Fasteignasalan Miðborg

Fasteignaverð mun í auknum mæli ráðast af staðsetningu

Fasteignasalan Miðborg, sem tók til starfa árið 1996, annast sölu á hverskyns húsnæði, bæði stóru og smáu. „Við seljum mikið af notuðu húsnæði, bæði íbúðir og atvinnuhúsnæði og erum að auki í tengslum við fáa en góða verktaka sem byggja og selja nýbyggingar,“ segja eigendur Miðborgar, þeir Karl Georg Sigurbjörnsson hæstaréttarlögmaður og Björn Þorri Viktorsson héraðsdómslögmaður, sem báðir eru auk þess löggiltir fateignasalar.
 

Starfsmenn Miðborgar frá vinstri:

Perla Þrastardóttir, Þorvarður Guðmundsson, Guðbjarni Eggertsson, Björn Þorri Viktorsson, Benedikt Bragi Sigurðsson, Brandur Gunnarsson, Karl Georg Sigurbjörnsson, Magnús Gunnar Helgason, Bergþóra Sigurðardóttir. Á myndina vantar Þórunni Birgisdóttur.

 

Karl Georg og Björn Þorri segja að ákveðið jafnvægi sé nú að nást á fasteignamarkaðnum sem hafi verið í miklu ójafnvægi á liðnum misserum. Eftirspurnin hefur á síðustu árum verið talsvert umfram framboð og það hefur leitt til mikilla verðhræringa.

 

Fermetraverð og staðsetning

„Fyrir 15 árum var munur á dýrustu og ódýrustu eignum tiltölulega lítill og verðstuðullinn var u.þ.b. 1,2 til 1,3. Sambærileg íbúð á dýrustu og ódýrustu svæðum hefði sem dæmi kostað frá 5,0 til 6,5 milljónir eftir staðsetningu. Verðstuðullinn er að breytast aftur og er nú á bilinu 3,5 til 4,0 og munurinn á sennilega bara eftir að aukast innan höfuðborgarsvæðisins. Til samanburðar má nefna að í London er þessi verðstuðull nálægt 10. “

Frá því Miðborg tók til starfa má segja að sveitarfélögin sjö á höfuðborgarsvæðinu hafi farið að mynda heild sem lýtur lögmálum borgarsamfélagsins, að mati Karls Georgs og Björns Þorra. Byggðin flæðir nú öll saman og það verður til þess að ýmis svæði á þessum stöðum, sem áður voru „fjarri“ Reykjavík eru jafnvel dýrari en í borginni sjálfri.

Ákveðin svæði verða alltaf eftirsóttari en önnur enda er það eðli markaðarins þar sem framboð og eftirspurn ráða.

Þeir félagar nefna Þingholtin, vesturbæ Reykjavíkur, Fossvog, Seltjarnarnes og Garðabæ sem eftirsótt svæði, en einnig ákveðna hluta í Grafarholti og Grafarvogi sem og í Kópavogi. Þetta eru ákveðin þroskamerki sem sýna að höfuðborgarsvæðið sé orðið að alvöru borgarsamfélagi.

 

Ekki verðdýfa framundan

„Við sjáum ekki fyrir okkur að það verði einhver dýfa á fasteignamarkaðnum, að verðið lækki yfir línuna, heldur mun eiga sér stað leiðrétting og skýrari skil verða milli svæða þar sem sum svæði verða töluvert dýrari en önnur. Oftast eru jaðarsvæðin ódýrust en verðið hækkar eftir því sem nær dregur miðjunni, en svo geta líka verið nokkrir miðpunktar á höfuðborgarsvæðinu í heild.

Þá má benda á að jafnvel lélegt húsnæði hefur til skamms tíma verið selt á háu verði m.a. vegna þess að fólk hafði tæpast tíma til að skoða og varð að kaupa eða missa ella af húsnæðinu.“

 

Umhverfi fasteignaviðskipta
skýrara

„Fasteignakaupalögin frá 2002 voru gríðarleg réttarbót,“ segja Karl og Björn. „Þau hafa gert allt umhverfi í fasteignaviðskiptum skýrara og gegnsærra um leið og þær meginreglur sem áður giltu voru þá lögfestar. Nú geta allir kynnt sér þann ramma sem fara ber eftir í þessum viðskiptum og skerpt hefur verið á réttarstöðu seljenda og kaupenda sem og á stöðu fasteignasala gagnvart þessum aðilum. Fasteignasalar bera ábyrgð gagnvart báðum aðilum og eiga að gæta hagsmuna beggja jafnt.“

Það er mikið áhyggjuefni að margir réttindalausir starfa í fasteignasölu, jafnvel sem sjálfstætt starfandi verktakar, en bæði Björn Þorri og Karl Georg hafa, sem formaður og varaformaður í Félagi fasteignasala, barist fyrir því að menn verði meðvitaðri um réttindamál fasteignasala. Þeir segja að það sé eðlileg krafa neytenda að löggiltir fasteignasalar annist fasteignaviðskipti, enda geri lög ráð fyrir því að menn afli sér þekkingar og réttinda. „Þú getur ekki lánað öðrum manni ökuskírteinið þitt,“ segir Karl Georg, „Engu að síður hefur ekki gengið að koma böndum á þessa ósvinnu. Þegar fasteignasali er kominn með 20-30 sjálfstætt starfandi verktaka sem sölumenn er ólíklegt að hann geti mikið verið með púlsinn á viðskiptunum og kannski hafa þessir verktakar hvorki reynslu né þekkingu sem getur orðið til baga fyrir neytendurna.“ Og báðir bæta þeir við: „Við vonum að þessi mál komist sem fyrst í betra horf.“

Hjá Miðborg eru tíu starfsmenn. Þar eru fjórir löggiltir fasteignasalar, þar af þrír lögmenn, þrír sölufulltrúar og tveir ritarar auk eigendanna. Einn sölufulltrúanna er nú að ljúka sérhæfðu matstækninámi frá Háskólanum í Reykjavík. Þá er einn sölufulltrúanna lærður ljósmyndari sem skilar betri myndum við kynningu á eignum hjá Miðborg.

 

Fólk hefur raunhæft val

Varðandi lóðaframboð sögðu þeir Karl og Björn að ánægjulegt væri að í fyrsta skipti í sögunni hafi fólk raunhæft val um það hvar það vill eða getur hugsað sér að setjast að á höfuðborgarsvæðinu. Lóðir og nýbyggingar séu í boði í flestum ef ekki öllum sveitarfélögunum og nú þurfi fólk ekki lengur að hafa á tilfinningunni að því sé skipað á ákveðinn bás t.d. í gegnum lóðaúthlutanir, heldur getur það valið sjálft. Mikið sé lagt upp úr vönduðu og góðu skipulagi, enda er fólk stöðugt meðvitaðra um að það ræður hvað mestu um verðmyndun og eftirspurn þegar fram í sækir. Þeir nefna sem dæmi Urriðaholt í Garðabæ, en Miðborg er nú með lóðir þar til sölu. Þar telja menn að um gríðarlega góðan kost sé að ræða, til framtíðar litið. Þarna verður ekki aðeins íbúðabyggð heldur er einnig gert ráð fyrir viðskiptastræti í norðanverðu holtinu. Þarna er því engin hætta á að rísi “svefnbær” heldur blönduð byggð íbúða og aðlaðandi atvinnustarfsemi.
 

Vinnuumhverfið

hjá Miðborg er glæsilegt og vinnuaðstaðan góð.

 

Betri og fyllri þjónusta

Fasteignasalan Miðborg er í hinni glæsilegu byggingu að Laugavegi 182. Björn og Karl leggja að lokum á það áherslu að þeir vilji að stofan skeri sig úr á markaðnum með því að veita viðskiptavinum betri og fyllri þjónustu en almennt gerist. Lykilatriði í því sambandi sé að hafa gott og metnaðarfullt starfsfólk. Þá skipti einnig miklu máli að vera með frambærilega skrifstofu og vinnuaðstöðu og sýna þannig viðskiptavinum og sjálfum sér virðingu í þeim efnum.

 


Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga