Byko

Það geislar af turninum við Smáratorg 3 eins og væri hann dýrindis demantur þar sem hann gnæfir hátt í áttatíu metra upp í loftið, glerklæddur frá „toppi til táar“, ef svo mætti að orði komast. Glerklæðningin og gluggarnir eru komnir frá Kína en það er fyrirtækið BYKO sem tók að sér útvega álglugga, gler og annað sem til þurfti, og sjá um uppsetningu þess, að sögn Guðmundar Óskars Guðjónssonar sem stjórnar Tæknisölusviði BYKO.

mynd:
Guðmundur Óskar Guðjónsson
á vinnupalli utan á glerhýsinu.

 

„Söludeild BYKO á byggingasviði skiptist í tvær deildir, deild sem sér um sölu á hvers kyns vörum af lager fyrirtækisins og Tæknisölusviðið sem tekur að sér verkefni sem þarfnast sérhæfðar tækniþekkingar, tækniaðstoðar og verkefnastjórnunar. „Við seljum stálgrindur, klæðningar, einingahús, glugga, gler og annað slíkt, og þar á meðal glugga og glervirki eins og notuð eru í turninn á Smáratorgi 3. Verk sem þessu tengjast þurfa á mikilli tækniþekkingu að halda,“ segir Guðmundur Óskar. „Á Smáratorgi erun við að útvega og setja upp yfir 11.000 fermetra af gluggum og gleri og væntanlega er þetta stærsta verk sem hér hefur verið unnið hingað til á þessu sviði.“
 

Það er langt til jarðar ofan af efstu hæðunum.


Hæsta hús landsins

Turninn og undirbygging hans við Smáratorg verður hæsta hús landsins, alls 20 hæðir, 77,6 metrar á hæð. Í húsinu verða verslanir á 7.000 fermetra svæði á neðstu hæðunum en þegar ofar dregur og kemur upp í turninn sjálfan verða í húsinu skrifstofur og fleira. Á efstu hæðinni er gert ráð fyrir veitingahúsi. Arkitektar hússins eru Arkís en að byggingunni kemur einnig Ráðgjafaþjónusta VSÓ. JÁ verk annast byggingu hússins en BYKO sér um glerklæðningar og glugga.

Framkvæmdir við húsið hófust árið 2005 en BYKO fékk þann hluta verksins sem snýr að glerklæðningum og gluggum í júlí 2006. Samningur BYKO hljóðar upp á að fyrirtækið sjái um alla framkvæmd verksins, útvegi það sem til þess þarf og vinni, ásamt arkitektum hússins, að hönnun þessa verkhluta. Að hönnuninni komu einnig fulltrúar kínverska fyrirtækisins Shenyang Yuanda Aluminium Industry Engineering í Shenyang í Norðaustur-Kína. Fyrirtækið sér um að útvega, álgluggakerfið, gler og annað efni sem allt kemur frá Kína. Teikningar fóru í byrjun á milli hönnuða hér og í Kína en Kínverjarnir gera sínar eigin teikningar. Í lokin fór íslenski vinnuhópurinn til Kína þar sem endanleg hönnun fór fram og var henni lokið í nóvember 2006.

Turninn hækkar smátt og smátt og glerklæðningin fylgir á eftir.

 Mikil þekking í Kína

„Glerið og það sem til verksins þarf kemur frá Kína,“ segir Guðmundur Óskar, „en Kínverjar búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á þessu sviði enda hafa þeir komið að byggingu „glerhúsa“ á borð við turninn víða um heim. Fyrirtækið sem BYKO er í samvinnu við er talið eitt það fremsta og stærsta í heiminum á þessu sviði. Segja má að þótt okkur þyki turninn á Smáratorgi stór þá sé hann í raun smáverkefni fyrir þetta kínverska fyrirtæki, enda hefur það komið að byggingu háhýsa og annarra stórverkefna sem sprottið hafa upp víða í Kína sem og í Dubai, Japan, Malasíu, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Englandi, svo einhver lönd séu nefnd.“

 

BYKO hefur komið að mörgum stórhýsum

Guðmundur Óskar segir að vissulega hafi áður verið byggð hér hús með miklu gleri þótt þau hafi ekki verið neitt í líkingu við þetta verkefni. BYKO búi því yfir þeirri þekkingu sem til verksins þarf. Sem dæmi um hús sem BYKO hefur komið að nefnir Guðmundur Óskar Smáralindina, ACTAVIS-húsið í Hafnarfirði, hús Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem BYKO sá um glugga og utanhúsklæðningar, glerskálann við Alþingishúsið, Höfuðstöðvar Kaupþings og Höfðaborg, hvort tveggja í Borgartúni.

 

Lyftur og kranar sem „vaxa“

BYKO leggur ekki aðeins til gler og glugga í Smáratorgsturninn heldur hefur fyrirtækið einnig útvegað tæki sem til verksins þarf. Fluttar voru inn sérstakar turnlyftur sem notaðar hafa verið til þess að vinna úr utan á húsinu og til þess að flytja upp allt efni. Byggingakraninn sem þarna er mun vera sá hæsti á Íslandi í dag og hefur mörgum þótt merkilegt hvernig hann hefur „vaxið“ með húsinu, svona smátt og smátt. Það gerist með því að inn í hann er bætt einingum eftir því sem þörf krefur og húsið hækkar. Það er Leigumarkaður BYKO sem sá um að útvega kranann.

Að jafnaði hafa unnið milli 20 og 30 manns við uppsetningu gluggakerfisins á vegum BYKO. Það er verktakafyrirtækið Kantur sem er undirverktaki BYKO við uppsetninguna en þar á bæ er mikil reynsla við slík verk. Skipaður er verkefnastjóri frá tæknisölusviði BYKO sem stýrir verkinu og tengir saman samskipti fyrirtækisins við verktaka og framleiðandann í Kína.

Efni í verkið fór að berast til landsins í febrúar siðast liðinn og nú má segja að sjái fyrir endann á framkvæmdunum en þegar er búið að klæða turninn upp á 17. hæð. Verið er að ljúka við að steypa efstu hæðina þar sem ætlunin er að opna veitingahús fyrir árslok.


Mikinn búnað þarf til þegar verið er að klæða byggingu gleri.

  
Háeinangrandi gler

Glerið í gluggum í Smáratorgsturninum er svokallað spegilgler sem sjá má út um en byrgir að mestu sýn inn í húsið. Fletirnir milli hæða eru einnig klæddir gleri svo húsið er klætt í einskonar glerkápu. Allt er þetta hert gler og háeinangrandi sem þýðir að það heldur sólarhitanum úti svo ekki á að vera erfitt fyrir fólk að vinna á skrifstofunum þótt sólin skíni og allir útveggir séu úr gleri.

Frágangur og pakkningar utan um glerið eru miklar og ekki að ástæðulausu, þegar flytja þarf vöru á borð við gler hálfa leið í kringum hnöttinn. Góður frágangur hefur hins vegar svo sannarlega skilað sér því Guðmundur Óskar segir að ekki hafi brotnað nema einar 12 rúður í öllu þessu ferli. Hljómar það eins og algjörir smámunir þegar haft er í huga allt það magn sem farið hefur milli hafna í Kína og Íslands með viðkomu í umskipunarhöfnum á meginlandi Evrópu. Fluttir hafa verið inn tugir gáma og heildarþyngd efnis sem borist hefur er hátt í 1000 tonn að sögn Guðmundar Óskars.

„Vegna stærðar verkefnisins og fjarlægðar við framleiðanda er mikilvægt að undirbúa verkið vel frá upphafi. Ferlið í heild hefur gengið mjög vel og allir hafa lagt sig í líma við að vinna verkið vel til þess að því megi ljúka á réttum tíma,” segir Guðmundur Óskar Guðjónssonar að lokum en hann stjórnar Tæknisölusviði BYKO.

Smáratorg 3

 Turninn í tölum

  • Húsið er í eigu fasteigafélasins Smáratorgs, sem á einnig Rúmfatalagerinn.
  • Byggingin er um 32.000 fermetrar, bílakjallari, verslunarrými og turnbygging
  • Ofan á aðalbyggingunni er turnbygging með þakhæð samtals tæpir 78 metrar á hæð.
  • Útveggir hússins eru klæddir um 11.000 fermetrum af gleri og glerklæðningum.
  • Gluggakerfi kemur frá BYKO í samstarfi við fyrirtækið Shenyang Yuanda Aluminium í Kína.

 

 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga