Greinasafni: Skipulag
Akureyri

Staða skipulagsmála á Akureyri
Pétur Bolli Jóhannesson er skipulagsstjóri hjá Akureyrarbæ. Hann segir að endurskoðað aðalskipulag Akureyrar 2005 – 2018 hafi verið samþykkt af umhverfisráðherra í desember á síðasta ári. Meginbreytingarnar hafi verið tengdar skilgreiningu og uppbyggingu á miðbæjarsvæðinu, svo sem legu tengibrauta og þéttingu byggðar. Hann segir skipulag miðbæjarins endurspegla þann ásetning bæjaryfirvalda að gera miðbæ Akureyrar að þungamiðju mannlífs og menningar á Akureyri.

 
Nú er í gangi vinna hönnunarhóps á kostagreiningu og umferðargreiningu á miðbæjarsvæði , reitum sem fengið hafa númerin 1 -5. Þetta miðbæjarsvæði teygir sig frá hafnarsvæðinu  að Hafnarstræti. Þessi vinna hönnunarhópsins byggir á vinningstillögu Graeme Massie í Edinborg, Skotlandi, um m.a. sjávarsíki, sem tengdi núverandi miðbæ við Torfunesbryggju, menningarhúsið og Pollinn. Í framhaldi af áðurnefndri kostagreiningu, þegar ákvaðanir hafa verið teknar um valkosti, þá hefst vinna við deiliskipulagsgerð svæðisins og í framhaldinu er stefnt að því að hefja undirbúning á framkvæmdum á miðbæjarreitum sem númeraðir hafa verið 1 og 4 í samvinnu við fjárfesta/byggingaraðila. Enn hefur ekki verið ákveðið hvenær framkvæmdir við miðbæjarreiti 2,3 og 5 verða hafnar.

Pétur Bolli Jóhannesson, skipulagsstjóri Akureyrarbæjar.

Þétting byggðar og landnotkun
Víða í bænum er að sögn Péturs Bolla gert ráð fyrir þéttingu byggðar í nýja aðalskipulaginu. Stefnt er að því að nýta óbyggð svæði innan núverandi  byggðar þannig að þjónustukerfi, svo sem gatnakerfi, lagnir og stofnanir verði betur nýtt.
Skipaður hefur verið stýrihópur sem fjalla á um breytingar á landnotkun Akureyrarvallar en við endurskoðun aðalskipulagsins var ákveðið að breyta landnotkun svæðisins úr íþróttavallarnotkun í blandaða landnotkun sem heimilar íbúðir, verslanir og opin svæði á reitnum. Gert er ráð fyrir að stýrihópurinn skili af sér tillögum um breytta landnotkun fyrir áramót. Einnig er nýlokið vinnu við endurskoðun deiliskipulags á hafnarsvæðinu á Oddeyri. Vegna uppbyggingar Aflþynnuverksmiðju í Krossanesi er þörf á endurskipulagningu þess svæðis sem nú er í vinnslu en gert er ráð fyrir að verksmiðjan taki til starfa á vormánuðum 2008, segir Pétur Bolli.

Deiliskipulag
Nýlokið er vinnu í skipulagsdeild við deiliskipulagsgerð í íbúðahverfum í Naustahverfi og Síðuhverfi. Samþykkt var nýtt deiliskipulag við Jaðarsíðu þar sem gert er ráð fyrir tíu byggingarlóðum undir átján íbúðir, sjö lóðum fyrir einbýlishús og þremur lóðum fyrir þriggja og fjögurra íbúða raðhús. Því sem næst öllum lóðunum hefur verið úthlutað og er gert ráð fyrir að vinna við gatnagerð verði lokið á seinni hluta þessa árs.
Fram kom hjá Pétri Bolla að í Naustahverfi liggur fyrir samþykkt deiliskipulag af hluta fyrsta áfanga, reitum nr. 1 og 2, og hefur þeim lóðum verið úthlutað að mestu. Þar er gert ráð fyrir tuttugu og tveimur byggingarlóðum fyrir áttatíu og þrjár íbúðir sem skiptast svo: Fimmtán lóðir undir einbýlishús, tvær lóðir fyrir parhús, tvær lóðir fyrir raðhús og þrjár lóðir fyrir fjölbýlishús. Auk þess hefur verið úthlutað fimm lóðum undir 28 – 38 íbúðir úr fyrsta áfanga og er skiptingin þannig: Tvær fjölbýlishúsalóðir, ein raðhúsa-/fjölbýlishúsalóð og tvær parhúsalóðir. Staðsetning þessara lóða er austan við reiti nr. eitt og tvö. Þess má geta að í vesturjaðri þessa svæðis eru hugmyndir um byggingu nýrrar Bónusverslunar sem þjóna muni syðri hluta bæjarinns.
Lokið er við, segir Pétur Bolli, deiliskipulagsvinnu á reit 28 við Krókeyrarnöf ( húsgerðir B, C og D ) í Naustahverfi og hefur öllum lóðum verið úthlutað. Gert ráð fyrir að A – hluti svæðisins, sex einbýlishúsalóðum, verði úthlutað á síðari hluta þessa árs. Deiliskipulagsvinna við þriðja áfanga Naustahverfis er hafin og má vænta fyrstu tillagna frá hönnuðum í lok ársins.

Mikil aukning framkvæmda
Samtals er því áætlað að á þessu ári verði úthlutað fjörutíu og þremur íbúðarhúsalóðum undir eitt hundrað þrjátíu og fimm til eitt hundrað fjörutíu og fimm íbúðir. Þess má geta til samanburðar að á síðasta ári var úthlutað þrjátíu og tveimur íbúðarhúsalóðum undir alls fimmtíu og átta íbúðir. Þá má einnig geta þess að um áramótin 2007 voru framkvæmdir ekki hafnar á sjötíu lóðum undir alls þrjú hundruð áttatíu og þrjár íbúðir, sem úthlutað hafði verið á undanförnum árum. Á síðasta ári voru hafnar framkvæmdir við um það bil tvö hundruð og sjötíu íbúðir, tvö hundruð fjörutíu og tvær íbúðir árið 2005 og eitt hundrað níutíu og fjórar íbúðir árið 2004. Þetta sýnir glöggt þá aukningu sem orðið hefur bæði í úthlutunum lóða og framkvæmdum á Akureyri.
Í framhaldi af endurskoðun á A – áfanga Nesjahverfis voru sex iðnaðarlóðir auglýstar við nr. 1, 3, 4, 14 og 18 við Goðanes og nr. 7 við Baldursnes og hefur þeim nú flestum verið úthlutað.  Að sögn Péturs Bolla er mikil ásókn í iðnaðarlóðir í Nesjahverfi og  verður því C – áfangi deiliskipulagður á þessu ári en ólíklegt er að lóðir þar komi til úthlutunar fyrr en á næsta ári. Á síðasta ári, segir Pétur Bolli, var þrjátíu og fimm atvinnuhúsalóðum og lóðum með annars konar nýtingu úthlutað og er heildarflatarmál þeirra  59.430 fermetrar.

 


Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga