Greinasafni: Skipulag
Glæsileg byggð í Grænuborg

Þráinn og Ómar. Mynd Ingó.

Hún verður glæsileg byggðin á Grænuborgarsvæðinu í Vogum. Skipulag og undirbúningur svæðisins til framkvæmda er í höndum félags sem ber heitið Þórusker,. „Það er búið að ákveða að hafa þarna blandaða byggð, sérbýlis og fjölbýlis,“ segir Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá Landslagi ehf, sem hefur annast skiplag svæðisins ásamt Ómari Ívarssyni skipulagsfræðingi. Landslag er jafnframt skipulagsráðgjafi sveitarfélagsins við gerð aðalskipulags og ýmissa deiliskipulagsverkefna. „Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir 246 íbúðum og þar af erum 112 í fjölbýli, fimmtíu og ein í einbýli og restin eru par- og raðhús.“

Útsýni til strandar frá Grænuborgarsvæði.
 
Deiliskipulagið að hverfinu er tilbúið til lokaafgreiðslu, þar sem skilgreind er gatnakerfi og byggingalóðir á svæðinu sem liggur niður að sjó í hrauninu norðan við Voga. „Þegar seinni áfangi verður skipulagður kemur þar inn skóli, leikskóli og fleiri íbúðir,“ segir Þráinn og bætir við: „Þetta liggur rétt norðan við núverandi íþróttasvæði í Vogum, þannig að staðsetningin fyrir fjölskyldubyggð er mjög góð. Þegar þetta íbúðamagn í 1. áfanga er fullbyggt gæti það rúmað allt að 750 íbúa sem er töluverð fjölgun í sveitarfélaginu. 2. áfangi gæti svo falið í sér 150-200 íbúðir “
 
Rammaskipulag Grænuborgarsvæðis norðan þéttbýlis í Vogum

Þegar Þráinn er spurður hvaða kosti Grænuborgarsvæðið hefur fram yfir aðra möguleika, segir hann: „Kostirnir eru viðbót við þetta ágæta samfélag sem Vogarnir. Það er stutt í Reykjanesbæ og inn á höfuðborgarsvæðið og í Vogum er fyrirtaks skóla- og leikskólaþjónusta. Úr nýju byggðinni verður mjög gott aðgengi að náttúru- og útivistarsvæði, bæði meðfram ströndinni og innan byggðarinnar. Í skipulaginu höfum við leitast við að skapa gott aðgengi, það er að segja, skipulag gatna og stíga miðar að því að skapa gott aðgengi að útivistarsvæðum. Við höfum lagt okkur í líma við að fella byggðina vel að landinu og haft að leiðarljósi að hanna gott og öruggt umferðarkerfi innan hverfisins og út úr því.

Vogar frá Grænuborgarsvæði.


Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga