarf og tómstundir í heilsdagsskóla. Í komandi fjárhagsáætlun leggjum við enn ríkari áherslu á þetta en verið hefur.“

Finnur Birgisson skipulagsstjóri og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í
Mosfellsbæ.
Mynd Ingó 

Þrjú hverfi í uppbyggingu
Í Mosfellsbæ eru þrjú hverfi í uppbyggingu þessa stundina: Krikahverfi, þar sem landið var í eigu bæjarins, og svo Leirvogstunga og Helgafellshverfi, þar sem landið er í eigu einkaaðila. Í Krikahverfi var lóðunum úthlutað af bænum en þar verða 220 íbúðir sem skiptast í 40% fjölbýli og 60% sérbýli. Hverfið er langt komið í byggingu og fólk þegar byrjað að flytja inn. „Þarna er í gangi mjög nýstárlegt og metnaðarfullt skólaverkefni,“ segir Haraldur. „Haldin var samkeppni um fyrirhugaðan skóla; ekki bara um bygginguna, heldur líka um stefnumörkun fyrir allt skólastarfið. Það var því óskað eftir sameiginlegum tillögum arkitekta og sérfræðinga um skólastarf og kennslu. Þarna verður skóli fyrir börn frá eins árs upp í níu ára. Með þessu náum við samþættingu á þremur tegundum af þjónustu, lausn fyrir börn sem hafa verið hjá dagforeldrum, börn á leikskólastigi og síðan verða þarna fjórir fyrstu bekkirnir í grunnskóla.“ Í Leirvogstunguhverfi verða samkvæmt skipulaginu 420 íbúðir, allar í sérbýli. „Skipulagið þar er sérstaklega hugsað út frá tengslunum við náttúruna,“ segir Haraldur. „Þetta verkefni er þannig unnið Mosfellbær gerir samning við landeigandann um uppbyggingu hverfisins. Landeigandinn tekur að sér allar grunnframkvæmdir við hverfið, svo sem gatnagerð, lagnir og lýsingu og frágang opinna svæða og tekur einnig þátt í kostnaði við byggingu skólans í hverfinu. Hann selur byggingarréttinn á lóðunum til einstaklinga eða fyrirtækja, en afhendir bænum síðan lóðirnar, þannig að þær verða að lokum leigulóðir í eigu bæjarins. Bærinn yfirtekur einnig göturnar og annað sameiginlegt og sér um rekstur þess. Með þessu öllu er tryggt að uppbygging hverfisins sé “sjálfbær“ og engin hætta á Öflug fjölskylduþjónusta og tengsl við náttúruna Við leggjum geysilegan metnað í skólastarfið hér og leggjum mikið upp úr því að samtvinna skólastarf og tómstundir í heilsdagsskóla. Í komandi fjárhagsáætlun leggjum við enn ríkari áherslu á þetta en verið hefur.“ 11 því að að kostnaðurinn við hana verði sveitarfélaginu ofviða.“ „Í Helgafellshverfi er unnið eftir sama módeli að þessu leyti,“ segja þeir Haraldur og Finnur. Það er hins vegar skemmst á veg komið af þessum þremur hverfum. „Þar verða um þúsund nýjar íbúðir, 45% í fjölbýli og 55% í sérbýli. Skipulag hverfisins er byggt á verðlaunasamkeppni sem landeigendur í Helgafellslandi og Mosfellsbær stóðu sameiginlega að. Út frá þeirri tillögu er síðan verið að vinna. Vinningstillagan hefur gengið undir gælunafninu „Augað,“ vegna þess að í miðju hverfinu er miðsvæði sem er líkt auga að lögun, með skólum og leikskólum og íbúðum í fjölbýli. Í kringum þetta auga, raðast síðan sérbýlishúsabyggð, upp að Helgafellsrótum og niður að Varmá. Í skipulaginu er haldið í náttúrueinkenni landsins eins og kostur er og íbúunum boðið upp á möguleika til að nýta sér þessa fallegu náttúru í daglega lífinu. Náttúrunni er ætlað að verða hluti af lífsmynstri fólksins sem býr í hverfinu.“

Leirvogstunga 

Atvinnu- og iðnaðarsvæði
Í Mosfellsbæ er einnig í uppsiglingu stórt atvinnusvæði á Leirvogstungumelum. „Það sem er líkt með því og íbúðasvæðunum sem við vorum að nefna, er að landið er í eigu fyrirtækis sem sér um að uppbygginguna.“ „Að undanförnu hefur verið í gangi deiliskipulagsvinna í miðbænum okkar og tilgangurinn m.a. að gera hann þannig úr garði að hann geti þjónustað Mosfellinga í bráð og lengd. Fyrir síðustu kosningar lá fyrir hugmynd að skipulagi miðbæjarins, sem hefur verið til skoðunar. Við létum kanna viðhorf bæjarbúa og nú er að koma skýrari mynd á tillöguna sem gerir ráð fyrir uppbyggingu á verslunar- og þjónustukjarna, og þéttingu íbúðabyggðar í útjöðrum miðbæjarins til að skapa bakland fyrir þá verslun og þjónustu sem á að bjóða hér upp á. Þá felst í skipulagshugmyndunum að framhaldsskóli verði nánast í sjálfum miðbænum og að í miðbænum rísi kirkja og menningarhús sem yrðu samvinnuverkefni kirkjunnar og sveitarfélagsins.“ „Allt er þetta gert til að styrkja innviði bæjarfélagsins, vegna þess að Mosfellsbær er það sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu þar sem íbúum mun fjölga hlutfallslega mest á næstu árum. Hér er geysileg uppbygging sem kallar á meiri og fjölbreyttari þjónustu, eins og uppbyggingu framhaldsskóla og á menningarsviðinu. Þá er að hefjast hér uppbygging á öldrunarsetri, - kjarna þar sem verða öryggisíbúðir fyrir eldri borgara, hjúkrunarrými og aðstaða fyrir félagsstarf aldraðra. Hér er því verið að huga að þörfum allra aldurshópa.“

Miðjan á svæðinu er kölluð Augað enda eins og auga í laginu.
Það sem gert er þarna er að tengibrautin í gegnum hverfið er klofin í
tvennt utan um miðju hverfisins og þar verður 30 km hámarkshraði.
Í Auganu má sjá fyrirhugaðan Helgafellsskóla.
 

Framtíðin
Nýlega auglýsti Mosfellsbær 10 atvinnulóðir fyrir léttan iðnað í Desjamýri, sem er norðan undir Úlfarsfelli. Lóðunum verður úthlutað fljótlega, en mikil eftirspurn reyndist vera eftir þeim. Að lokum má geta þess að í aðalskipulagi bæjarins, sem nær til ársins 2004, er gert ráð fyrir stórum íbúðarsvæðum sem muni byggjast síðar á skipulagstímabilinu. Stærsta svæðið er á landi Blikastaða þar sem gert er ráð fyrir 1800 nýjum íbúðum, en í landi Lágafells, Sólvalla og Akra er gert ráð fyrir um þúsund nýjum íbúðum. Ekki er hafin deiliskipulagsvinna á þessum svæðum, en gert er ráð fyrir að þau byggist upp á árunum 2012 til 2024.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga