Greinasafni: Skipulag
Kambaland

“Búandi á Suðurlandi kemstu ekki nær höfuðborginni”- segir Magnús Jónatansson eigandi byggingasvæðisins Kambalands í Hveragerði
Kambaland er mjög athyglisvert byggingasvæði vestan núverandi byggðar í Hveragerði og nær allt að hamrinum sem ekið er upp á þegar lagt er upp Kambana frá Hveragerði á Hellisheiði. Á svæðinu er mjög skjólsælt fyrir norðanáttinni. Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti í júnímánuði sl. kauptilboð og samstarfssamning við Kambaland um umbyggingu á svæðinu. Annars vegar er um að ræða kaup Kambalands ehf. á 6,5 ha landi vestan byggðar í Hveragerði á 55 milljónir króna og hins vegar er um að ræða samstarfssamning milli fyrirtækisins og Hveragerðisbæjar um uppbyggingu á 30 ha landi á sama stað.

Landið sem um ræðir er að langstærstum hluta í eigu Kambalands, en fyrirtækið hefur unnið að uppkaupum á svæðinu. Gert er ráð fyrir byggingu um samtals 260 íbúða, 220 sérbýla og 40 íbúða í fjölbýli svo þarna gætu búið um 800 manns. Bæjarstjórn hefur samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið.
Samningurinn felur m.a. í sér að fyrirtækið greiðir Hveragerðisbæ 480 þúsund krónur í hvert sinn sem lóð eða íbúð er seld á skipulagssvæðinu og 250 þúsund krónur fyrir íbúð í fjölbýli. Jafnframt er gert ráð fyrir að lóðirnar falli til bæjarins við útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir hverjum verkáfanga og að í kjölfarið innheimti Hveragerðisbær lóðaleigu af íbúðaeigendum. Kambaland ábyrgist allar framkvæmdir eins og gatnagerð, gangstéttir og göngustíga og sér um frágang við tvo leikvelli og greiðir til hálfs kostnað við sparkvöll.
Sveitarfélagið tryggir að uppbygging leikskóla verði í samræmi við uppbygginu á svæðinu og að kannaður verði möguleiki á að kennsla yngstu árganga grunnskóla verði í hverfinu þar sem skoðuð verði sérstaklega samþætting leikskóla og yngstu stiga gunnskóla. Kambaland lætur af hendi allt að 1,5 hektara lóð undir skólamannvirki endurgjaldslaust. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjist á næsta ári og ljúki árið 2011.

Vöktun á svæðinu allan sólarhringinn
Magnús Jónatansson, eigandi Kambalands, segir að hann hafi falast eftir viðskiptum við landeigendur á svæðinu í þeim tilgangi að hægt væri að deiliskipuleggja svæðið vestan byggðar í Hveragerði undir íbúðabyggð eins og kvað á um í aðalskipulagi Hveragerðisbæjar. Þegar því var vel tekið var þegar hafist handa fyrir um hálfu öðru ári síðan. Magnús segir að allir þeir sem þarna áttu landspildu eða voru fulltrúar dánarbúa eða minningarsjóða höfðu góðan skilning á því að þetta væri framtíðarsýn bæjarfélagsins um svæðið og því hafi allir gengið mjög sáttir frá borði.
“Það var þegar markmiðið að gera þetta þannig úr garði að hverfið væri eftirsóknarvert, rúmt væri um alla sem þarna byggju í framtíðinni, gott göngustígakerfi, auðvelt gatnakerfi og leikskóli sem væri opinn lengur en almennt er um opnunartíma leikskóla. Það er nauðsynlegt því stór hluti af þeim íbúum sem þarna munu eiga heima verða vinnandi aðilar á höfuðborgarsvæðinu, og koma upphaflega frá höfuðborgarsvæðinu, og þeir mega ekki hafa áhyggjur af því að verið sé að henda barninu út klukkan 4 eða 5 á daginn. Í þessu sambandi höfum við rætt við Margréti Pálu forsvarsmann Hjallastefnunar, enda er stefnan sú að gera hverfið bæði nútímalegt og vænt fyrir þá sem þurfa að vera fjarri sinni heimabyggð á daginn vegna atvinnu.
Búandi á Suðurlandi kemstu ekki nær höfuðborgarsvæðinu og þegar búið verður að tvöfalda Suðurlandsveg verða íbúar í Kambalandi jafn lengi að fara til vinnu í miðborg Reykjavíkur og íbúar úr Grafarvogi.
Þarna er gríðarlegt útsýni og fallegt og við reynum að hafa hverfið svolítið lokað svo um hverfið fari ekki aðrir en þeir sem beinlínir eiga þangað erindi. Við erum að ganga frá samningum við Öryggismiðstöð Íslands um allsherjar vöktun á öllu svæðinu, allan sólarhringinn og á því að getað yfirgefið húsið á morgni án þess að hafa áhyggjur af eign sinni. Fyrsta árið verður þessi þjónusta gjaldfrí. Við erum ennfremur að gera samninga við ýmsa birgja í byggingavörum um mun betri kjör fyrir þá sem þarna byggja varðandi allt á byggingastigi húsins, s.s. gólfefni, innréttingar o.fl. en þeir gætu fengið sem einstaklingar enda erum við að semja fyrir um 350 húsbyggjendur, jafnvel fleiri. Þarna geta þeir sem byggja í Kambalandi lækkað umtalsvert sinn byggingakostnað. Ég reikna með að það geti munað allt að 20% frá þeim afslætti sem fólk getur fengið t.d. í byggingavöruverslun sem einstaklingar. Með þessu erum við að búa til ákveðna heildarlausn fyrir þá sem hér munu byggja. Einnig munum við leita eftir samstarfi við allnokkra verktaka um að koma að þessu og byggja og munum við sjá um fjármögnun fyrir þá á lóðarpökkunum svo það ætti að verða býsna þægilegt fyrir þá. Línuhönnun mun hafa yfirumsjón með allri hönnun á gatnagerð svo ég segi að þarna verður valin maður í hverju rúmi til að gera þetta hverfi eins glæsilegt og aðlaðandi og nokkurs er kostur.
Þeir sem selja 3 eða 4 herbergja eign á höfuðborgarsvæðinu eiga að geta eignast einbýli í Kambalandi án þess að bæta við sínar skuldbindingar, verðmyndunin verður lægri en í úthverfum Reykjavíkur. Þetta er markhópur sem ekki hefur getað ráðið við það að eignast sérbýli á höfuðborgarsvæðinu vegna kostnaðar en hinn markhópurinn er fólk sem einfaldlega vill eignast annað heimili á rúmum byggingareit á umhverfisvænu svæði umvafið skógarkraga. Í síðasta áfanganum verða byggð “fábýli”, þ.e. hús með 4 - 6 íbúðum sem munu standa eftir uppi við hamarinn með útsýni yfir allt svæðið. Þessar íbúðir verða hins vegar allar með sérinngangi,” segir Magnús Jónatansson.
Magnús segir að nú þegar sé farið að spyrjast fyrir um lóðir í Kambalandi en samt verði ekki aðhafast neitt fyrr en hægt verði að sýna heildarmyndina af svæðinu, s.s. með heimasíðu en það mun gerast á næstu tveimur mánuðum.

Ódýrari kostur en samsvarandi hverfi á höfuðborgarsvæðinu
Ingimundur Sveinsson arkitekt segir að vinna að deiliskipulagi hafi farið hægt af stað þar sem skoðaðir voru ýmsir kostir. Magnús Jónatansson hafi sjálfur verið með ýmsar hugmyndir, m.a. um það að þetta svæði væri ódýrari valkostur en samsvarandi svæði á höfuðborgarsvæðinu. Það hafi tekist enda landið gott byggingaland en stílað hafi verið upp á það að þarna risi lágreist byggð.
“Það kom fljótt upp hugmynd að gatnakerfi og húsagerð sem hélst allt hönnunarferlið. Það er tengibraut eða slaufa gegnum hverfið sem tengist núverandi gatnakerfi og síðan eiga að koma mislæg gatnamót við þjóðveginn sem bæði nýtist þeim sem vilja aka austur eftir þjóðveginum en einnig sem tenging við byggð sem fyrirhugað er að rísi sunnan þjóðvegarins. Það er hins vegar mjög skammt á veg komið. Kambalandið er hins vegar í heild sinni hugsað eins og þrír klasar og þú kemst ekki nær Reykjavík en þarna en ert áfram á Suðurlandsundirlendinu. Með tvöföldun vegar austur verður ekki mikið ferðalag að komst þaðan til og frá Reykjavík fyrir þá sem vilja sækja vinnu í Reykjavík. Þetta hverfi er einnig hentugt fyrir þá sem vilja stunda t.d. hestamennsku, golf o.fl. en markhópurinn er fólk sem vill búa í sérbýli, vill búa utan höfuðborgarinnar og það fær ódýrar lóðir í Kambalandi,” segir Ingimundur Sveinsson arkitekt sem segir svæðið frá Akranesi, til Keflavíkur og austur á Selfoss eitt atvinnusvæði og því tímabær að hugsa um það sem eitt búsetusvæði. 

Fyrsta lóðaúthlutun í byrjun nóvembermánaðar
Verkfræðistofan Línuhönnum sér um verkefnastýringu og hönnun á verkinu og stofan kom að gerð deiliskipulagsins sem Ingimundur Sveinsson arkitekt annaðist. Línuhönnum sér um hönnun gatnakerfisins og hönnun á veitum.
Guðmundur Guðnason, byggingaverkfræðingur segir að Línuhönnun sjái um útboð gatngerðar þegar gögn séu tilbúin og sjái um eftirlit á framkvæmdatíma þar til lóðir eru byggingahæfar. Lóðir verða boðnar út í áföngum, þær fyrstu í byrjun nóvembermánaðar en seinni áfangar.
“Það er að verða mun algengara að svæði séu skipulögð svipað og gert er í Kambalandi enda svæðið bæði heppilegt byggingasvæði og ibúðasvæði. Heilu svæðin eru tekin, deildiskipulögð og hönnuð frá upphafi til enda, Það er stöðugt verið að leggja meiri vinnu í deildiskipulögin og þannig auka gæði hverfanna enda er stöðugt meiri krafa um hagkvæmni og að fólki líði vel í hverfinu og það gerist m.a. með því að skipuleggja þau í heild sinni, ekki taka bút og bút. Í hverfinu er m.a. safngata sem virkar vel og auk þess hefur  byggðin verið dregin nokkuð frá hamrinum og fellur mjög vel að náttúrunni. Það fylgir hverfinu þjónustustarfsemi, verslanir og skólar sem fólk vill sjá strax í hverfum í nútímaþjóðfélagi og hvort það er í nálægð við útivistarsvæði,” segir Guðmundur Guðnason.
Hljóðmön verður strax byggð enda hluti af frágangsvinnu á svæðinu og tengingin við næsta íbúðarhverfi er fín. Kambaland mun styrkja Hveragerðisbæ mikið.

Hveragerðisbær annast byggingaeftilit og síðan ýmsa þjónustu
Forsvarsmenn Hveragerðisbæjar, þau Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri, Eyþór H. Ólafsson formaður skipulags- og bygginganefndar og Guðmundur F. Baldursson skipulags- og byggingafulltrúi, segja að upphaflega hafi verið byrjað að skipuleggja Kambalandssvæðið upp úr 1960 þegar það var að stórum hluta í eigu Eyjólfs Konráðs Jónssonar, en tilgangurinn var þá að reisa þarna sumarhúsabyggð. Lóðirnar voru seldar svo svæðið var í eigu margra aðila. Magnús Jónatansson kemur inn í þetta fyrir um tveimur árum síðan og fór að vinna í því að allar lóðirnar væru á sömu hendi og Hveragerðisbær seldi svo Kambalandi sinn eignarhluta sem var 6 ha.
Bærinn hefur auðvitað skipulagsvaldið og hefur verið þátttakandi í skipulagsvinnunni sem hefur fyrst og fremst verið unnin af Ingimundi Sveinssyni arkitekt en síðan er það bæjarins að annast byggingaeftirlit og síðan þjónustuna eftir að svæðið byggist upp, s.s. lögbundna þjónustu leikskóla, viðhald gatna og gagnstétta og fleira eins og í öðrum íbúðahverfum. Í dag er allt svæðið eignaland Kambalands. Á svæðinu verða að mestu einbýlishús en einnig parhús og lítil fjölbýlishús við eina götu þar sem allar íbúðirnar hafa sér inngang. Skammt er frá Kambalandi í skemmtilegar göngu- og reiðleiðir og útivistarsvæði. Gert er ráð fyrir að vegurinn sveigi frá Kambalandi þegar komið er af heiðinni til að taka af kröppustu beygjuna við tvöföldun hans og fyrir því er einnig gert ráð í aðalskipulagi Hveragerðisbæjar.


Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga