Draumahús

Betri og markvissari þjónusta.

Föst söluþóknun og raunsannar upplýsingar eru aðalsmerki fasteignasölunnar Draumahúsa.

Fasteignasalan Draumahús var stofnuð í upphafi árs 2004. Markmið fyrirtækisins var að bjóða seljendum fasteigna ódýrari leið til að selja fasteignir sínar. Sú leið var að bjóða fasta lága söluþóknun en fram að þessu höfðu fasteignasölur svo til eingöngu boðið upp á sölulaun í formi prósentu af söluverði. „Með þessu var verið að svara mjög greinilegri þörf sem hafði myndast á fasteignamarkaði,“ segja þeir Hjalti Pálmason og Sigurður J. Sigurðsson forsvarsmenn fyrirtækisins og bæta við: „Fasta söluþóknunin hjá okkur er miðuð við stærð eignar fremur en verð hennar og býðst vegna eigna í einkasölu. Þá bjóða Draumahús seljendum þá þjónustu að sýna fyrir þá eignina.“
Draumahús selja allar tegundir húsnæðis, íbúðarhús í öllum stærðum og gerðum, iðnaðar- og atvinnuhúsnæði, auk nýbygginga, bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. Þrátt fyrir ungan aldur hafa Draumahús vaxið og dafnað hratt og segja þeir Hjalti og Sigurður það fyrst og fremst að þakka reyndum sölumönum og velvilja viðskiptavina. „Í dag erum við með níu sölumenn sem allir vinna að því sameiginlega markmiði að selja allar eignir sem eru á skrá hjá okkur. Hver viðskiptavinur sem hingað kemur, fær því níu sölumenn til að selja eignina sína. Um leið og búið er að skrifa undir sölusamning er alveg ljóst hver söluþóknunin verður. Við viljum að viðskiptavinir okkar fari hæstánægðir frá okkur því markmiðið er að viðskiptavinurinn komi aftur og aftur – og þótt við séum ekki gamalt fyrirtæki, sýnir reynslan að þeir gera það.”

Á myndinni má sjá eldhús í stórglæsilegu parhúsi við Suðursali í Kópavogi sem Draumahús hafa í sölu.

Byggt á áreiðanlegum upplýsingum
Þótt fyrirtækið sjálft sé ungt, er það skipað starfsmönnum með mikla reynslu af fasteignaviðskiptum. Sigurður rak Fasteignaþjónustu Suðurnesja í nokkur ár og segir hann marga þá starfsmenn sem gengið hafa til liðs við Draumahús hafa áralanga reynslu að baki. Draumahús leggja mikið upp úr ábyrgð og reynslu starfsfólks og í dag starfa hjá fyrirtækinu þrír löggiltir fasteignasalar og er einn þeirra lögmaður. Þá hefur einn annar starfsmaður lokið námi til löggildingar og síðan er einn starfsmaður að stunda nám til löggildingar fasteignasala. Draumahús hvetja starfsfólk sitt til þess að fara í nám til löggildingar fasteignasala og styðja það eftir fremsta megni til þess, segir Hjalti.
Þeir Sigurður og Hjalti benda á að föst, lág söluþóknun geti sparað viðskiptavininum háar fjárhæðir og bæta því við að hægt sé að gera margt skemmtilegt fyrir peningana sem sparast. „Það er markmið og stefna Draumahúsa að þjónusta seljendur betur og markvissar en áður hefur þekkst,“ segja þeir, „og í því skyni bjóðum við upp á árangursríka leið sem eykur líkurnar á því að eignir seljist hratt – en um leið á góðu verði. Við leggjum áherslu á fyrsta flokks þjónustu við seljendur jafnt sem kaupendur. Í því sambandi má nefna að raunhæft mat á verði eignar seljanda skiptir okkur miklu máli og að fá sem hæst verð fyrir eignina skiptir okkur ekki minna máli. Við höfum sex atriði að leiðarljósi í öllum viðskiptum sem við tökum að okkur; að veita viðskiptavinum okkar fyrsta flokks þjónustu, að selja eignina þína hratt og vel, að fá sem best verð fyrir eignina þína, örugga meðhöndlun fjármuna þinna í gegnum fjárvörslureikninga, vandaðan skjalafrágang og að viðskiptavinir okkar séu ánægðir með viðskiptin.
Hjá Draumahúsum er seldur mikill fjöldi eigna á ári hverju og hafa því starfsmenn fyrirtækisins góða yfirsýn yfir gangverð fasteigna á hverjum stað.  Þegar við leggjum til verð við viðskiptavininn, byggjum við á mjög áreiðanlegum upplýsingum, en auðvitað liggur endanleg ákvörðun um söluverð hjá seljandanum.“ 

Á myndinni að ofan má sjá eina af þeim nýbyggingum sem Draumahús eru með í sölu við Vindakór 14-16 í Kópavogi. Um er að ræða glæsilegar 3.-4. herb. íbúðir í lyftuhúsi með suðursvölum.

Traustar upplýsingar
Á heimasíðu Draumhúsa, www.draumahus.is, koma fram ítarlegar upplýsingar um þjónustu fyrirtækisins, bæði fyrir kaupendur og seljendur. Þá segjast þeir Hjalti og Sigurður leggja mikið upp úr góðum ljósmyndum, enda njóti þeir þjónustu fagljósmyndara. „Við erum bæði með ljósmyndir og hringmyndir til þess að mögulegur kaupandi fái eins góðar og miklar upplýsingar og hægt er um þá eign sem hann er að skoða hverju sinni”. Við leggjum mikið upp úr því að myndirnar séu raunsannar þannig að fólk hafi sem raunhæfastar upplýsingar þegar það fer að skoða eignina. Það er tímafrekt að leita sér að fasteign til að kaupa og við viljum ekki vera með myndir sem blekkja á netinu, það er að segja, vekja áhuga fólks sem svo fórnar höndum þegar það sér að fasteignin lítur allt öðruvísi út í rauninni. Það er hægt að treysta þeim upplýsingum sem koma fram á heimasíðunni okkar, bæði í máli og myndum.”
Draumahús eru með tvær starfsstöðvar á höfuðborgarsvæðinu, Mörkinni 4 í Reykjavík og Skálanum, Strandgötu 41 í Hafnarfirði. Sigurður er sérlega ánægður með húsnæðið í Hafnarfirði, segir það hundrað ára gamalt. „Það á sér svo sannarlega sögu í Hafnarfirði,“ segir hann glettinn. „þarna var víst einu sinni skemmtistaður þar sem haldin voru böll, held meira að segja að málsmetandi menn í Hafnarfirði hafi einhvern tímann dansað þar.“ En þótt fyrirtækið sé staðsett á tveimur stöðum hefur það aðeins eitt aðalsímanúmer, 530-1800. 

Á þessari mynd má sjá nýtt iðnaðarhúsnæði sem Draumahús eru með í sölu. Um er að ræða átta iðnaðarbil, um 250 fermetrara hvert að stærð, við Gjáhellu í Hafnarfirði.

Á sér ekki fyrirmynd
Aðspurðir hvort hin fasta söluþóknun eigi sér einhverja fyrirmynd, segja Hjalti og Sigurðu svo ekki vera, í það minnsta hér á landi. „Þeir sem stofnuðu fyrirtækið voru greinilega búnir að gera sér grein fyrir þörfinni á þessum valkosti,“ segir Hjalti, „og reynslan sýnir okkur að þetta var rétt mat hjá þeim.“
Hvað starfsmannastefnu varðar, þá eru allir starfsmenn Draumahúsa launþegar, ekki verktakar innan fyrirtækisins. „Við getum því hiklaust haldið því fram að viðskiptavinir okkar njóti þess að sölumenn okkar vinni í eðlilegu umhverfi hvað varðar starfsábyrgð sem bæði kemur viðskiptavinum okkar til góða og sölumönnunum sjálfum,” segir Sigurður að lokum.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga