Greinasafni: Skipulag
Listaháskóli Íslands nýbygging

Frá því Listaháskóli Íslands var stofnaður árið 1998 hefur verið stefnt að því að finna honum stað í miðborg Reykjavíkur, í hringiðu lista- og menningarlífs þjóðarinnar. Með fulltingi menntamálaráðuneytis og samningi við fasteignaþróunarfélagið Samson Properties ehf. um að reisa hús fyrir skólann á horni Frakkastígs og Laugavegar getur skólinn uppfyllt þetta markmið.
Frá því Listaháskóli Íslands var stofnaður árið 1998 hefur verið stefnt að því að finna honum stað í miðborg Reykjavíkur, í hringiðu lista- og menningarlífs þjóðarinnar. Með fulltingi menntamálaráðuneytis og samningi við fasteignaþróunarfélagið Samson Properties ehf. um að reisa hús fyrir skólann á horni Frakkastígs og Laugavegar getur skólinn uppfyllt þetta markmið.

Listaháskólinn vill vera í hringiðu lista- og menningarlífs þjóðarinnar. Skólinn á erindi við alla landsmenn og verður sú miðstöð sköpunar og miðlunar sem fólk úr öllum stéttum og á öllum aldri á erindi við. Bókasafnið, tónlistarsalurinn, leikhúsið, myndlistarsýningarnar, tískan, hönnunin og arkitektúrinn: allt á þetta erindi við fólkið í landinu, án tillits til þess hvort það telst til listamanna, fræðinga, áhugafólks eða almennings sem er forvitinn um þau miklu svið mannlegrar hugsunar sem Listaháskólinn lætur sig varða.
Sköpunarkraftur
Í Listaháskóla Íslands þróast sköpunarkraftur fjölmargra listgreina í krafti samvinnu og togstreitu. Umhverfið sem skapað verður utan um þetta fjöregg þarf að hlúa að þessum vaxtarbroddi og vera hvetjandi til frumlegrar hugsunar. Hús sem býður upp á flæði orku og sköpunar.
Miðbærinn
Framtíð miðbæjar Reykjavíkur er í nokkurri óvissu og sú uppbygging sem spáð hefur verið við Laugaveg lætur á sér standa. Listaháskóli sem staðsettur er á miðjum Laugavegi verður þungamiðjan í þeirri þróun að væntanleg uppbygging stuðli að margbreytilegu mannlífi. Starfsemi skólans verður hluti af menningarstarfi höfuðborgarinnar. Byggingin styrkir tengsl sín við borgarmyndina með því að hafa listsýningarsal og aðalinngang skólans við Laugaveg auk þess sem ráð er fyrir því gert að bæta við starfsemina kaffihúsi og lítilli verslun með hönnun og listmuni tengda skólanum.
Hugmynd
Ein sérstaða Listaháskóla Íslands er fólgin í þeim fjölbreytileika listgreina sem þar er stundaður ásamt óhefðbundinni samvinnu ólíkra greina. Byggingin endurspeglar þessa sérstöðu. Hún er sett saman úr kubbalaga einingum sem hlaðast upp umhverfis opið miðrými, sem myndar lífæð með tengingum innan skólans. Grunnformið og efnisval þeirra endurspeglar fjölbreytni skólans um leið og það brýtur upp stærð byggingarinnar í hlutföll sem eiga sér samhljóm í stærð gömlu húsanna í miðbænum.
Aðkoma
Þegar gengið er upp Laugaveg birtist skólinn á vinstri hönd rétt áður en komið er að Frakkastíg. Byggingin er nútímaleg en fellur vel að nærliggjandi húsum. Fyrsti viðkomustaður er kaffihús skólans, sem er í gömlu uppgerðu húsi (Laugavegur 41). Þar er samkomustaður nemenda, en kaffihúsið er jafnframt ætlað almenningi. Þar hittist blandaður hópur nemenda, kennara og starfandi listamanna til ánæjulegra samskipta. Á góðviðrisdögum eru stólar og borð sett út á lítið torg “Listatorg” fyrir framan skólann og við það aukast tengslin við miðbæjarlífið.
Inngangar
Aðalinngangur skólans frá Laugavegi er skýr og áberandi og stendur við lítið torg. Byggingin og inngangur hennar býður gesti velkomna enda er stór hluti af starfsemi skólans opinn almenningi. Gengið er inn á milli kaffihússins og verslunarinnar. Á horni Frakkastígs og Laugavegs er sýningarsalur skólans. Í honum eru stórir gluggar út að Laugavegi þar sem listsýningar geta nýtt sér góða tengingu við miðbæjarlífið. Á annari hæð, ofan við aðalinngang skólans, sést inn í bókasafnið, skjár inn í heim sköpunar og fróðleiks. Annar inngangur í meginbyggingu skólans er frá Hverfisgötu, andspænis litlu torgi norðamegin við götu, þar sem gengið er inn í Hverfisgötubyggingu.
Tenging
Greið leið liggur frá aðalinngangi niður stiga í gegnum skólann og að norðurinngangi við Hverfisgötu, þaðan liggur gönguleið að torgi og inngangi í byggingu Listaháskólans við norðanverða Hverfisgötu. Áframhaldandi tenging er síðan um nemendagarða niður á Lindargötu. Listaháskólinn tengir þannig saman byggðina í kring og opnar svæðið fyrir gangandi umferð og mannlífi. Innangengt er í húsnæði Regnbogans af Hverfisgötuhæð aðalbyggingar.
Innra skipulag
Starfsemi og deildum skólans er raðað umhverfis lóðréttan ás sem jafnframt er lífæð hans, opnir stigar liðast um rýmið og tengja starfsemina í eina heild. Stærð, hlutföll og hin mikla salarhæð miðrýmisins undirstrikar mikilvægi þess sem hjarta hússins. Inngangurinn frá Laugavegi tengist matsal á jarðhæð og tilkomumiklar tröppur liggja frá honum að hátíðarsal og þaðan niður í leiksal. Öllum deildum skólans er þannig komið fyrir í húsinu að flæði og tengsl milli þeirra eru einföld og óhindruð. Auk þessa eru í húsinu tvö lokuð stigahús ásamt lyftum.
Lífæð
Þegar komið er inn um aðalinngang er lofthæð í fyrstu hefðbundin, en þegar innar í bygginguna er komið taka við salarkynni sem ná allt að sex hæðir upp. Sjá má fjórar hæðir af iðandi mannlífi á svölum og stigum sem liggja upp eftir veggjum salarins. Á efri hæðum stingast svalir út í rýmið líkt og syllur í bjargi. Bókasafnið er á annari hæð en set- og hvíldarkrókar á hæðum þar fyrir ofan. Breiður stigi liggur niður að hátíðarsal skólans og þegar nær er komið blasir við stigi sem liggur niður að leiksal.


Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga