Sveinn Heiðar Akureyri

Trésmíðaverkstæði  Sveins Heiðars á Akureyri.
Öflugur byggingarverktaki í yfir 20 ár

Trésmíðaverkstæði Sveins Heiðars, Strandgötu 37, 600 Akureyri ( www.finhus.is ) var stofnað 4. Apríl árið1986 af Sveini Heiðari Jónssyni. Uppruna sinn á þó fyrirtækið að rekja allt aftur til fjórða áratugar síðustu aldar en þá hóf Jón Gíslason, faðir Sveins, verktakastarfsemi á Akureyri. Hjá fyrirtækinu starfa nú að meðaltali um 30 manns. Stjórnarformaður fyrirtækisins er Sveinn Heiðar Jónsson og framkvæmdastjóri er Heiðar Jónsson.
Fyrstu árin voru verkefni fyrirtækisins aðallega smíði raðhúsa, viðhaldsverkefni ýmis konar og þá ekki síst við húsbyggingara fyrir bændur, smíði bæði íbúðar- og útihúsa. Þá má geta þess að fyrirtækið hefur komið að smíði orlofshúsa fyrir ýmsa aðila í Kjarnaskógi.
Fyrirtækið hefur komið víða við, þar á meðal mjög við sögu húsbygginga á Akureyri og tekið á þann þátt í uppbyggingu bæjarins. Þá hefur fyrirtækið verið með verkefni víða um land og er nú helst að geta íbúðarhverfa á Reyðarfirði og Egilsstöðum. Þá hefur fyrirtækið byggt hús á Hrafnagili, Grenivík og í Jökuldal. Sem dæmi um  verkefni er að sumarhús, skrifstofubyggingar og svefnskálar, samt. um 1000 ferm., voru reist og flutt fullbúin austur í Fljótsdal í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.

Reyðarfjörður – vandaðar  framkvæmdir og hönnun
Mikil eftirspurn er nú eftir húsnæði á Reyðarfirði. Verkefni fyrirtækisins sem það vinnur nú að á Reyðarfirði er mjög umfangsmikið. Þar byggir fyrirtækið nú áttatíu og átta par-, rað- og einbýlishús í nýju hverfi sem nefnist Melahverfi. Lokið verður við hluta íbúðanna fyrir næstu áramót. Áætlað er að þessum framkvæmdum verði lokið árið 2008. Vandað er sem kostur er til allra verkþátta.
Íbúðirnar, hvort sem um er að ræða rað-, par eða einbýlishús, eru hannaðar þannig að birtuflæði sé sem mest. Unnið er út frá svonefndu „opnu plani“  þar sem stofa, eldhús og borðstofa renna saman í eitt rými. Leitast er við að nota umhverfisvænt byggingarefni; efni sem ekki hafa skaðleg áhrif á heilsu fólks og eru jafnframt viðhaldslítil eða jafnvel viðhaldsfrí. Hurðir og gluggar eru úr timbri og gler í gluggum íbúðanna er tvöfalt svonefnt K-gler. 
  Öll gólf íbúðanna á Reyðarfirði eru flísalögð og eru innveggir klæddir tvöföldu lagi af gifsplötum. Veggir á milli íbúða, útveggir og loft eru klædd með gifsplötum. Innihurðir og hurðakarmar eru eikarspónlagðir. Veggir og loft eru máluð með venjulegri innanhússmálningu nema á baði og þvottahúsi þar sem notuð er sterk, glansandi málning. Loftnetstenglar eru í stofu og svefnherbergjum. Símatenglar eru í öllum herbergjum og miðrými. Innfelldir sparperulampar eru við allar útihurðir. Hitakerfi er í öllum gólfum og hitastillir fyrir hvert herbergi eða rými.
Vandað er til allra innréttinga. Framhliðar eldhússinnréttinga eru úr spónlagðri eik. Bekkplata er klædd harðplasti. Í innréttingunni er keramikhelluborð ásamt viftu, stálvaski og bökunarofni úr burstuðu stáli. Skápar borðplata á baðherbergi eru með sama frágangi og í eldhúsi. Fyrir ofan spegil er ljósakappi úr eik með halógenljósum. Á baði er sturta. Í hjónaherbergi  er rúmgóður fataskápur, sem er úr plasthúðuðum spónaplötum. Hurðir eru spónlagðar með eik. Í einu barnaherbergi hverrar íbúðar er fataskápur úr sama efni og skápur í hjónaherbergi.
Í þvottahúsi eru skápar með hvítum plasthurðum og með höldum úr ryðfríu stáli. Bekkplata er plasthúðuð og vaskur úr ryðfríu stáli felldur niður í bekkplötuna. Blöndunartæki eru krómuð. Hvítar plasthúðaðar hillur eru í geymslu. Í geymslunni eru 7,5 metrar af hillum.
Lóðirnar eru þökulagðar og gönguleiðir heim að aðaldyrum eru steyptar. Bílaplan er malbikað. Sólpallur, 8 fermetrar,  er steyptur.
Bílgeymsla er flísalögð og fullmáluð. Bílskúrshurð er uppsett, fullfrágengin og með sjálfvirkum hurðaropnara.
Allar einigar í ofangreindar byggingaframkvæmdir á Reyðarfirði eru framleiddar á Akureyri af Trésmíðaverkstæði Sveins Heiðars og þá fluttar austur og settar saman á Reyðarfirði.

Helstu núverandi framkvæmdir á Akureyri
Trésmíðaverkstæði Sveins Heiðars hefur nú í byggingu tíu raðhúsaíbúðir á Akureyri auk þess að vera með í byggingu 1000 fermetra geymsluhúsnæði. Þá hefur fyrirtækið nýlokið við að reisa allnokkur orlofshús í Kjarnaskógi og einnig er nýlokið byggingu fjögurra íbúða húss. Þá má geta þess að nýhafnar eru framkvæmdir við 12 íbúða hús á tveimur hæðum.

Leigufélagið Strandabyggð
Á vegum Trésmíðaverkstæðis Sveins Heiðars er rekið Leigufélagið Strandabyggð (www.finhus.is og www.austurland.is) þar sem í tengslum við hina miklu uppbyggingu í Fjarðarbyggð hefur sýnt sig að margir þurfa tímabundið á húsnæði að halda, áður en þeir í mörgum tilvikum setjast svo að á staðnum. Húsnæðið sem boðið er upp á í þessu sambandi er samskonar og þær rað- og parhúsaíbúðir sem fjallað hefur verið um hér að framan.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga