Greinasafni: Skipulag
Við höfum skyldur gagnvart þeim sem til okkar leita

Guðmundur Bjarnason,
framkvædastjóri Íbúðalánasjóðs.


Íbúðalánasjóður er samfélagslegur sjóður, í eigu fólksins í landinu og er að þjóna fólkinu í landinu, segir Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.

Tilgangur Íbúðalánasjóðs er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks á að eignast og leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
„Þetta er lögboðið hlutverk okkar,“ segir Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs og bætir við: „Munurinn á okkur og bönkunum er sá að hjá okkur eiga allir rétt á láni, á lægstu markaðsvöxtum, hvar sem þeir búa á landinu, án tillits til efnahags, svo fremi sem viðkomandi einstaklingur eða fjölskylda geti staðið undir láninu. Það er þessi réttur sem skiptir höfuðmáli. Markmiðið er að tryggja öllum að komast í eigið hóflegt húsnæði á bestu mögulegu kjörum hverju sinni.
Við eigum alltaf að fá bestu möguleg kjör í íslenskum krónum. Annars vegar, vegna þess að við fjármögnum okkur með því að gefa út íbúðabréf til langs tíma. Þegar okkur vantar fé til útlána förum við í útboð og fjármálamarkaðurinn ákveður hvaða fjárhæð hann vill fá fyrir sína peninga. Hins vegar, fáum við alltaf bestu kjör sem eru í boði hverju sinni, vegna þess hvað sjóðurinn er stór og nýtur ríkisábyrgðar. Kjörin sem við fáum byggja á stærðinni, gæði lánasafnsins og því að við erum í eigu ríkisins. Þeir sem eru að kaupa af okkur íbúðabréf vita að þeir muni fá peningana sína greidda aftur hundrað prósent samkvæmt þeim skilmálum sem bréfin kveða á um.“

Vaxtaálag í algeru lágmarki
„Útlánsvextirnir okkar byggjast á þeim kjörum sem við fáum í þessum útboðum íbúðabréfa. Við leggjum fyrirfram ákveðið álag á lánin sem er eins lágt og unnt er, til þess að mæta útlánatöpum, rekstri sjóðsins og svo framvegis. Þess vegna er ákvörðun útlánavaxta alltaf gagnsætt ferli hjá okkur. Í gegnum tíðina höfum við alltaf verið með bestu útlánavextina. Þrátt fyrir að bankarnir hafi á tímabili komið og boðið lán sem virðast á svipuðum vöxtum og lánin okkar, þá eru heildarkjörin og skilmálar okkar betri.“
Íbúðalánasjóður er samfélagslegur sjóður, í eigu fólksins í landinu og er að þjóna fólkinu í landinu. Það gerir hann með því að útvega hagkvæmustu lán hverju sinni og með því að halda vaxtaálagi í algeru lágmarki, aðeins til að standa undir sjóðunum og viðhalda sterkri stöðu hans.
“Það skal tekið fyrst fram að það er val hvers og eins hvar hann tekur lán. Það er ekki markmið Íbúðalánasjóðs að viðhalda markaðshlutdeild eða keppa við einn eða neinn. Hann starfar samkvæmt þeim lögum og reglum sem Alþingi og stjórnvöld setja honum.
Við höfum, hins vegar, ákveðnar skyldur gagnvart þeim sem til okkar leita. Okkar markmið er að hjálpa fólki að komast inn í hóflegt húsnæði, þannig geta allir fengið hér allt að átján milljón króna svo fremi sem það fari ekki yfir 80% af kaupverði og takmarkist ekki af brunabótamati “ segir Guðmundur.

Í árslok námu útlán Íbúðalánasjóðs 467.084 milljarða. kr. og hækkuðu um 60.535 milljarða. kr. á árinu 2007.

Greiðsluerfiðleikar og vanskil
En, eitt er að taka lán, annað að borga það niður. Margir þekkja þá klemmu að lenda í tímabundnum erfiðleikum og vanskilum og sjá enga leið út úr henni. Hjá Íbúðalánasjóði er svigrúm til að bregðast við slíkum vanda. „Við getum fryst lán í allt að þrjú ár, lengt lánstíma til að létta greiðslubyrði og breytt vanskilum í allt að fimmtán ára lán,“ segir Guðmundur. „Hugsunin með “frystingunni” er sú að í stað þess að þurfa að borga þessar krónur í íbúðalánið til okkar geti fólk notað peningana til að greiða niður aðrar skuldir eða skuldbindingar til að koma sér á réttan kjöl. Það geta verið margvíslegar ástæður fyrir því að fólk geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Til dæmis tímabundið atvinnuleysi, eða tekjulækkun, sjúkdómar eða barneignir. Stundum þarf fólk bara svigrúm til að endurskipuleggja skuldbindingar sínar og með því að fresta endurgreiðslu á íbúðaláni, á það möguleika á að láta dæmið ganga upp.“
Þetta hljómar óneitanlega skynsamlegri leið en að ganga að fólki, þannig að það missi heimili fjölskyldunnar, eða lendi í fjárhagskröggum sem aldrei verður hægt að snúa sig út úr. Fyrir utan að brjóta niður fjölskyldueininguna, hlýtur það að að vera óhagkvæmt fyrir þjóðfélagið, enda segir Guðmundur það reynslu Íbúðalánasjóðs að langflestir komi sér aftur á fyrra ról, finni sér nýja vinnu eða leið til að auka tekjur sínar. „Enn einn hópurinn sem getur sótt um frestun, eru þeir sem vilja fara í frekara nám. Þetta er fólk sem hefur ekki séð fram á að komast í nám vegna þess að það þarf að standa undir húsnæðisskuldum. Frysting á láninu frá Íbúðasjóði um tíma getur hins vegar skipt sköpum vegna þess að þú getur farið í nám án þess að missa húsnæðið, þótt tekjurnar á þeim tíma minnki.“

Viðhald eigna og réttur lántakanda
„Einn munur á okkur og bönkunum er að við lánum eingöngu til kaupa á íbúðum og til bygginga á íbúðum. Við lánum hins vegar ekki neyslulán eða endurfjármögnunarlán. Þó getur þú fengið viðbótarlán hjá okkur til endurbóta og uppbyggingar, ef húsið þitt er orðið meira en fimmtán ára og þú átt laust veð í því. Það skiptir miklu máli að þú getir viðhaldið húsinu þínu – en gamla lánið, ef það er frá okkur, og endurbótalánið getur samtals aldrei orðið hærra en átján milljónir.“ Þegar Guðmundur er spurður hvort byggingargleði landsmanna sé ekki komin úr böndunum, segir hann: “Það er ekki okkar að segja til um það. Við bara lánum fólki sem vill kaupa viðkomandi íbúðir. Við stjórnum því ekki hversu mikið er byggt, rétturinn til lántöku hjá Íbúðalánasjóði er persónubundinn svo fremi sem þú hafir tryggt veð og getir staðið undir láninu. Til að finna út úr því getur þú gert greiðslumat rafrænt á netinu. Umsóknin er líka rafræn á netinu. Við rafvæddum þetta allt saman árið 2004. Þú getur sótt um hvar sem er á landinu og getur fengið skuldabréfið þitt afgreitt hjá okkur í Borgartúninu eða í hvaða sparisjóði sem er. Með þessu erum við að gera það sem við boðuðum á sínum tíma þegar við sögðumst ætla að ná til landsmanna hvar sem þeir byggju með upplýsingatækninni.

Höfuðstöðvar Íbúðalánasjóðs í Borgartúni.

Hámarkslán er stjórnvaldsákvörðun
Það eiga margir erfitt með að skilja hvers vegna Íbúðalánasjóður veitir aldrei hærri upphæð en átján milljónir við kaup á fasteignum. „Þetta er stjórnvaldsákvörðun,“ segir Guðmundur. „Stjórnvöld hafa ákveðið að hámarkslán Íbúðalánasjóðs skuli vera átján milljónir og ekki króna í viðbót. Ef hámarkslánið hefði á undanförnum árum hækkað í takt við fyrirkomulag sem ákveðið var 2004, þá ætti hámarkslán í dag að vera á milli 24 og 25 milljónir. Síðan er hámarkslán takmarkað á þann hátt að það getur aldrei orðið hærra en brunabótamat og lóðarmat íbúðar samanlagt, sem gerir það að verkum að því miður getum við ekki sinnt ákveðnum hópi ungs fólks og fólks í lægstu tekjuhópunum sem eru að kaupa ódýrustu íbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu, því oftast er markaðsverðið jafnvel tvöfalt hærra en brunabótamat og lóðarmat. Stjórnvöld hafa ekki treyst sér til að breyta þessu viðmiði við brunabótamat þótt viðmiðið hafi aldrei verið hugsað til að takmarka almennt útlán Íbúðalánasjóðs. Því miður verður þessi hópur að fá viðbótarfjármagni annars staðar, hjá bönkunum, sparisjóðum eða lífeyrissjóðum, með lánsveði hjá ættingjum.“ En hvernig fer þetta unga fólk þá að? Er verið að hrekja það út fyrir borgarmörkin?
“Það er líklegt að stærsti hópur yngsta fólksins sem tekur lán hjá Íbúðalánasjóði leiti að íbúðum á jaðarsvæðum höfuðborgarsvæðisins. Með jaðarsvæðum á ég til dæmis við Reykjanesbæ, Selfoss, Akranes, Hveragerði, þar sem markaðsverð liggur nær samanlögðu brunabótamati og lóðamati”.

Fjármögnun leiguíbúða
Eitt af hlutverkum Íbúðalánasjóðs er að veita lán til leiguíbúða. Guðmundur segir það alveg ljóst að þær lánveitingar hafi átt þátt í að skapa þó þann faglega leigumarkað sem er til staðar á Íslandi og bætir við: „En því miður, þá hafa sveitarfélögin og aðrir þeir sem rétt eiga til slíkrar lántöku ekki fullnýtt þær lánsheimildir sem Íbúðalánasjóður hefur haft undanfarin ár til uppbyggingar félagslegra leiguíbúða. Þetta er þó ekki algilt og á ekki við um Reykjavík, þar sem félagslegum leiguíbúðum hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Þá hefur Kópavogur staðið sig vel. Auk þess hafa þeir sem reka nemendaíbúðir sótt fé í þennan lánaflokk, því Íbúðalánasjóður stendur að baki þeim stóru og öflugu nemendagörðum sem risið hafa í skólaþorpunum að Bifröst, Hvanneyri og á Hólum, sem og í Reykjavík, á Akureyri og víðar“ segir Guðmundur að lokum.

„En því miður, þá hafa sveitarfélögin og aðrir þeir sem rétt eiga til slíkrar lántöku ekki fullnýtt þær lánsheimildir sem Íbúðalánasjóður hefur haft undanfarin ár til uppbyggingar félagslegra leiguíbúða. “

„Munurinn á okkur og bönkunum er sá að hjá okkur eiga allir rétt á láni, á lægstu markaðsvöxtum, hvar sem þeir búa á landinu, án tillits til efnahags, svo fremi sem viðkomandi einstaklingur eða fjölskylda geti staðið undir láninu. Það er þessi réttur sem skiptir höfuðmáli. Markmiðið er að tryggja öllum að komast í eigið hóflegt húsnæði á bestu mögulegu kjörum hverju sinni.“

Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga