Greinasafni: Skipulag
Faxaflóahafnir

Hver er framtíð byggðar í Örfirisey?

Ráðstefna var haldin í vor á vegum Faxaflóahafna þar sem m.a. var rætt um Örfirisey framtíðarinnar, Örfirirsey og hafnarstarfsemi í Reykjavíkurborg, skipulag íbúðabyggðar og hafnarstarfsemi og er Örfirisey draumaland? Erlendur gestir tóku þátt í ráðstefnunni sem m.a. ræddu um þróun byggðar og hafnarstarfsemi í Kaupmannahöfn og reynslu sína frá evrópskum verkefnum og hugmyndir fyrir Örfirisey og samþættinu íbúðabyggar og hafnar í Stokkhólmi frá sjónarhóli hafnarinnar.

Björn Ingi Hrafnsson, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur og formaður stjórnar Faxaflóahafna, sagði að það ríkti mikill áhugi á því að útfæra hugmyndir um framtíð Örfiriseyjar með þeim hætti að sem flestir gætu verið sáttir. Það þyrfti því að útfæra fram komnar hugmyndir, framkvæmda uppkaup fasteigna og í allt þetta ferli legði borgin mikinn metnað.

Markmið
Markmiðið væri að gera að gera tillögur að framtíðarnotkun og skipulagi byggðar í Örfirisey, að kanna möguleika á flutningi olíubirgðastöðvarinnar, að samþætta íbúabyggð & atvinnusvæði og vinna verk- og framkvæmdaáætlun.

“Þann 1. janúar 2005 tóku Faxaflóahafnir sf. til starfa. Mikilvæg leiðarljós eigenda við sameiningu hafna við Faxaflóa eru m.a. að gera Reykjavíkurhöfn áfram að yrði áfram fjölbreytt inn og útflutningshöfn en aukin áhersla verði lögð á komur farþegaskipa. Grundartangahöfn verði byggð upp sem inn- og útflutningshöfn en fyrirhuguð áform um gerð hafnar í Geldinganesi hafa verið lögð til hliðar. Akraneshöfn verði efld sem fiskihöfn og Borgarneshöfn þjóni smábátum og skemmtibátum í framtíðiðnni. Faxaflóahafnir sf. eru aðeins með um 10 – 15% af umfangi stærstu hafna í Evrópu, en á mælikvarða hafna á Norðurlöndum er höfnin ein af fimm stærstu gámahöfnunum og um hana gilda sömu þróunarlögmál og nefnd voru varðandi evrópskar hafnir. Sá er þó munurinn að þróunin við Faxaflóa hefur að ýmsu leyti gengið hraðar fyrir sig en víða erlendis. Flestar evrópskar hafnir búa að árhundruða þróun, en á þessu ári eru 90 ár liðin frá því að Gamla höfnin í Reykjavík var tekin í notkun. Í raun er hægt að segja að hafnargerð í Reykjavík sé samfelld þróunar- og framkvæmdasaga frá því að hafist var handa við raunverulega hafnargerð árið 1913.

Síðastliðið sumar skipaði borgarráð tvo starfshópa, annars vegar til að fjalla um olíubirgðastöðina í Örfirisey og hins vegar til að fjalla um framtíðarnotkun og skipulag byggðar í eynni. Markmið ráðstefnunnar er að viðra hugmyndir um mögulega þróun Örfiriseyjar á næstu áratugum – eyju sem hefur tekið miklum breytingum s.l. 100 ár.

Langtímaverkefni - að bæta lífsgæði Þróun borga er langtímaverkefni sem hefur fyrst og fremst það markmið að bæta gæði þeirra sem þar lifa og starfa. Örfirisey hefur verið undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur frá árinu 1835 og verið nýtt undir útgerð og hafnsækna starfsemi síðan þá þó að fyrr á öldum hafi verið búskapur í eynni.

Landfyllingar vestan Örfiriseyjar eru spennandi íbúðakostur til framtíðar. Uppbygging á hafnarsvæðum eins og Mýrargötu og í kringum tónlistar- og ráðstefnuhús styrkja miðborgina og uppbygging í Örfirisey er tækifæri til að byggja upp í vesturborginni. Örfirisey er í göngufæri við miðborgina og öll þjónusta er til staðar ásamt því að búseta í nágrenni við sjó þykir eftirsóknarverður kostur. Í endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur er Örfirisey eitt af lykilsvæðunum og mun byggð þar verða sérstaklega skoðuð með tilliti til hafstrauma, veðurs og vinda og í stærra samhengi við byggð borgarinnar. Sjá má fyrir sér fjölbreytta byggð sem tekur mið af einstakri staðsetningu, leggur áherslu á nálægð við hafið og frábært útsýni og víðáttu um leið og öll hönnun myndi miðast við að skapa góð veðurskilyrði.

“Eitt af markmiðum verkefnisins er að flétta saman fjölbreytta byggð og starfsemi útgerðar og fiskvinnslu auk þess að ákveða framtíðarstarfsemi olíubirgðastöðvar fyrir höfuðborgarsvæðið. Gera má ráð fyrir að starfshópur um olíubirgðastöðina í Örfirisey muni skila úttekt sinni innan tíðar og að starfshópur um framtíðarnotkun og skipulag byggðar skili tillögum sínum í lok ársins 2007,” sagði Björn Ingi Hrafnsson, formaður starfshóps um framtíðarnotkun og skipulag í Örfirisey.

Aðeins 9% af tekjum Faxaflóahafna koma frá Vesturgarði og Eyjargarði
Gísli Gíslason, hafnarstjóri, sagði m.a. að Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir gætu með markvissum hætti haft áhrif á þungaumferð innan borgarinnar með skipulagi hafnarsvæða innan Faxflóahafna. Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir munu sem aðrar borgir og hafnir glíma við lausnir sem lúta að sambýli íbúða- og athafnasvæða og á hafnasvæði Faxaflóahafna í Reykjavík séu nokkur svæði sem augljóslega séu þróunarsvæði og munu á næstu árum taka á sig breytta mynd og lúta nýjum lögmálum. Þessi svæði eru m.a. Tónlista- og ráðstefnuhús við Gömlu höfnina, Mýrargötusvæðið, land við botn Elliðavogs þar sem nú er starfsemi Björgunar, Sementsverksmiðjunnar, steypustöðva og malbikunarstöðvar og hluti Örfiriseyjar með landfyllingum til vesturs. Skipaviðgerðir munu í fyrirsjáanlegri framtíð víkja að fullu fyrir íbúða- og þjónustubyggingum við Mýrargötu og löndun á fiski hafi þegar flutt úr Austurhöfninni í Vesturhöfnina.

“Austurhluti hafnarinnar verður fyrst og fremst viðlega fyrir skemmtiferðaskip að sumri til, skip hins opinbera, og heimsóknir erlendra skipa. Í Suðurbugt verður aðstaða fyrir smærri báta og báta tengda ferðaþjónustu en í Vesturhöfninni er áfram gert ráð fyrir aðstöðu útgerðar og fiskvinnslu. Þegar litið er á tölfræði tengdri starfsemi í Örfirisey þá liggur fyrir að tekjur Faxaflóahafna af aflagjöldum, skipagjöldum, lestargjöldum og vörugjöldum í Vesturhöfn og á Eyjargarði voru á árinu 2006 samtals um 227,2 mkr. eða um 9% af heildartekjum Faxaflóahafna sf. og um 100 bátar og togarar landa afla reglulega í Vesturhöfn.”

Landfyllingar vestur af Örfirisey
“Ýmsar hugmyndir hafa áður verið uppi varðandi mögulegar landfyllingar vestur af Örfirisey. Sýna má hugmyndir sem eru frá 15 ha. upp i allt að 160 ha. þar sem dýpi sjávar á þessu svæði er lítið, að mestu undir 3 metrum. Vissulega þarf að huga að ýmsum þáttum varðandi slíkar landfyllingar svo sem veðurlag, ölduhæð, hæð fyllingar yfir sjávarmáli, varnargörðum og fleira. Í tengslum við framtíðar skipulag Örfiriseyjar er einnig ljóst að taka þarf ákvörðun um framtíðar starfsemi olíubirgðarstöðvarinnar og meta þá valkosti sem þar eru fyrir hendi. Slík vinna er í ákveðnum farvegi, en niðurstaða hennar á ekki að tefja aðra vinnu við undirbúning landfyllinga og vinnslu hugmynda að landnýtingu í eyjunni sjálfri. Meginatriðið er að verkefnið landfyllingar eru tæknilega viðráðanlegt verkefni og landgerðin fjárhagslega hagkvæm. Þegar er hafin vinna við greiningu þeirra þátta og verkferla sem eru nauðsynlegir til að koma af stað frekari landfyllingum við Örfirisey og mótun þeirrar aðferðarfræði sem Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir sf. telja skynsamlega til að koma áleiðis þróun byggðar í Örfirisey. Þróun Örfiriseyjar með breyttri og markvissari landnýtingu með landfyllingum undir íbúðabyggð er stórt verkefni sem hefur áhrif á þróun höfuðborgarinnar. Þeim markmiðum hefur verið lýst að á landfyllingum megi koma fyrir íbúðabyggð, en að í Vesturhöfninni verði lögð áhersla á að viðhalda athafnasvæði útgerðar og fiskvinnslu. Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna sf. bíður því spennandi verkefni við að flétta saman athafnasvæði hafnar, þjónustu og íbúðabyggðar og að tryggja farsælt sambýli borgar og hafnar. Það er verkefni sem aðrar borgir og hafnir hafa glímt við hver með sínum hætti – nú hefur sú þróun að fullu haldið innreið sína í höfuðborgina,” sagði Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga