Greinasafni: Arkitektar
Sífellt aukin áhersla á skipulags- og þróunarverkefni
THG Arkitektar vilja taka þátt í að móta nútímaarkitektúr á Íslandi og losa Reykjavík úr viðjum grákassastefnunnar
THG Arkitektar var stofnað af Halldóri Guðmundssyni arkitekt í október 1994 og er verksvið fyrirtækisins almenn hönnun bygginga, áætlanagerð, eftirlit ásamt verkefna- og byggingastjórnun mannvirkja.

Tillaga að miðbæjargarði í Kvosinni. Gert er ráð fyrir að nýta baksvæði sem veitinga, kaffihús og garði

Verkefni hafa verið margvísleg, m.a. hönnun skrifstofu- og verslunarhúsnæðis, hótelbygginga, iðnaðarbygginga, fjölbýlishúsa, stofnana fyrir aldraða, flugstöð, íþróttamannvirkja auk deiliskipulaga, endurbygginga eldra húsnæðis og þátttöku í umhverfismati.
 
Innanhúsahönnun er einnig stór þáttur í verkefnum THG. Þar er lögð veruleg rækt við samspil rýmis og notkunar, auk þess sem ytra útlit og almenn líðan hefur áhrif bæði á stafsfólk og viðskiptavini. THG hefur annast hönnun húsgagna, lýsingar og endurhannað útlit innandyra fyrir viðskiptavini. Þau verkefni hafa verið hluti heildarhönnunar byggina og því ekki farið í fjöldaframleiðslu, en það er markmið THG að framleiða einföld gæðahúsgögn með tímalausri fegurð.
 
Allt frá stofnun fyrirtækisins hefur það verið metnaðarmál að uppfylla óskir viðskiptavina á faglegan og hagkvæman hátt. Á síðustu árum hefur starfsmönnum við verkefnastjórnun og eftirlit með framkvæmdum fjölgað innan stofunnar en stofan er brautryðjandi á því svið i meðal arkitektastofa landsins.
 
Innan fyrirtækisins starfa nú á milli fimmtíu og sextíu manns sem búa yfir fjölbreytilegri reynslu á sviði hönnunar, skipulagningar ásamt verkefnastjórnunar og eftirlits með framkvæmdum. THG rekur stofu bæði í Reykjavík, Reykjanesbæ og nú einnig í Kaupmannahöfn og Bandaríkjunum.

Tillaga að endurbæta útlit og innganga við Illum verslunarhúsið í Kaupmannahöfn. Gert er ráð fyrir nýjum inngang við Amagertorv.

Nákvæmni í gæða- og tímaáætlunum
Freyr Frostason arkitekt hóf fyrst störf hjá THG Arkitektum árið 1997 á meðan hann var enn í námi og var síðan fastráðinn árið 2000 sem segir stofuna sífellt takast á við stærri og flóknari verkefni. “Styrkur okkar hefur alltaf verið talinn þessi samþætting á hönnun og framkvæmd,” segir hann. “Við erum með okkar framkvæmda- og eftirlitssvið innanhúss. Annars höfum við verið talsvert mikið að vinna í öldrunargeirarnum, hönnun hjúkrunarheimila, íbúða fyrir aldraða – sem og í heilsugeirarnum. Við höfum einnig verið mikið í verslun og þjónustu, með Kringluna sem dæmi. Við höfum að sjálfsögðu líka hannað mikið af skrifstofuhúsnæði og íbúðarhúsnæði. Þá höfum við unnið að gerð deiliskipulaga fyrir sveitarfélög og ekki má gleyma að nefna endurhönnun og útlitsbreytingar eldri bygginga, bæði hérlendis og erlendis. Það má því segja að við höfum verið í öllu.”
 
Verkefnastjórnunarþáttinn segir Freyr hafa sannað mikilvægi sitt á síðustu árum. “Stofan hefur það að markmiði að stýra verkefnum fyrir hönd verkkaupa í átt að fyrirfram skilgreindum markmiðum. Markmið eru, meðal annars, sett fram í áætlunargerð á ýmsum stigum verkefnis og felast í gerð á kostnaðar-, tíma- og gæðaáætlunum.
 
Framkvæmdaeftirlit felst, meðal annars, í því að tryggja að verkefni séu unnin samkvæmt þeim gæða-, kostnaðar og tímaáætlunum sem lagt er af stað með við undirbúning verka. Við höfum, á síðustu árum, unnið sífellt meira í skipulagsog þróunarverkefnum, auk þess að vera í útrás, einkum í Kaupmannahöfn, þar sem við höfum unnið að stórum verkefnum í hótelum, skrifstofu- og verslunarhúsnæði.”

Skipulagstillaga að nýju verslunar og þjónustukjarna í Kópavogi. Íbúðabyggð og almenningsgarðar, gönguleiðir og leikvellir með bílastæðum í kjallara undir görðum.
 
Landvinningar í austri og vestri
Meðal þeirra verkefna sem THG Arkitektar hafa tekið að sér eru endurhönnun á vissum hluta af þeirri verslun sem Íslendingar þekkja hvað best í Kaupmannahöfn, Illums við Strikið, endurgert tíu þúsund fermetra af skrifstofuhúsnæði í Tietgens hus fyrir danskan banka en húsið sjállft er tvö hundruð ára gamalt. Ýmsar tillögur eru auk þess í farvatninu en á meðan vinnur stofan að endurgerð hótels í miðborg Kaupmannahafnar. Einnig vinnur stofan að fimmtíu prósent stækkun Kringlunnar.
 
“Stofan okkar í Danmörku er byggð upp á svipaðan hátt og stofan hér heima, það er að segja, við erum með hönnunarog framkvæmdasvið þar líka,” segir Freyr. “Ástæðan fyrir því að við höfum sótt inn á þennan markað er sú að í Danmörku eru mikil tækifæri fyrir íslenskt fyrirtæki eins og þetta; fyrirtæki sem getur veitt þjónustu af því hugarfari sem Íslendingum einum er lagið, það er að segja, að gera hlutina vel og hratt og innan þess tíma sem er fyrirfram ákveðinn.” 
 
Ekki hafa þó THG Arkitektar látið staðar numið í landvinningum í austurveg, heldur hefur stofan opnað útibú í New York. Freyr segir hugmyndina hafa kviknað þegar einn af arkitektum stofunnar, Arnaldur Schram, fluttist þangað. “Við ákváðum að halda samvinnu við hann áfram og spinna út frá því þróunar- og samkeppnisdeild sem vinnur aðeins í konseptverkefnum, bæði hér heima og erlendis. Ástæðan er sú að það hefur verið hörgull á kreativum arkitektum í Skandinavíu og á Íslandi þar sem efnahagurinn hefur blómstrað. Íslendingar sem fara erlendis í nám virðast ílengjast þar á stærri stofum, en að við komumst að því að í Bandaríkjunum, einkum New York, er mikið af hugmyndaríku fólki sem hefur minna aðgera. Þannig varð þetta batterí okkar til og þar erum við með fjóra til fimm starfsmenn. Þar er eingöngu unnið að þróunar- og samkeppnisverkefnum og það getur verið kostur við fjarlægðina að geta sent út verkefni sem fær að þroskast þar sér á parti áður en við fáum það til baka.

Freyr Frostason. Mynd Ingó

Móta umhverfi sem gefur eitthvað til baka
Stofan í New York hefur nú þegar hannað tískuvöruverslun í Kaupmannahöfn og núna höfum við verið að vinna að þróunarverkefni fyrir hornið á Grensásvegi og Suðurlandsbraut. Þar hafa menn hug á að byggja skrifstofuumhverfi í tengslum við Laugardalinn – þar sem svokölluð “græn” hugmyndafræðin liggur að baki. Í New York höfum við einnig verið að vinna að spennandi verkefni við Engihjalla í Kópavogi, þar sem verið er að endurskipuleggja verslun og þjónustu og auka íbúabyggð, ásamt því að styrkja garða og útivistarsvæði.”
 
Þegar Freyr er spurður hvers vegna stofan leggi svo mikla áherslu á skipulags- og þróunarverkefni, segir hann: “Við viljum taka þátt í að móta nútíma arkitektúr á Íslandi og viljum fjarlægja þennan svarthvíta arkitektúr, eða þessa grákassa hönnun, sem Reykjavík hefur verið að mótast í, til dæmis við Borgartún. Okkar sýn felst í að móta umhverfi sem gefur eitthvað til baka, er einhver upplifun, eða ögrun, fyrir þann sem heimsækir það. Til dæmis með notkun á litum, efni, formi og lýsingu, auk þeirra grundvallaratriði að láta ekki umferðarrými og bílakúltúr ráði ferðinni, hvort sem er við hönnun skrifstofuhúsnæði eða verslunarsvæða.
 
Í þeim verkefnum sem ég taldi hér að framan er lögð mikil áhersla á að öll akandi umferð sé strax tekin niður og fólk þurfi hugsanlega að ganga. Með því teljum við okkur vera að ýta undir útivist og stuðla að bættu ástandi á þessari heilsu sem fer stöðugt versnandi. Það er okkar markmið að þróa mannlegt umhverfi, öfugt við það sem hefur verið að gerast í Reykjavík. Það er mjög bíla- og umferðarmiðað.”

Samkeppnistillaga um höfuðstöðvar Glitnis við Kirkjusand. Hæðir byggingarinnar óreglulegar og mynda þakgarða og svalir.

Flækjuferli minna í smærri sveitarfélögum
Freyr segist álíta að arkitektar og skipulagspælarar geti haft talsverð áhrif en í praxís nái menn auðvitað alltaf bara visst langt. “Úrslitavaldið í skipulagsmálum í Reykjavík er pólitíkin, en þótt til sé aðalskipulag og deiliskipulög, er því miður hvergi til langtímasýn Reykjavíkurborgar sem haldið hefur verið við. Að setja mislæg gatnamót hér og þar og ýta íbúabyggð upp til fjalla í Grafarholti er ekki það sem framtíðarstefna á að ganga út á, en þetta hefur verið þverpólitísk stefna hér í borginni seinustu árin.
 
Eitt af þeim verkefnum sem við erum að vinna að, er nýr miðbær í Garðabæ. Þessum miðbæ er ætlað að efla og styrkja innviði sveitarfélagsins. Við viljum vinna þannig verkefni og teljum okkur með því vera að gera eitthvað gott til framtíðar. Á margan hátt hefur reynst auðveldara að vinna verkefni í smærri sveitarfélögum, flækjuferlið er minna og þar ríkir meiri langtímastefna. Menn sjá meira til framtíðar oft á tíðum í minni bæjarfélögum en í Reykjavík.
 
Hvað varðar verkefnið í Garðabæ, þá hafa bæjaryfirvöld og einka-aðilar þar mjög sterka sýn á það að byggja upp heilan miðbæ. Þetta er verkefni sem við erum að byrja á. Það hefur aldrei verið sterkur miðbær í Garðabæ –. Menn sjá þarna tækifæri og vinna að því. Við búum til eitt stykki miðbæ þar sem er verslun og þjónusta á jarðhæð og síðan 120-140 íbúðir á efri hæðum og við nærliggjandi svæði. Þar verður líka miðbæjartorgi og bílastæði undir svæðinu. Við erum með nokkur svona 20-30 þúsund fermetra verkefni, íbúðarkjörnum með verslun og þjónustu, ásamt útivistarsvæðum samtvinnuðum inn í konseptið. Þetta ýtir allt undir allt sem manni finnst Reykjavík og Reykjavíkurborg hafa klikkað á. Menn hafa árum saman verið að tönnlast á þéttingu byggðar en ég sé ekki að byggðin hafi neins staðar verið þétt að neinu viti. Þétting byggðar byggist ekki bara á turnabyggð heldur líka á góðri nýtingu landssvæða.”

Skipulagstillaga að nýjum miðbæ í Garðabæ. Íbúða, verslunar og þjónstubyggð umhverfis nýtt miðbæjartorg.

Þróun og skipulagning
“Enn eitt verkefni sem við vinnum að er Kringlusvæðið. Þetta er mjög spennandi verkefni, þar sem við erum að stækka Kringluna til vesturs. Í kringum það er verið að þróa svæði þar sem verður hótel og skrifstofuhúsnæði. Markmiðið þar er að auka græn svæði, efla útivist og svo framvegis. Annað áhugavert verkefni er Laugardalsverkefnið sem er ennþá á teikniborðinu. Um að ræða neðanjarðarbyggingu í dalnum þar sem verður sjávardýrasafn-, vísindassafn, upplýsingasetur fyrir íslenska náttúru og þetta er allt samtengt garðinum með torgi þar sem verða kaffihús og veitingastaðir.
 
Við Suðurlandsbraut og Grensásveg, þar sem Orkuhúsið er, sjáum við fram á tækifæri til að byggja upp skrifstofugarða, eins og við köllum það. Það er þyrping af skrifstofubyggingum, samtengdum með neðanjarðarbílastæðum og görðumofan á þeim, þar sem stílað er inn á samnýtingu á bílastæðum, þjónustu, veitingastöðum – og yrði beintengt við Laugardalinn. Við erum með heildstæða mynd á þetta svæði. Þetta eru skipulagshugmyndir en svo yrði hver bygging hönnuð ein og sér. Hugmyndin er að þetta verði byggingar með karakter, hver á sinn hátt.

Samkeppni TRH (Tónlistar, Ráðstefnuhús og Hótel). Útskýringarmynd flæðis gangandi vegfarenda ásamt tenginum við nánasta umhverfi. THG Arkitektar voru í 2. Sæti í samkeppninni og fengu skipulagsverðlaunin 2006 fyrir tillögu sína.

Endurbót gæða
Hvað Engihjallan varðar, þá er hann enn eitt þróunar- og skipulagsverkefni. “Þar erum við að efla verslunar- og þjónustuhúsnæði á svæðinu og auka íbúabyggð – en þar komum við aftur að því að við erum að endurbæta umhverf fyrir bæði nýja og núverandi íbúa svæðisins. Þarna verður talsverð aukning á grænum svæðum, leikvöllum, sparkvöllum og útivistarsvæðum, auk þess sem við endurhugsum skjólmyndun. Í raun og veru er ekki bara verið að búa til verkefni inn á við í öllum þessum verkefnum, heldur byggir á þeirri sýn okkar að taka verði tillit til nánasta umhverfis og endurbæta gæði þess að búa við þessa nýju framkvæmd.”

Hugmynd að íbúðarbyggingu í miðbæ Garðabæ. Gert er ráð fyrir gæðaíbúðum með miklu útsýni til borgar, sjávar og fjalla

“Ástæðan fyrir því að við höfum sótt inn á þennan markað er sú að í Danmörku eru mikil tækifæri fyrir íslenskt fyrirtæki eins og þetta; fyrirtæki sem getur veitt þjónustu af því hugarfari sem Íslendingum einum er lagið, það er að segja, að gera hlutina vel og hratt og innan þess tíma sem er fyrirfram ákveðinn.”
 
Stofan í New York hefur nú þegar hannað tískuvöruverslun í Kaupmannahöfn og núna höfum við verið að vinna að þróunarverkefni fyrir hornið á Grensásvegi og Suðurlandsbraut. Þar hafa menn hug á að byggja skrifstofuumhverfi í tengslum við Laugardalinn – þar sem svokölluð “græn” hugmyndafræðin liggur að baki.
 
Þetta ýtir allt undir allt sem manni finnst Reykjavík og Reykjavíkurborg hafa klikkað á. Menn hafa árum saman verið að tönnlast á þéttingu byggðar en ég sé ekki að byggðin hafi neins staðar verið þétt að neinu viti.

Samvinnuverkefni Gjörningaklúbbsins og Thg Arkitekta. Innsetning þar sem Thg hannaði umgjörð listaverka Gjörningaklúbbsins - ILC

THG Arkitektar hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir hönnun sína í gegnum tíðana, meað annars tilnefningu til Byggingalistaverðlaun Íslands 2007 fyrir innsetningu í Listasafni Reykjavíkur að sýningu fyrir Gjörningaklúbbinn, Skipulagsverðlaun Íslands 2006 fyrir tillögu að skipulagi fyrir TRH samkeppnina og aldamótaárið 2000 var Kringlan valin sem best hannaða verslunarmiðstöð í Evrópu.

THG ARKITEKTAR
Faxafen 9 108 Reykjavík
simi: 545-1600
thg@thg.is  www.thg.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga