Greinasafni: Arkitektar
Arkís: Að samræma listræna hugsun og notagildi

Arkís er alhliða hönnunar og ráðgjafafyrirtæki á sviði byggingarlistar, skipulags og hönnunar og ráðgjafar. Í lok síðasta árs hélt fyrirtækið upp á tíu ára afmæli sitt og gaf, af því tilefni, út bók þar sem gefur að líta all glæsilegan feril stofunnar. Bókin hefur verið seld í bókabúðum og mun ágóði bókarinnar renna til BUGL.

Aðalskrifstofur Arkís eru í Reykjavík, en auk þess rekur fyrirtækið útibú á Egilsstöðum. Hjá fyrirtækinu vinna um fimmtíu og fimm manns og er það því með þeim stærstu sinnar tegundar hér á landi.

Arkís hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir hönnun sína og glæsilegar byggingar þeirra hafa víða risið, meðal annars höfuðstöðvar Samskipa, Korpuskóli, Ellingsenhúsið úti á Granda, viðbygging við Hótel Selfoss, R. Sigmundsson, Glerártorg á Akureyri, Turninn við Smáratorg, hótel 1919 og höfuðstöðvar Ístaks við Engjateig. Auk þessa eru nú fjölmargar byggingar í undirbúningi eða byggingu s.s Háskólinn í Reykjavík, Náttúrufræðistofnun, stúdentagarðar við Einholt og Þverholt og Þjóðgarðsmiðstöðin á Hellissandi.

 Útflutningur á hugviti 
„Við höfum byggt fyrirtækið þannig upp að við viljum vera alhliða hönnunafyrirtæki á sem víðustum grunni og viljum veita hágæðaþjónustu á öllum sviðum hönnunar, bygginga og skipulags,“ segir Egill Guðmundsson, einn af stofnendum Arkís. „Við erum með mjög sterkan hóp af fagfólki; arkitektum, innanhússarkitektum, byggingafræðingum, verkfræðing og grafískan hönnuð, tækniteiknara, auk annars starfsfólks. Þetta samstarfsfólk hefur mjög víðtæka menntun víða að úr heiminum og það skilar okkur heilmikilli breidd.

Auk þessa eigum við hlut í ráðgjafafyrirtæki í Litháen og Lettlandi, sem heitir ARSO og stendur í rauninni fyrir Architectural Solutions. Það er alþjóða ráðgjafafyrirtæki, bæði í arkitektúr og verkfræði. Við eigum hlut í því með verkfræðistofunni Hnit hér á landi, heimamönnum í Vilníus og öðrum. Þetta fyrirtæki er tveggja ára núna og þar starfa orðið 35 manns – og gengur bara vel. Við erum þarna í alls konar verkefnum, m.a fyrir íslenska fjárfesta, og höfum meðal annars tekið þátt í tveimur samkeppnum og unnið þær báðar, önnur í Litháen, hin í Rússlandi. Einnig er Arkís að vinna að stórum samstarfsverkefnum í Bandaríkjunum, og í Færeyjum. Við erum því í útflutningi á hugviti.Hluti af þeim útflutningi er alþjóðlegur arkitektahópur ABZ-A og stendur fyrir Arkís, Bjarnason og Zapata. Bjarnason er Guðjón Bjarnason listamaður og arkitekt og Zapata stendur fyrir Carlos Zapata, sem er bandarískur arkitekt og 
ákaflega virtur. Eitt af hans sérsviðum er hönnun háhýsa og þessi hópur er að vinna að undirbúningi verkefna á Íslandi og erlendis.

Meðal þess sem Carlos Zapata hefur hannað er Bitexto Financial Tower í Vietnam, sextíu og átta hæða bygging, sú hæsta í Víetnam. Henni lýkur 2008.

Annar öflugur samstarfsaðili Arkís er HLT sem stendur fyrir Henning Larsens Tegnestue í Kaupmannahöfn. Háskólinn í Reykjavík er niðurstaða af samkeppni sem þessar tvær teiknistofur unnu saman.

Stórt verkefni í Færeyjum
Arkís er að vinna að mjög stóru verkefni í Færeyjum fyrir Jakob Jakobsen sem er eigandi Rúmfatalagersins á Íslandi. Verkefnið er unnið í samstarfi við teiknistofu Selmars Nielsen arkitekts í Færeyjum og um er að ræða hönnun á nýjum hverfishluta í Þórshöfn í Færeyjum. Hverfið er staðsett við innkomuna í bæinn. „Þetta er mjög fallegt svæði með útsýni til fjalla og yfir sjóinn. Í hverfinu verða, meðal annars, stór verslunarmiðstöð sem er í fullri hönnun og framkvæmdir munu hefjast með vorinu. Einnig verða þar skrifstofur, íbúðir og hótel, auk tengdrar þjónustu. Hugsanlegt er að þessu hverfi tengist einnig fjölnota íþróttamiðstöð með yfirbyggðum íþróttaleikvangi, sundlaug, íþróttasölum og heilsuræktarstöð.

Þórshafnarbær hefur þegar samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið og verður hverfið hannað og byggt í áföngum eftir því. Við hönnun hverfisins hefur verið reynt að taka tillit til veðurfars og staðhátta í Færeyjum varðandi mannlíf og menningu. Samt sem áður er verið að horfa til Norðurlanda og alþjóðlegrar byggingarlistar til þess að koma með þá ímynd til eyjanna. Sem dæmi má nefna að verslunarmiðstöðin sem er í hönnun, verður brotin upp í smærri einingar í takt við aðra byggð í Færeyjum og reynt verður, við efnisval og frágang, að fella húsið að færeyskri ímynd eins og hægt er í svona stóru húsi – en það er yfir 30.000 fermetrar.“

Þjóðgarðsmiðstöð og Náttúru- fræðistofnun
Egill segir Arkís vinna verkefni á almennum markaði eins og aðrir. „Síðan tökum við þátt í samkeppnum og höfum unnið til allnokkurra verðlauna. Árið 2006 unnum við samkeppni um Þjóðgarðsmiðstöð á Snæfellsnesi. Þar var lagt af stað með mjög metnaðarfullt verkefni frá hendi ríkisins og sveitarfélagsins um mjög sérstakt hús. Síðan erum við núna að hefja endanlega hönnun á húsinu til byggingar og það er áætlað að byggingu þess ljúki 2011. Þetta verður þjóðgarðsmiðstöð fyrir Snæfellsjökuls þjóðgarðinn. Önnur bygging sem við höfum hannað er fyrirhugað húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnun við Urriðaholt í Garðabæ og sú byggin er hluti af vistvænu skipulagi í Urriðaholti. „Þetta er líklega í fyrsta skipti sem svona vistvænt heildarskipulag er unnið á Íslandi,“ segir Egill. „Þetta skipulag er unnið af alþjóðlegum rágjafahópi, sem Arkís og nokkur önnur íslensk ráðgjafafyrirtæki eru aðilar að. Skipulagið hefur unnið til verðlauna, bæði Livecom verðlaun um lífsgæði í bæjarskipulagi, og verðlaun í Boston fyrir “excellent award for sustainable planning,” eða frábæra hönnun á vistvænu skipulagi.

Það hefur verið horft til þess, í ljósi þess að Náttúrufræðistofnun tengist náttúru Íslands, taki hönnun byggingarinnar mið af vistvænni hönnun – eða sjálfbærri hönnun – sem er að ryðja sér meira og meira til rúms erlendis í byggingum. Til viðmiðunar eru notaðir þar til gerðir erlendir staðlar um umhverfisvæna staðetningu, skipulag, efnisval, loftræstingu, sorpflokkun og annað sem tengist þessari umhverfisvænu hugsun. Við miðum við amerískan staðal sem heitir LEED og er skammstöfun fyrir Leadership in Energy and Environmental Design. Það þýðir að allt ytra og innra starfsumhverfi byggingarinnar,fyrir notendur og gesti, á að vera eins og best verður á kosið út frá umhverfislegu sjónarmiði. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem opinber bygging af þessari stærðargráðu sé hönnuð hér á landi samkvæmt þessari hugmyndafræði.“

Stúdentagarðar í miðborginni
Enn eitt áhugavert verkefni hjá Arkís eru stúdentagarðar við Einholt og Þverholt, það er að segja í miðborg Reykjavíkur. Um er að ræða mjög metnaðarfulla stúdentagarðabyggð sem unnin hefur verið í nánu samráði við borgaryfirvöld. „Þetta verða allt að fjögur hundruð íbúðir og íbúðaeiningar og bílageymsla á tveimur hæðum neðanjarðar fyrir alla bílana. Á milli bygginganna er garðrými sem verður opið almenningi. Þar verður hverfistorg með netkaffihúsi og hverfisverslun. Lega þessarra stúdentagarða er mjög heppileg fyrir þá aðildarskóla sem standa að Byggingarfélagi námsmanna. Í því sambandi má nefna að Listaháskóli Íslands, Fjöltækniskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands eru innan við fimmhundruð metra radíus frá þessari byggð. Einnig er miðstöð almenningssamgangna við Hlemm í nágrenninu. Það má segja að hverfið í heild sinni styrki verslunar- og þjónustusvæði miðborgarinnar ofan Laugavegar, við Hlemm.

Í gegnum stúdentahluta hverfisins er gert ráð fyrir áframhaldandi gönguleiðum sem tengja hverfið við miðborgina og reyndar eru ekki nema 1.5 kílómetri að Háskóla Íslands.

Í byggðinni er blanda af íbúðareiningum fyrir einstaklinga og fjölskyldur, þó mest fyrir einstaklinga. Íbúðirnar geta verið allt frá 20 fm. einstaklingsherbergjum, 35 fm. Stúdíóíbúðum fyrir einstaklinga og síðan eru paraíbúðir í kringum 50 fm. Síðan eru nokkrar íbúðir fyrir fjölskyldur í hverfinu, þó ekki margar, og þær eru um 65 fm.
Byggingafélag námsmanna reisir þessa garða og rekur að öllu leyti. Íbúðirnar verða leigðar út en ekki seldar námsmönnum.“

Ábyrgð okkar er mikil
Þegar Egill er spurður hvers vegna Arkís leggi svona mikið upp úr samkeppnum og hvort einhverju máli skipti hvernig hús lítur út ef það þjónar því hlutverki sem því er ætlað, segir hann: „Að mínu mati er arkitektúr mjög mikilvægur hluti af okkar umhverfi. Hann hefur fylgt manninum frá upphafi, frá því að hann byrjaði að leita sér að híbýlum. Þörf mannsins fyrir húsaskjól hefur í raun þróast yfir í þá grein sem í dag er kölluð arkitektúr.

Í gegnum aldirnar hefur þessi grein lista og vísinda haft gríðarleg áhrif á það hvernig maðurinn hefur lifað í ölduróti heimsins. Þess vegna held ég að hlutverk okkar arkitekta sé að samræma listræna hugsun og notagildi og afraksturinn getur þess vegna verið stakur stóll, hús eða heilt miðbæjarskipulag. Það eru grunnþættir eins og notagildi, rými, form, birta, áferð, tengsl við náttúru og, síðast en ekki síst, maðurinn sjálfur sem þurfa að tengjast saman í eina órofna samstæðu. Úr þessu verður samofin heild sem flokkast má sem arkitektúr. Þegar upp er staðið erum við að búa til umhverfi eða „hlut“ sem maðurinn notar – ábyrgð okkar er því mikil.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga