Greinasafni: Skipulag
101 Skuggahverfi

Glæsilegar íbúðir, einstakt útsýni og tengsl við iðandi mannlíf

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að í Skuggahverfinu eru að rísa glæsilegar íbúðabyggingar sem setja svip sinn á miðborgina. Staðsetning, hönnun húsanna og einstakt útsýni hefur gert það að verkum að Skuggahverfið er í dag ein eftirsóttasta íbúðabyggð landsins.

Miðborg Reykjavíkur hefur löngum heillað og þarf ekki að fjölyrða um kosti þess að eiga heimili þar. Iðandi mannlíf, leikhús, listalíf, verslanir og kaffihúsamenning hefur mikið aðdráttarafl. Þó að miðbærinn státi af mörgum gömlum og fallegum húsum frá ýmsum tímum þá hefur nýtt húsnæði verið af skornum skammti. Með tilkomu Skuggahverfisins hefur orðið breyting á. Byggingarsvæðið afmarkast af Skúlagötu, Frakkastíg, Lindargötu og Vatnsstíg. Hæsta byggingin er við Vatnsstíg og verður hún 19 hæðir og er hún í 2. áfanganum. Áætlað er að íbúar verði um 800. Við hönnun Skuggahverfisins var lögð áhersla á að nýta sem best kosti staðsetningar og umhverfis. Samspil birtu, gróðurs og glæsilegra bygginga einkennir svæðið.

Húsasamstæðurnar verða tengdar saman neðanjarðar með bílageymslum á þremur hæðum, en samtals eru rúmlega 250 bílastæði í öðrum og þriðja áfanga verksins og er búið að byggja þau bílastæði. Íbúðirnar eru af mismunandi stærð eða allt frá 67 fermetrum og upp í rúmlega 300 fermetra að stærð. Á mörgum stöðum eru aðeins tvær íbúðir á hæð, sem þýðir að í flestum þeirra er útsýni til þriggja átta. Lofthæð íbúðanna er 2,7 metrar. Burðarkerfi húsanna er steinsteypt, ásamt því sem útveggir eru einangraðir að utan og klæddir með bæði flísum, málmi og timbri.

Sala á 84 íbúðum hefst í október
Skuggahverfið byggist í þremur áföngum. Þegar er lokið við 1. áfangann og allar íbúðirnar seldust á skömmum tíma. 2. áfanginn er nú í byggingu. Alls eru fimm íbúðarhús í þeim áfanga og fara íbúðirnar í sölu í október. Þegar lokið verður að byggja 2. áfangann verður strax farið í 3. áfanga.

Harpa Þorláksdóttir, sölu- og markaðsstjóri hjá Þyrpingu sem byggir glæsihúsin í Skuggahverfinu segir að í 2. áfanga séu 97 íbúðir: “Við ætlum að byrja að selja íbúðirnar í október. Við tókum að vísu forskot í júni og settum 13 íbúðir í sölu. Þær íbúðir voru meðal stærstu íbúðanna í áfanganum og voru seldar tilbúnar til innréttinga. Viðtökur voru mjög góðar og greinilegt er að beðið var eftir þessum íbúðum. Við erum mjög bjartsýn á framhaldið. Það gekk mjög vel að selja í 1. áfanganum og allt bendir til að eins verði í 2. áfanga. Við erum búin að fá fyrirspurnir og kominn er listi af fólki sem hefur mikinn áhuga á að kaupa íbúð.Við erum með þá nýbreytni í sölunni nú að bjóða kaupendum innréttingasamsetningar, sérvaldar af arkitektum húsanna.. Við erum með fimm samsetningar sem hægt er að velja um. Fengnir voru arkitektar til að finna bestu lausnirnar miðað við óskir kaupenda, sem dæmi má nefna að ef kaupandinn vill eik í innréttingar þá er búið að velja saman flísar, borðplötu og gólfefni sem passa sérstaklega vel með eikinni. Sömuleiðis ef kaupandi vill hnotu í innréttingar þá er annar pakki í boði sem passar við hnotuinnréttinguna, allt er sérvalið af arkitektum og gæðin höfð að leiðarljósi. Með þessu framtaki erum við að auka þjónustuna og um leið að auðvelda þeim sem kaupir íbúð allt ferlið sem fylgir því að velja nýjar innréttingar.”
Útveggir eru einangraðir að utan og klæddir flísum, málmi og timbri.


Útsýni yfir sundin blá
Því verður ekki neitað að útsýni gerist ekki betra en í Skuggahverfinu. Staðsetning tryggir einstakt útsýni yfir sundin og umhverfi þess skiptist í göngustíga, opna garða, leiksvæði og bílastæði. Stutt er niður að sjónum þar sem þægilegir göngu- og hlaupastígar eru meðfram sjávarsíðunni hvort heldur sem er út í Laugarnesið eða í átt að miðbænum. Harpa segir að í raun sé ekki hægt að bera Skuggahverfið saman við önnur hverfi í Reykjavík, það sé svo margt sem það hefur framyfir önnur ný byggingahverfi. “Svæðið er einstakt, útsýnið óviðjafnanlegt og hönnun íbúðanna mjög glæsileg og byggingarnar vandaðar. Viðtökurnar hafa verið í samræmi við það sem við lögðum upp með og fáum við fyrirspurnir daglega og þeir sem þegar hafa skráð sig eru í reglulegu sambandi.”

Samspil birtu, gróðurs og bygginga einkennir Skuggahverfið.


Á heimsmælikvarða
Hönnun og skipulag Skuggahverfisins var í höndum dönsku arkitektastofunnar ScHmidt, Hammer & Lassen, en valið á þeim grundvallaðist meðal annars á fyrri verkum stofunnar og reynslu af hönnun stórhýsa og íbúðabygginga í nánd við hafnarsvæði og í miðborgum víða um heim þar sem mikið er lagt upp úr útsýni. Arkitektastofan Hornsteinar hefur hannað húsin í samvinnu við dönsku stofuna.                                                                      Í flestum íbúðum er útsýni til þriggja átta
.
Skuggahverfi 2. áfangi
Í 2. áfanga eru 97 íbúðir við Vatnsstíg og Lindargötu. Stærð þeirra er frá 67 fermetrum til rúmlega 300 fermetra. Við Vatnsstíg 14 eru 15 íbúðir í átta hæða húsi. Vatnsstígur 16- 18 er 19 hæðir, turninn 63 metrar á hæð og íbúðir í húsinu 42. Við Lindargötu 35 er þriggja hæða hús með 9 íbúðum og Lindargata 37 er ellefu hæða hús með 31 íbúð. Húsin eru traust og vönduð. Burðarkerfi þeirra er steinsteypt og útveggir einangraðir að utan, klæddir flísum, málmi og timbri.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga