Greinasafni: Sveitarfélög einnig undir: Skipulag
Fiskiþorpið sem varð að besta bænum
Sandgerðisbær hefur breytt um svip svo um munar. Þar dafna nú listir og fræði, fjölbreytni í atvinnu hefur aukist og mannlífið blómstrar

Samkvæmt könnun Vísbendingar er best að búa í Sandgerði ef menn ætla að setjast að á Suðurnesjum. Vísbending leggur upp með fimm punkta yfir hvar er best að búa í mati sínu og samkvæmt nýjustu könnun er Sandgerðisbær með flesta punkta af sveitarfélögum á Suðurnesjum og hefur flogið upp heildarlistann, er í þrettánda sæti yfir allt landið. Mælikvarðarnir fimm lúta að skuldum, íbúafjöldabreytingum, veltufjárhlutfalli, afkomu og skattheimtu.

mynd:Sigurður Valur Ásbjarnarson

Bæjarstjórinn, Sigurður Valur Ásbjarnarson, er að vonum ánægður með þessa niðurstöðu, ekki síst í ljósi þess að það eru ekki svo mörg ár síðan Sandgerði missti nánast allan sinn kvóta og fáir áttu von á að þessu sveitarfélagi við ystu höf tækist nokkurn tímann að jafna sig eftir skellinn. Annað hefur komið á daginn. Á seinustu árum hefur íbúum fjölgað jafnt og þétt og er óhætt að segja að þarna sé .að verða til áhugavert og fjölskrúðugt samfélag.

Lágt útsvar, lág þjónustugjöld
„Einn af þeim þáttum sem bæjarfélagið státar af er að vera með lágt útsvar,“ segir Sigurður Valur. „Öll þjónustugjöld eru lág. Bæjarfélagið niðurgreiðir máltíðir til leikskóla- og grunnskólabarna og veitt er þjónustu til barna með sterkum hætti. Meðal annars er bæjarfélaigð með hvatningastyrki hvað varðar tónlistar- og íþróttalíf, þannig að hvert barn fær fimmtán þúsund krónur á ári til að greiða niður sín gjöld og má það skipta þeirri upphæð niður á þrjá staði. Með þessu móti er verið að koma verulega til móts við m.a. ungt fólk og fjölskyldur í bæjarfélaginu sem hér búa.

Það má líka nefna að gatnagerðargjöld eru með því lægsta á Suðurnesjum, eða um ein milljón á íbúð. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að mikil ásókn er í lóðir hjá bæjarfélaginu og er nú verið að fara af stað með nýtt byggingahverfi fyrir sunnan íþróttasvæði bæjarfélagsins. Bæjarfélagið vill koma verulega til móts við sína íbúa enda eru íbúasamsetningin að breytast, hingað koma nýir íbúar frá landsbygðinni og frá öðrum sveitarfélögum á Reykjanesi og Reykjavík. Nálægði við fengsæl fiskimið, Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem er stærsti vinnustaður á landi bæjarfélagsins og nálægðin við þjónustu á Stór- Reykjavíkursvæðinu hefur áhrif.
 
Bæjarfélagið gerir mjög vel við eldri bæjarbúa. Byggðar voru átján íbúðir fyrir eldri borgara – með þjónustukjarna. Þar er boðið upp á mat fyrir eldri bæjarbúa, auk þess sem þar er rekinn dagvistun, fólk kemur þar saman við föndur, leik og störf. Fasteignaskattur er felldur niður við sjötugs aldur og bæjarfélagið stóð fyrir átaki í að láta alla eldri bæjarbúa hafa öryggishnapp – sem hefur svo sannarlega sannað gildi sitt. „Yfirstjórn bæjarfélagsins telur sig vera að gera vel við íbúana.“

Milljón fyrir einbýlishúsalóð
„Vegna mikilla breytinga í sjávarútvegi og vegna þess að megnið af kvótanum fór frá bænum á árunum 2000 til 2004, er íbúasamsetningin mikið að breytast. Við erum að fá mikið af fólki sem er að vinna við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fólk sem vinnur á höfuðborgarsvæðinu.“
 
Þegar Sigurður Valur er spurður hvers vegna fólk sem vinnur á höfuðborgarsvæðinu sé að setjast að í Sandgerði, segir hann að lóða- og fasteignaverð ráði þar miklu um sem og lág þjónustugjöld. „Lóðargjöld hjá okkur fyrir einbýlishúsalóð er um ein milljón. Auðvitað má fólk alveg borga okkur sautján milljónir eins og það myndi borga fyrir sambærilega lóð í Reykjavík – en þá látum við líka tvo Hummerjeppa standa á lóðinni þegar það tekur við henni. Fólk er ekki að borga fyrir lóðirnar, þetta eru leigulóðir og bæjarfélagið er að ná tekjum sínum til baka á löngum tíma.“
 
Í Sandgerði búa um 1.750 manns og hefur íbúafjöldinn aukist um sjö til tíu prósent síðustu þrjú árin. „Bæjarfélagið hefur verið að úthluta nýjum lóðum m.a. í Lækjamótum og Hólahverfinu,“ segir Sigurður Valur. „Þetta eru nánast eingöngu einbýlis- og parhús. Við erum lítið með fjölbýlishús vegna þess að landrýmið er mikið og flest af því fólki sem kemur til okkar er ungt fólk sem er að leita sér að meira rými en það á kost á annars staðar. Þó eru undantekningar frá þessu, til dæmis hér í Vörðunni sem er ráðhús bæjarfélagsins. Þar á þriðju hæð eru Búmannaíbúðir, í Miðhúsum eru átjáníbúðir og síðan eru tvö önnur fjölbýlishús upp á tvær hæðir.“

Stjórnsýsluhúsið í Sandgerði er glæsileg bygging.

Enn öflugra íþróttalíf
Næst á dagskrá hjá Sandgerðisbæ segir Sigurður Valur er úthlutun á lóðum í nýju hverfi fyrir sunnan íþróttasvæðið. „Þar verða sextíu einbýlishús upp á tvær hæðir, tuttugu og fjögur keðjuhús á einni hæð, fjölbýli upp á tvær hæðir og fimmtíu íbúðir og einbýli á einni hæð., Bæjarfélagið hefur verið síðustu árin með biðlista eftir lóðum, en ekki er búið að setja svæðið í úthlutun. Það er hins vegar komið að því; næst á dagskrá er kynning á svæðinu.
 
Auk þessa er verið að skipuleggja íþróttasvæðið og nágreni þess. Þar verða m.a. níu fjórbýlishús ætlað ungu fólk.“ Íþróttalífið hefur lengi verið mjög öflugt í Sandgerði – en staðan í dag er þannig að íþróttahúsið við grunnskólann er full nýtt. Því var tekin ákvörðun af bæjarstjórn um að byggja fjölnotahús.„Með því er verið að losa um tíma sem þessir hópar notuðu í gamla íþróttahúsinu og gera þannig öðrum íbúum bæjarins mögulegt að stunda íþróttir í því húsnæði.
 
Ætlunin er að fara með alla knattspyrnuiðkun yfir í nýja húsið. Gönguhópar og golfmenn fá líka aðstöðu í húsinu, þannig að þetta verður mikil bylting. Á sama tíma er verið að stækka sundlaugina upp í 25 metra sundlaug, setja upp nýjan þreksal með nýjum tækjum en bæjarfélagið hefur staðið fyrir heilsueflingu – bæði með skólanemendum og nú er að hefjast heilsuátak með starfsmönnum bæjarfélagsins.
 
Knattspyrnufélagið Reynir hefur verið í fyrstu deild, en féll niður í aðra deild en strákarnir eiga örugglega eftir að komast upp aftur þegar þeir fá þessa fínu aðstöðu. Við erum líka með gott körfuboltalið og mikill áhugi á körfunni hér – en við þurfum að skapa meiri möguleika á framþróun körfuboltans með því að færa knattspyrnuna úr húsinu.“
 
Sunddeild Reynis fær nú góða aðstöðu til sundiðkunar með nýrri 25 m laug.
 
Lykill að lífsgæðum
„Við sundlaugina og íþróttamiðstöðina er verið að byrja á stækkun á grunnskólanum vegna mikillar fjölgunar nemenda. Á fyrstu hæð hússins er gert ráð fyrir 1070 fermetrum og 956 á annarri hæð, samtals verða þetta 2026 fermetrar. Í þessum hluta verða salur, eldhús og stjórnunarrými fyrir kennara, ásamt kennslustofum.
 
Tónlistarskólinn er rekinn í sama húsnæði og grunnskólinn og fær hann með stækkun aukið rými. Mikið samstarf er á milli leikskólans, grunnskólans og tónlistarskólans. Verið er að auka fjölbreytnina í tónlistarskólanum og þar er heildar nemendafjöldi um hundrað og fimmtíu.
 
Jafnframt erum við að stækka leikskólann um eina deild. Framkvæmdir eru þegar hafnar og verið er að teikn nýjan leikskóla á öðru byggingarsvæði og er þar gert ráð fyrir fjórum leiskóladeildum. Þetta er gert til að mæta fjölgun íbúa miðað við þá þróun sem við sjáum fyrir.
 
Það var ekki gæfulegt útlitið þegar Sandgerðisbær hóf átakið „Lykill að lífsgæðum – Sandgerðisbær innan seilingar“ fyrir nokkrum árum – þegar kvótinn hvarf frá bæjarfélaginu. Vel hefur hinsvegar tekist til og hefur íbúum að jafnaði fjölgað um hundrað á ári frá því að átakið hófst. Núna búa 1750 manns og stefnir í að sú tala verði komin í 1800 um áramótin, en gert er ráð fyrir 3.8 prósenta fjölgun árlega næstu árin. Þegar Sigurður Valur er spurður hvernig Sandgerðisbær hafi farið að þessu eftir hið mikla áfall sem kvótamissirin var, segir hann: „Þegar við misstum meginhlutann af okkar kvóta var aldrei talað um að ríkið þyrfti að bæta okkur það upp. Við fórum úr 11.000 tonnum niður í 400 tonn. Fyrirtæki í fiskiðnaði hurfu annað. Síðan óx kvótinn úr því að vera 400 tonn upp í 1800 tonn – en núna misstum við 30% af því eins og aðrir. En tapið sem bæjarfélagið varð fyrir er miklu meira þar sem við rekum þjónustuhöfn, til dæmis fyrir Sv. Garð – þaðan sem rekin er mikil útgerð og þeir missa nú eins og aðrir 30%. Niðurskurður á tekjum hafnarinnar var umtalsverður og verður nú aftur mikill mun meiri en 30 prósent af átján hundruð tonnum gefa til kynna.“ 
 
Staðsetningin á bæjarfélaginu hér á Suðurnesjum, mikil atvinnuuppbygging á flugstöðvarsvæðinu, miklar framkvæmdir almennt á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu og þar með góðar tekjur bæjarfélagins komu í veg fyrir atvinnuleysi og skerðingu í þjónustu við íbúa Sandgerðisbæjar.
 
Uppbygging atvinnusvæða
„Í framhaldi af átakinu „Sandgerðisbær innan Seilingar“ hefur íbúum bæjarfélagsins fjölgað. Núna er verið að ráðast í átak í uppbyggingu atvinnumála innan bæjar. Bæjarstjórn horfir á sjávartengda starfsemi sem og flugtengda starfsemi.Deiliskipulag fyrir flugsækna starfsemi er að verða að veruleika en sú vinna er unnin af Kanon arkitektum og VSÓ ráðgjöf og var frumathugun á svæðinu gerð 9. október 2007. Á sama tíma erum við að byggja upp atvinnusvæði fyrir minni sjávartengd fyrirtæki og minni iðnað. Þetta er á þremur svæðum en þar er um að ræða átta lausar lóðir. Hver lóð er með þremur byggingarréttum, það er að segja, það má byggja þrjár einingar á hverri lóð. Mikil áhersla er lögð á útlit húsanna sem standa á sjávarlóðum og koma til með að svipa til bryggjuhverfa í t.d.Kópavogi þar sem er atvinnustarfsemi er niðri og íbúðir uppi. Síðan er það suðursvæðið – sem við köllum. Þar eru fjórtán lóðir lausar til umsóknar en þær eru fyrir smáiðnað.
 
Með þessu skapast tækifæri fyrir þá sem eru í rekstri – til dæmis í sjávarútvegi á höfuðborgarsvæðinu að flytja hingað, fá ódýrari lóðir, með lægri gatnagerðargjöld og lægri sköttum og þjónustugjöldum en er á höfuðborgarsvæðinu. Það er tvímælalaust gott fyrir fyrirtæki og hagstætt að koma hingað. Fyrir þá sem eru í þjónustugeiranum og þurfa á lagerhúsnæði eða geymsluhúsnæði að halda, þá er þetta líka ákjósanlegur staður því kostnaður per þjónustueiningu er mun lægri en á höfuðborgarsvæðinu.“

 
Listasetur og Fræðasetur
Í Sandgerði er líka vel hlúð að listamönnum sem þar búa. Þar er rekið Listatorg er stofnað var að frumkvæði Sandgerðisbæjar. „Hugmyndin kemur frá atvinnumálaráði,“ segir Sigurður Valur. „Í bænum voru fyrir tvenn samtök, Ný Vídd en þar starfa saman listakonur í leir og málun og Gallerí Grýti, sem var rekið af einstaklingum sem framleiða skartgripi og fleira úr gleri og steinum. Listatorg er síðan stofnað í nóvember síðastliðnum og eru samtök allra þeirra sem unna menningu og listum. Sandgerðisbær leigir húsnæði á Vitatorgi 11 sem Listatorg hefur til umráða. Listatorg sér um rekstur húsnæðisins, en Ný vídd og Gallerý Grýti hafa gengið til samstarfs við Listatorg. Þar eru núna daglega opin gallerí og sýningarsalur sem einnig er notaður fyrir ýmsar uppákomur, eins og minni tónleika, svo sem einleiks- og kammertónleika. Sandgerðisbær er mjög ákjósanlegt bæjarfélag fyrir listamenn. Bærinn býður upp á ýmsa styrki til listsköpunar, menningarstarfsemi og til atvinnu- og umhverfiseflingar.
 
Enn einn þáttur sem veldur sérstöðu bæjarfélagsins fyrir utan flugstöðina segir Sigurður Valur vera Fræðasetrið. „Innan vébanda þess eru starfandi Náttúrustofa Reykjaness, Háskólasetur Suðurnesja, rannsóknarstöðin BIOICE og sýningin Heimskautin heilla. Á staðnum er gistiaðstaða fyrir vísindamenn og þá sem stunda rannsóknir á staðnum. Að jafnaði eru um fjörutíu manns á ári á staðnum tímabundið og í ár verður ráðist í stækkun á húsnæðinu með rannsóknaraðstöðu fyrir sjávarlíffræði og fiskeldi.“

---

ENDURSKOÐUN AÐALSKIPULAG SANDGERÐISBÆJAR.
 
Hinar umfangsmiklu breytingar sem átt hafa sér stað í Sandgerðisbæ á umliðnum árum og þær breytingar á landnotkun og uppbyggingu sem fyrirhugaðar eru kalla á endurskoðun Aðalskipulags Sandgerðisbæjar.
 
Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar. Því er ætlað að vera sveitarstjórnarmönnum, embættismönnum og íbúum stjórntæki og gefa þeim og hagsmunaaðilum yfirsýn yfir stefnu um landnotkun til næstu framtíðar.
 
Aðalskipulaginu er ætlað að stuðla að hagkvæmri og skynsamlegri nýtingu lands og leggja mat á helstu áhrif skipulags á umhverfi og samfélag.
 
Sandgerðisbær hefur hafið vinnu við heildarendurskoðun aðalskipulags síns og ráðið Kanon arkitekta og VSÓ ráðgjöf til skipulagsvinnunnar.
 
Forsendur endurskoðunarinnar eru m.a.núgildandi aðalskipulag með áorðnum breytingum, breyting á aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar þar sem fyrrum varnarsvæði er tekið í borgaraleg not, ásamt aðalskipulagsendurskoðun nágrannasveitarfélaganna og fyrirliggjandi áherslum frá íbúaþingum og framtíðarsýn bæjarins.
 
Nú er unnið að fyrstu áfangaskýrslu þar sem fjallað er um meginforsendur, framtíðarsýn og stefnumið. Stefnt er að kynningu og samráði um þann áfanga nú á vormánuðum þar sem leitað verður álits bæjarbúa.
 
Verkefnislýsingu aðalskipulagvinnunar má nálgast í heild sinni á heimasíðu Sandgerðisbæjar: www.sandgerdi.is.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga