Greinasafni: Skipulag
Þorlákshöfn

Þorlákshöfn:
Lóðarverð aðeins um fjórðungur verðs á höfuðborgarsvæðinu

Ölfus er vestasta sveitarfélag Árnessýslu og nær í austur að Ingólfsfjalli. Íbúafjöldi er liðlega 1.800 manns. Ljóst er að þegar komið er til Þorlákshafnar að töluvert er verið að byggja þar, bæði íbúðarhús, atvinnuhús, og eins þjónustubyggingar eins og íþróttahús. Þorlákshöfn er stærsti byggarkjarninn í sveitarfélaginu Ölfusi og einnig eru nokkrar framkvæmdir á öðrum svæðum, s.s. á svæðinu milli Hveragerðisbæjar og Árborgar sem tilheyrir Ölfusi en það er nokkuð ljóst að það svæði er njóta vaxandi athygli þeirra sem vilja búa í dreifbýli, en ekki of langt frá höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélagið er mjög víðfeðmt, eða um 800 ferkílómetrar.

 
Næg atvinna hefur verið í Þorlákshöfn til þessa en töluverð skerðing á fiskveiðiheimildum er nokkuð áfall fyrir fiskvinnsluna en atvinnuleysi hefur fram til þessa verið takmarkað. En vegna nálægðarinnar við þéttbýlisstaði eins og Selfoss, Hveragerði og höfuðborgarsvæðið er það nokkuð algengt að fólk sæki vinnu frá þessum stöðum í Þorlákshöfn og einnig öfugt, þ.e. býr í Þorlákshöfn og keyrir til þessara staða.
Sigurður Jónsson, skipulags- og byggingafulltrúi sveitarfélagsins Ölfus segir að til staðarins sæki fólk sem vill fá meira fyrir peninginn sinn, byggja hús með minni tilkostnaði en á höfuðborgarsvæðinu, enda er t.d. lóðarverð mun ódýrara í Þorlákshöfn en t.d. þekkist í Reykjavík. Til Þorlákshafnar flytur m.a. eldra fólk sem hefur hætt á atvinnumarkaðnum vegna aldurs enda byggir sveitarfélagið fyrir þennan aldurshóp, bæði parhús og hús annara gerða.
Ölfus rekur einnig fjölskylduvæna starfsmannastefnu en tilgangur og markmið sveitarfélagsins með henni er að hún skili  hæfari og ánægðari starfsmönnum. Mannauður sveitarfélagsins er sá þekkingarauður sem býr í starfsmönnum þess, menntun þeirra, færni og viðhorfum. Markmiðið er því m.a. að hafa hæfa, áhugasama  og trausta starfsmenn, markviss vinnubrögð, skýra ákvörðunartöku og frumkvæði í starfi.

Sigurður Jónsson, skipulags- og byggingafulltrúi
sveitarfélagsins Ölfus.

Stórskipahöfn til að sinna Evrópusiglingum
“Atvinnan er eðlilega mest í kringum útgerð og fiskvinnslu en auðvitað er grunnskólinn stór vinnustaður eins og í öllum sveitarfélögum sem og ýmiss þjónustuiðnaður eins og t.d. trésmiðjur og sumarhúsaframleiðsla auk annara þjónustugreina í minni stíl. Höfnin skapar umtalsverða vinnu og þar með talin þjónustu kringum Vestmannaeyjaferjuna Herjólf en okkur finnst sárt hvað lítil er rætt um hvað hér tapast mörg störf, þjónusta og tekjur þegar höfn verður byggð á Bakkafjöru og ferjan hefur siglingar þangað. Við erum að kynna höfnina hér í Þorlákshöfn sem stórskipahöfn og sjáum mikla möguleika í siglingum til og frá Evrópu enda er sigling um 9 klukkustundum styttri hingað en ef siglt er fyrir Reykjanes til Reykjavíkur.
Vaxandi eftirspurn er hér um aðstöðu fyrir grófiðnað sem og fyrir aðstöðu til að ”lagera” hér, enda er hér nóg landrými. af hálfu. Svo er einnig mikil umræða um orkufrekan iðnað hér, bæði áltæknigarða og álverksmiðju, en nokkur fyrirtæki eru í viðræðum við okkur um hvorutveggja. Áhuginn á að setja niður orkufrekan iðnað byggist ekki síst á því að innan marka sveitarfélagsins er Hengilsvæðið þar sem Orkuveita Reykjavíkur er nú að vinna. Umræðan hefur í fyrstu snúist um 80 til 90 megawattavirkjun en einnig mun meira, eða 440 megawatta virkjun,” segir Sigurður Jónsson.

Í dreifbýlinu eru m.a. þessu sumarhús að Núpum.

Suðurstrandavegur akkur fyrir ferðaþjónustu og ferskfiskútflutning
Höfuðborgarsvæðið er orðið nokkuð ásetið hvað varðar lóðir og umferð en Sigurður segir að í Þorlákshöfn sé ástandið mun betra, ekki síst hvað varðar lóðir, og vegsamband til höfuðborgarsvæðisins og til annara staða á Suðurlandi sé einnig gott. Áform um Suðurstrandaveg hafa verið á áætlun síðan 1991 og var loforð í tengslum við nýja kjördæmaskipan þegar Suðurland og Reykjanes urðu í einu kjördæmi. Nú er hann loks að verða að veruleika því fyrsti áfangi hans er að fara í útboð sem er kaflinn frá Þorlákshöfn að landamerkjum sveitarfélagsins Grindavíkur. Suðurstrandavegur verður ferðaþjónustunni mikill styrkur því með honum munu ferðaþjónustuaðilar markaðssetja sig gegnum Leifsstöð um Suðurstrandaveg og hann mun auðvelda til muna ferskflutningútflutning með flugi um Keflavíkurflugvöll. Auk þess telur Sigurður að þeim fiskiskipum muni fjölga sem landi í Þorlákshöfn til að selja ferskan fisk til útflutnings þegar Suðurstrandavegurinn verður orðinn vetrarvegur. Allt þetta kallar svo á fleira starfsfólk, meiri byggingaframkvæmir og auðugra mannlíf.

- Í Þorlákshöfn er alltaf verið að byggja, m.a. á nýjasta svæðinu sem hefur verið deiliskipulagt, Búðahverfi með 223 íbúðir. Þetta hlýtur að tákna að margir hafi trú á öfluga framtíð þessa staðar?
“Það er augljóst en Búðahverfið er að verða fullbyggt. Einnig erum við með svæði norðan við Ráðhúsið við innkomuna í bæinn. Það fer vaxandi að verktakar komi til okkar og biðji um stór byggingasvæði sem þeir vilja skipuleggja sjálfir og margir þeirra segja að markaðssetning framtíðarinnar sé hérna megin Hellisheiðar frá Þorlákshöfn að Ölfusá.
Við ætlum að vera tilbúnir með stærri svæði, eins og t.d. á svæðinu milli Hveragerðis og Selfoss þegar þörfin fer að vaxa, en sumir spá að þar geti verið komin nokkurra þúsund manna byggð innan nokkurra ára.
Í rammaskipulagi er horft til framtíðar og með því getum við hjálpað til, og þá deiliskipulagt þau svæði sem áhugi er á að byggja á. Enda hefur rammaskipulag ekkert lagalegt gildi eitt og sér
Beggja vegna þjóðavegar 1 hafa fjárfestar verið að kaupa lönd og kynna hvað húsbyggjendum standi til boða á þessu svæði. Það eru m.a. 5.000 fermetra lóðir þar sem hægt er m.a. að vera með hesthús í bakgarðinum, en einnig að vera með vinnustofur eða skrifstofur á svæðinu meðfram íbúð en tryggt verður á svæðinu háhraðatenging fyrir síma og tölvur. Það er nú þegar mikil spurst fyrir um lóðir á þessu svæði. Ég tel að innan mjög langs tíma verði Hveragerði og Árborg runnið þarna saman í einn byggðakjarna með nokkuð þéttbýlt Ölfus þar á milli. Nú þegar er gott samstarf um grunnskóla, leikskóla, slökkvilið o.fl. milli þessara þriggja sveitarfélaga. Þorlákshöfn er orðinn nútímabær og góður kostur þar sem það er svo stutt í allar áttir.”
Sigurður segir ljóst að ekki verði af sameiningu þessara sveitarfélaga á þessu kjörtímabili, en hvað framtíðin beri í skauti sér í þessu máli sé að sjálfsögðu óvíst.

Ódýrar lóðir
- Má skýra aukna ásókn í byggingalóðir í Þorlákshöfn m.a. í því að þær eru ódýrari og fasteignaverð í sveitarfélaginu er kannski 20 - 30% ódýrara en gerist með sambærilega eign á höfuðborgarsvæðinu?
“Lóð kostar hér líklega um 2,5 milljónir króna á meðan sambærileg lóð í Reykjavík kostar kannski 12 milljónir króna, jafnvel meira. Eldri eignir ganga á lægra verði en gerist á höfuðborgarsvæðinu og dæmi eru þess að eldri einbýlishús eru á fara á verði svipað og 3 herbergja íbúð í blokk í Reykjavík, eða 21 - 22 milljónir króna. Það er fólk stöðugt meðvitaðra um og þess vegna vill m.a. setjast hér að þó það haldi áfram að sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Ef þú átt góðan bíl er þetta ekkert mál. En svo er verið að byggja hér hús fyrir 50 - 60 milljónir króna, rétt eins og gerist annars staðar, enda byggingakostnaður sambærilegur.”
Sigurður Jónsson segir að jafnframt þessu séu grunnskólinn og leikskólinn mannaðir fagfólki og allir fái leikskólapláss sem þess æskja.
Sveitarfélagið Ölfus auglýsir nú lausar til úthlutunar lóðir við Finnsbúð 14, Pálsbúð 3, 6, 8, 11, 14, 16, 18, 22, 24 og 26 Gissurarbúð 2 og Básahraun 38 og 40. Verð á lóðunum er um 2 – 2,5 miljónir með öllum gjöldum. Umsóknarfrestur um lóðirnar er til 12. október nk. Umsóknum skal skilað á þar til gerðum eyðublöðum sem hægt er að nálgast á skrifstofu sveitarfélagsins eða á vefsíðunni www.olfus.is

 
Fjallaskjól
Þorpið Fjallaskjól er að rísa á milli Hveragerðis og Selfoss en eigendur að félaginu Fjallasölum eru að skipaleggja um 200 hektara lands á Kotströnd í samstarfi við sveitarfélagið Ölfus. Landið kaupa þeir út úr jörðunum Kotströnd og Akurgerði en þar er gert ráð fyrir um 300 einbýlishúsa lóðum auk verslunar- og þjónustustarfsemi en öll þjónusta, s.s. skólar, verður á hendi sveitarfélagsins. Hér er því enn einn möguleikum fyrir þá sem vilja búa í sveit.

Sperrur hífðar á hús í Búðahverfinu.

Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga