Greinasafni: Skipulag
Akraland ehf.
Metnaðarfullt hverfi, glæsileg hönnun

 

Akraland ehf. hefur selt flestar einbýlishúsa, sem og rað- og parhúsalóðirnar á svæðinu sunnan Arnarneshæðar

            Akraland ehf. var stofnað í desember 2003 og eru eigendur félagsins tveir, Þyrping hf. og KV-Verktakar hf. sem hvor um sig á helmingshlut í félaginu. Félagið var sérstaklega stofnað um verkefni í Garðabæ á landi því sem um tíma gekk undir heitinu Jónsland eftir að Jón Ólafsson í Skífunni keypti það. Af því landi keypti Akraland stóran hluta fyrir sunnan Arnarnesveg og fyrir norðan Arnarnesveg um 11 hektara, svæði sem hallar niður í dalinn Kópavogsdalinn frá Arnarneshæð og hefur oft gengið undir heitinu Kríuvarpið. Ágúst Kr. Björnsson framkvæmdastjóri Akralands segir fyrirtækið þó ekki standa að framkvæmdum fjölbýlishúsaþyrpinguna efst í sunnanverðri Arnarneshæðinni sem nú þegar er að mestu risin.

Markmið Akralands er að þróa skipulag og nýtingu þessa byggingarlands í nánu samstarfi við sveitarfélagið Garðabæ. Þá er fyrirhugað að Akraland ehf og tengd félög standa að framkvæmdum innan byggingarlandsis og reisi verslunar- og þjónustuhúsnæði á svæðinu.


Ágúst Kr. Björnsson
framkvæmdastjóri Akralands


Mikil eftirspurn

Þyrping hf. er dótturfélag Fasteignafélagsins Stoða hf. en þessi félög eru dótturfélög Baugs Group. Þyrping er þróunarfélag sem leggur áherslu á kaup og sölu fasteigna, byggingarstarfsemi og þróun málefna tengd þessum málaflokkum. KV Verktakar hf. byggja á gömlum merg Keflavíkurverktaka hf.og er saga félagsins löng. Það var stofnað af byggingar- og iðnmeisturum fyrir um fjörutíu árum til að sinna verkefnum á Keflavíkurflugvelli. Ágúst segir Keflavíkurverktaka búa yfir viðurkenndri sérþekkingu og stunda alhliða verktakastarfsemi á landinu öllu. Sú starfsemi sé fjölþætt og spanni vítt svið en sérgrein þeirra sé mannvirkjagerð og verkefni sem tengjast viðhaldi og endurnýjun þeirra. Fyrr á þessu ári var nafni félagsins breytt í Atafl.hf.

 „Akraland eignaðist allar einbýlishúsalóðir, sem og rað- og parhúsalóðir á svæðinu sunnan við Arnarnesveg,“ segir Ágúst. „Í mars 2005 var gengið til samninga við Garðabæ um uppbyggingu svæðisins og nú er staðan þannig að Akraland er búið að selja nánast allar einbýlishúsalóðirnar, sem og rað- og parhúsalóðirnar á þessu svæði. Þetta verkefni hefur gengið mjög vel. Það hefur verið mikil eftirspurn eftir þessum lóðum. Þess vegna er í dag að rísa þarna metnaðarfullt hverfi þar sem glæsileg hönnun er í fyrirrúmi.“


Fjölskyldan í öndvegi

Þegar Ágúst er spurður hvaða hópur fólks sé að byggja á svæðinu, segir hann það fyrst og fremst fjölskyldufólk sem sé að reisa sér framtíðarheimili. „Sveitarfélagið Garðabær er þekkt fyrir sína metnaðarfullu fjölskyldustefnu. Þar séu gildi fjölskyldunnar sett í öndvegi og sveitarfélagið er til dæmis um margt í forystu á sviði skólamála.  Í jaðrinum á svæðinu er Hofstaðaskóli, sem og Fjölbrautaskólinn í Garðabæ. Þar fyrir utan er mikil og góð þjónusta á svæðinu og félags og íþróttastarf er mjög öflugt.“

Ágúst segir Akraland hafa lagt á það mikla áherslu að eiga mikið og gott samstarf við Garðabæ og hafi frá upphafi sett sér það markmið að byggja svæðið upp í samvinnu við sveitarfélagið og ekki standi til að breyta því. Sem fyrr segir á Akraland jafnframt svæðið norðan Anrarnesvegar og er það land óbyggt í dag. „Þar er í gildi aðalskipulag,“ segir Ágúst „og nú stendur yfir vinna við gerð deiliskipulagstillögu. Það er allt óráðið enn en fyrirhugað er að nýta svæðið fyrir blandaða byggð þar sem saman fara íbúðahús og þjónustu- og atvinnuhúsnæði. Skipulagsnefnd Garðabæjar hefur að sjálfsögðu síðasta orðið varðandi nýtingu þessa svæðis. Það er markmið Akralands ehf. að þarna rísi metnaðarfull og falleg byggð sem nýti kosti svæðisins sem best og hugað verði vel að gæðum og styrkleikum þess. Mikið og fallegt útsýni er frá þessu svæði til allra átta. Einnig er fyrirhugað að næst Hafnarfjarðarveginum rísi glæsileg skrifstofu- og þjónustuhús og munu þau verða mikil prýði á þessum stað.“


Frágengið og uppbyggt svæði

„Við höfum sett okkur það markmið að deiluskipulagsvinnunni ljúki á næsta ári. Það er að mörgu að huga vegna þess að styrkleikar svæðisins eru gríðarlega miklir. Það er stutt í allar helstu umferðaræðar á höfuðborgarsvæðinu og samgöngur því góðar og greiðar. Einnig er stutt í verslun og þjónustu í Smáralindinni og því svæði, auk þess sem allt nánasta umhverfi er frágengið og uppbyggt. Það hefur haft töluvert að segja við sölu á lóðunum að fólk þurfi ekki að búa við það árum saman að þola sand og steypuryk um allt vegna endalausra byggingaframkvæmda. Síðan er veðursældin mikil í þessu dalverpi þar sem landið er aðeins 15 metra yfir sjávarmáli. Þá er stutt í fallegar útivistarperlur eins og Heiðmörkina, Vífilstaðavatn og Álftanes og í námunda við svæðið eru góðir golfvellir. Það má því segja að þetta sé býsna góður reitur fyrir íbúabyggð.“

 

 


Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga