Greinasafni: Skipulag einnig undir: Arkitektar
Vistvæn Náttúrufræðistofnun Nýtt hús Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti.


Fyrirhugað er að nýtt húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnun muni rísa við Urriðaholt í Garðabæ og er byggingin hluti af vistvænu skipulagi í Urriðaholti. Skipulagið er unnið af alþjóðlegum ráðgjafahópi, sem hönnunar- og ráðgjafafyrirtækið Arkís er hluti af, og hefur skipulagið unnið til verðlauna fyrir sérstæðu sína, bæði Livecom verðlaun um lífsgæði í bæjarskipulagi, og verðlaun í Boston fyrir “excellent award for sustainable planning,” eða frábæra hönnun á vistvænu skipulagi.
 Hús Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti markar tímamót í hönnun vistvænna bygginga á Íslandi. Hönnunarferlið einkennist af ígrundaðri ákvarðanatöku sem mótast af þekktu alþjóðlegu umhverfisvottunarferli, LEED (Leadership in Energy and Environmental Design). Efnisval, uppbygging, innra fyrirkomulag og útfærsla kerfa eru öll mótuð út frá vistvænni hugsun. Ennfremur endurspeglast náttúruleg fyrirbæri í byggingunni, jafnt að innan sem utan, sem endurspeglar ímynd og tilgang Náttúrufræðistofnunar.
 Mikil áhersla er lögð á bjart og vistlegt umhverfi með náttúrulegri loftræstingu og allt efnisval miðar að því að það sé heilsusamlegt og endurnýtanlegt. Athygli gesta og starfsmanna er dregin að náttúrulegum hringrásarferlum, t.d. með því að gera yfirborðsvatn af þaki sýnilegt og áþreifanlegt þegar það rennur niður húsveggi og út í tjarnir á yfirborði jarðar. Fyrirhugað er að gróður muni þekja þak og hluta veggflata. Húsið mun hafa sérstætt útlit tengt náttúrunni en hönnun er í fullum gangi.
 Byggingin byggist upp af þremur einingum þar sem starfsemi hússins fer fram. Þessar einingar eru skornar sundur af tveimur gjám, þar sem aðeins bjartir glergangar og léttir stigar tengja saman byggingarhlutana. Þessir grönnu og gagnsæju tengigangar veita notendum byggingarinnar tilbreytingu frá skrifstofu- og rannsóknaumhverfinu. Þarna getur starfsfólkið stigið út í annan heim og komist í sterk sjónræn tengsl við aðliggjandi gróðurveggi, flæði yfirborðsvatns, veðurfar, himinn og sjóndeildarhring.
 Byggingin hýsir rannsóknarstofur, safnaskála, bókasafn og skrifstofurými Náttúrufræðistofnunar. Húsið er 3.500 fermetrar á þremur hæðum og byggingin verður höfuðeinkenni hverfisins þegar komið er inn á aðkomutorg í þessu nýja hverfi í Urriðaholti frá Reykjanesbraut. Byggingin er hönnuð af Arkís og ráðgert er að hún verði tekin í notkun árið 2009.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga