Hveragerði

Hveragerði er fjölskylduvænt byggðarlag með smábæjarkarakter

Hveragerði býður upp á margvíslega afþreyingu fyrir alla aldurshópa, enda fjöldinn allur af fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnununum sem tengjast þjónustu á einn eða annan hátt. Staðsetning bæjarins innan um ósnortna náttúru steinsnar frá höfuðborginni er vel til þess fallin að sækja staðinn heim og stunda útivist og heilsueflingu, verslun að einhverju tagi eða bara taka því rólega í fallegu og af-slöppuðu umhverfi. Á sumrin er óvíða í bæjum landsins jafn fjölskrúðugur gróður og í Hveragerði, á veturna skarta garðyrkjustöðvarnar sínu fegursta, með geislandi fölgulri birtu sem ber við himinn.

Sundlaugin í Laugarskarði

Aðalskipulag Hveragerðisbæjar 2005 - 2017 var samþykkt á vormánuðum 2006 en í ört vaxandi sveitarfélagi eru skipulagsmál mjög stór og krefjandi málaflokkur.  Nýverið hafa verið samþykkt nýtt deiliskipulag af Smyrlaheiði, Gróðurmörk, Dalsbrún, Hólmabrún og Hjallabrún. Vinna við deiliskipulag Sólborgarsvæðisins austan Varmár er á lokastigi þar sem verða allt að 1.000 íbúðir og kemur byggingafélagið Eykt þar að máli. Lokið er við deilliskipulag i Kambalandinu ofan byggðar til vesturs, sem er mjög spennandi kostur.
Hveragerðisbær er mjög landlítið sveitarfélag og mjög lítið land er í  eigu sveitarfélagsins innan bæjarmarkanna. Í sumar var úthlutað 9 einbýlishúsalóðum og 43 lóðum undir para-og raðhús sem eru síðustu para- og raðhúsin á núverandi skipulagi á lóðum í eigu Hveragerðisbæjar svo það er mjög takmarkað sem bæjarfélagið getur boðið upp á í hefðbundinni lóðaúthlutun. Hins vegar eru stór landsvæði í einkaeigu aðila eins og Kambalands sem nú hefur verið deiliskipulagt.
Skipulag miðbæjarins er í vinnslu en þar eru fyrirhugaðar umtalsverðar framkvæmdir og þétting byggðar sem breyta munu ásjónu miðbæjarins í grundvallaratriðum í náinni framtíð. Þar má áætla að reistar verði íbúðir fyrir allt að 1.000 manns. Því er ekki skortur á því að byggja í Hveragerði, margar lóðir og landrými, en fæstar á forræði bæjarins.

Frá vinstri: Guðmundur, Aldís bæjarstjóri og Eyþór við bæjarskrifstofurnar.

Þorpsmyndun fyrir nær 80 árum
Þorpsmyndun hófst í Hveragerði árið 1929, Hveragerðishreppur var stofnaður 1946 og varð bæjarfélag 1987. Þann 1. des. 2005 voru íbúar Hveragerðis um 2089. Hveragerði byggðist í landi Vorsabæjar í Ölfusi en nafnið var upphaflega á hverasvæði því sem er í bænum miðjum, sunnan og vestan kirkjunnar. Hveragerði er fyrst skráð í Fitjaannál laust fyrir 1700 þar sem sagt er frá tilfærslu goshvers í landskjálftum 1597.
Fjölbreytilegar tilraunir til nýtingar jarðvarma í atvinnurekstri einkenna sögu Hveragerðis. Jarðhitasvæði í miðjum bænum og næsta nágrenni skapa Hveragerði sérstöðu meðal þéttbýla á Íslandi og þó víðar væri leitað.

Hverasvæðið og kirkjan í bakgrunni.

Fjölgun íbúa
Íbúum í Hveragerði fjölgaði hægt fyrsta áratuginn og í árslok 1941 voru þeir um 140. Næstu árin fjölgaði þeim hratt og voru um 400 í árslok 1946, stofnári Hveragerðishrepps. Næstu áratugina fjölgaði íbúum mun hægar, voru um 530 í árslok 1950, 685 í árslok 1960 og 740 í árslok 1970. Á síðustu árum hefur fjölgunin verið örari og þá einkum áratuginn 1971-1980. Íbúar voru um 1245 í árslok 1980, 1600 í árslok 1992, 1813 í árslok 2000 og eru um 2189  í árslok 2006.
Nýting hverahitans til suðu, baksturs, þvotta og húshitunar mun hafa laða marga til búsetu í Hveragerði í upphafi. Matur var soðinn og brauð bökuð í gufukössum við hveri eða húshlið. Þvottur var þveginn við hverina eða í hitaþróm við húsvegg. Sveitafólk í Ölfusi hafði lengi nýtt hverina til þvotta og bakað rúgbrauð í heitum jarðvegi við hverina eins og örnefnið Brauðholur vitnar um. Sumarbústaðir voru margir, einkum á stríðsárunum. Samkvæmt fasteignaskrá frá 1941 voru 37 íbúðarhús í Hveragerði og 19 sumarbústaðir. Sumarbústaðirnir voru vestan hverasvæðisins flestir við göturnar Laufskóga og Hverahlíð. Á stofnári Hveragerðishrepps 1946 var 91 íbúð skráð þar en í árslok 1992 voru þær 615.

Bættar samgöngur örva vöxt
Með bættum samgöngum yfir Hellisheiði til Reykjavíkur hefur íbúum Hveragerðis farið ört fjölgandi, og með tvöföldun þjóðvegar 1 allt austur að Selfossi má allt eins búast við sprengingu hvað varðar fjölgun íbúa. Fjöldi manns keyrir yfir Hellisheiði til vinnu, og það í báðar áttir. Stöðugt fleiri fýsir að búa í rólegu, og tiltölulega fámennu byggðarlagi en sækja engu að síður vinnu til höfuðborgarinnar. Lóðir eru ódýrari í Hveragerði en á höfuðborgarsvæðinu og þegar um kaup er að ræða á eldri fasteign er verðið oft ekki nema 70 - 80% af fasteignarverði sambæriegrar eignar á höfuðborgarsvæðinu.
Þessi þægilegu nálægð við höfuðborgarsvæðið og athafnasvæðið þar hafa einnig laðað fleiri aðila til að fjárfesta í Hveragerði, ekki síst byggingaverktaka, og eflaust verða margir til þess að sækja um lóð á Kambalandi sem einkaaðilar hafa skipulagt eða t.d. á Sólborgarsvæðinu  þar sem bæjarfélagið er að deiliskipuleggja stórt byggingasvæði sem mun duga til allmargra ára. Þétting byggðakjarna verður einnig í náinni framtíð svo þeir sem vilja heldur byggja í grónum hverfum eiga þess líka kost.
Þessar áætlanir munu að líkindum leiða til þess að innan ekki mjög margra ára hefur íbúatalan í Hveragerði margfaldast, eða úr um 2.200 manns í dag í allt að 6.000 manns norðan þjóðvegarins og sunnan þjóðvegarins vestan Þorlákshafnarvegar  verður möguleiki á um 4.000 manna byggð. Landrými er því fyrir allt 10.000 manna byggð í Hveragerði.
Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri segir að Hveragerði og Ölfusið séu einfaldlega bestu úthverfin frá Reykjavík og í Hveragerði sé metnaður mikill til að byggja upp fjölskylduvænt byggðarlag sem ekki síst sé gott fyrir barnafólk, allir fái leikskólapláss og ekki sé nein vandamál að ráða þangað starfsfólk. Börnin ganga til og frá skóla og því séu foreldrar lausir við að aka þeim. Tekið er mið af því að báðir foreldrar eru kannski að vinna utan sveitarfélagsins og því þarf samfélagið að laga sig að þeim staðreyndum, t.d. með skólaseli sem lengir viðeru barnanna og með sumarnámskeiðum fyrir börn allt að 12 ára aldri auk metnaðarfulls íþróttastarfs. Einnig sé þekkt þjónusta í sveitarfélaginu við eldra borgara því þar er Ás, dvalarheimili aldraðra, og Heilsustofnun NLFÍ sem margir landsmenn leiti til.
Engin háhýsi verða byggð í Hveragerði, húsin eiga að vera ein og tvær hæðir, enda vilja íbúar að þar ríki sannur smábæjarkarakter, sem verði meðal þeirra einkenna Hveragerðisbæjar sem íbúarnir séu stoltir af.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga