Greinasafni: Skipulag einnig undir: Arkitektar
ELLIÐAÁRVOGUR/ ÁRTÚNSHÖFÐI
ELLIÐAÁRVOGUR/ ÁRTÚNSHÖFÐI Í byrjun árs 2005 keypti fyrirtækið Úthlíð ehf lóð Orkuveitunnar uppi á Ártúnshöfða og bað Zeppelin arkitekta að vinna tillögu að deiliskipulagi lóðarinnar. Strax við fyrstu skoðun sáum við að lóðin og nærliggjandi svæði byggju yfir svo miklum möguleikum að ekki væri annað fært en að freista þess að skipuleggja svæðið allt sem eina heild. Lóðin ein og sér væri of smá og aðliggjandi lóðir og skipulag þeirra væri of takmarkandi til að hægt væri að ná fram viðunandi niðurstöðu. Að henni fenginni yrði reynt að ná samstöðu meðal annarra lóðaeigenda í næsta nágrenni, um frekari framgang málsins.

  • Starfsmenn Zeppelin arkitekta við líkanið af reitnum. Rauðu, gulu og bláu fletirnir 
    tákna skóla-, íþrótta- og verslunarsvæði. Orri er lengst til hægri á myndinni.

Nálægðin við miðborg Reykjavíkur og góðar samgöngur, sem enn munu batna við tilkomu Sundarbrautar, gáfu fyrirheit um að hægt væri að skipuleggja byggð sem yrði ólíkt þeim hverfum sem hingað til hafa verið skipulögð á Íslandi. Hverfi sem því miður eru ekki hluti af borg, heldur einangraðir ibúðaklasar þar sem lítið annað gerist en að fólk fer í bíl, í og úr vinnu og börn fara í og úr skóla, líka í bíl. Fjölbýlishúsum er dritað niður með einhverjum hætti og til að ná fram “fjölbreyttri byggð” ( lesist: a.m.k þrjár ólíkar húsagerðir) er einbýlis- og raðhúsum í ákveðnu hlutfalli skellt inn á milli blokkanna. Til að uppfylla reglugerðir, byggðum á heilögu nýtingarhlutfalli, er skólum og “miðjum” holað niður annarsstaðar. “Miðjurnar”, bjargvættir hverfanna og ílíki miðbæja, virka þó iðulega eins og illa gerðir niðursetningur sem engir vilja neitt með hafa. Þetta ofurvinsæla, en dapra fyrirkomulag mannabyggðar, hefur alltof lengi verið haft sem fyrirmynd íslenskra hönnuða og skipulagsyfirvalda við skipulagningu bæja. Óhætt er að segja að sá tími sé löngu kominn, að menn átti sig á því að á Íslandi gilda sömu lögmál um skipulag og í öðrum löndum. 
Miðja höfuðborgarsvæðisins hefur nálgast Ártúnshöfða óðfluga. Á höfðanum eru iðnaðarbyggingar af ýmsum toga sem tengjast flestar byggingariðnaðinum með einum eða öðrum hætti. Yfirbragð þess er sundurlaust og lítt aðlaðandi, en samt býr það yfir miklum möguleikum til þess að hanna og byggja spennandi og kröftugt hverfi. Það er því um margt líkt þeim iðnaðarsvæðum sem á undanförnum árum hafa verið endurgerð, með eftirtektarverðum hætti, t.d í London, Kaupmannahöfn og í Bilbao á Spáni. Reyndar svo eftirtektaverðum að nú vilja sem flestir feta í þeirra spor. 
Því var það að Zeppelin arkitektar sáu sér leik á borði er þeir voru beðnir um að skipuleggja heilt hverfi nálægt miðju Reykjavíkur. Þar sem hægt væri ná fram götumynd hinnar evrópsku borgar og í nægilega stórum skala til þess að verslun og þjónusta í hverfinu virkaði. Í því sambandi var auðvitað horft til þess að allt höfðasvæðið er gríðarstórt og síðari uppbygging þess myndi styrkja hverfið enn frekar. Við töldum að hérna væri komið fyrsta raunverulega tækifærið til að búa til alvöru borgarhverfi á Íslandi. Þar sem fólk svæfi ekki eingöngu heldur ynni einnig og ætti viðburðarríkan dag. Þar sem hægt væri að ganga um alvöru götur með verslunum, veitingastöðum ofl. með tilheyrandi mannlífi. Þar sem hægt væri að ganga í skóla og á íþróttasvæði. Þetta töldum við mögulegt og því rétt að leggja slíka tillögu fram sem valkost, til mótvægis við hina tættu byggð á Stór-Reykjavíkursvæðinu. 


Net grænna svæða, göngustíga og gatna

STAÐSETNING 
Svæðið er nyrðst og vestast á Ártúnshöfða og afmarkast af Breiðhöfða að austan, nær fram á brún höfðans að norðanverðu, svæði Björgunar liggur undir klettabrúninni. Að sunnanverðu er umráðasvæði BMVallár og að vestanverðu nær það að Sævarhöfða. Mikið útsýni er í allar áttir, Elliðaárós og Geirsnef í næsta nágrenni og samgöngur góðar. 


Myndin sýnir hugmyndir Zeppelin arkitekta um uppbyggingu á svæðinu. Rauðir 
fletir tákna íbúðabyggð. Zeppelin arkitektar útfærðu svæði 2. Á svæði 4 er gert 
ráð fyrir skólum, stórmarkaði og íþróttaaðstöðu.


HUGMYND 
Að skipuleggja evrópsk/amerískan borgarhluta. 3-5 hæða “roundbyggð” með tilheyrandi inngörðum yrði ráðandi. Verslanir, veitingastaðir og skrifstofur yrðu á jarðhæð. Turnar stæðu upp úr sumum blokkunum og tryggðu að hinnu miklu útsýnisþörf Íslendinga yrði fullnægt. Turnarnir ykju einnig á þéttleika byggðarinnar. Þá mætti einnig gera ráð fyrir höfuðstöðvum stórra fyrirtækja eða skrifstofuhótelum í bland við íbúðabyggðina. Slík blanda ljær fjölbýlishúsum glæsileika og fyrirtækjum hlýleika. Þetta er eftirsóknavert umhverfi eins og þeir vita sem til þekkja. Sem dæmi um vel heppnað hverfi í þessum dúr má nefna í Tuborgshöfn í Kaupmannahöfn. 


Útivistarsvæði tengjast göngustíg sem liggur meðfram höfðabrúninni.

ÚTFÆRSLA 
Svæðinu er skipt í tvennt; efra og neðra svæði. Uppi á höfðanum, efra svæði, er gert ráð fyrir íbúða og skrifstofu og verslunabyggingum. Í kvosinni, neðra svæði, er gert ráð fyrir stórmarkaði, íþróttaaðstöðu og leik- og grunnskóla. Þessi tvö svæði eru tengd með grænum svæðum, þremur grænum fingrum. Í tillögunni er gert ráð fyrir tólfhundruð íbúðum auk fimmtánþúsund fermetra undir atvinnuhúsnæði. 
Götur hverfisins, sem umlykja byggingarnar, hlykkjast til að draga úr óæskilegum áhrifum vinda og víða eru mynduð torg. Meðfram höfðabrúninni liggur göngustígur og á hann eru hengd torg og leiksvæði. Grænu fingurnir liggja frá austri til vesturs. Þeir eru “boulivardar” hverfisins og útivistarsvæði og virka einnig sem vindbrjótar. Úr turnunum er fagurt útsýni, en lægri byggingarnar draga úr neikvæðum sviptivindum sem skapast í kringum turnana. Verslanir, veitingastaðir og skrifstofur eru á jarðhæðum. Ekki er um nein stór opin bílastæði að ræða. Þau eru öll í götu eða í geymslum neðanjarðar. 
Enda þótt hugmyndin hafi eingöngu verið útfærð með skematískum hætti, sést að hér er sett fram tillaga um samruna hinnar evrópsku borgar og hinnar amerísku stórborgar. Þar sem háir turnar rísa yfir lægri byggð. Þetta er tilraun til að mæta ósk Íslendingsins um iðandi götulíf en jafnframt mikið útsýni. Atvinnustarfsemi og íbúðabyggð mynda eina heild og bílastæði eru samnýtt til að komast hjá risastórum bílastæðum. Hinni tætingslegu ímynd Reykjavíkur er hafnað og ýtt undir mannleg samskipti. Hér er raunverulega um að blandaða byggð að ræða, með möguleikum á fjölskrúðugu mannlífi. Úthlíð ehf seldi lóðina ári seinna og ekki varð af frekari vinnu Zeppelin arkitekta. 
Orri Árnason, arkitekt

Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga