Þjónustuíbúðir með heilsusetri
  stillsBaekl_front_Main.7 NEW.jpg

Nýsir hefur reist þjónustuíbúðir fyrir 60 ára og eldri í Mörkinni, þar sem hugað er að flestum þeim þáttum sem eldra fólk telur mikilvæga

Í Mörkinni í Reykjavík hafa risið þrjú glæsileg fjölbýlishús sem verða í framtíðinni þjónustuíbúðir fyrir sextíu ára og eldri. Húsin standa við Suðurlandsbraut 58-62 og það er Nýsir sem hefur reist húsin og kemur til með að reka þau. Á næstu vikum hefst síðan vinna við hús að Suðurlandsbraut 64, þar sem áætlað er að byggja 45 þjónustuíbúðir ásamt þjónustumiðstöð.

Þegar þau Haraldur L. Haraldsson og Helga Elísa Þorkelsdóttir hjá Nýsi er spurð hvers vegna þjónustuíbúðunum hafi verið valinn þessi staður, segja þau að það hafi verið eldri borgarar sem fóru af stað með verkefnið, „þetta var talinn einn af fáum stöðum á þessu svæði sem kom til greina til að byggja þjónustuíbúðir“ segja þau Haraldur og Helga. „Enda verðum við vör við það að fólk sem á heima í nálægum hverfum, hefur mikinn áhuga á íbúðunum. Það er jú mjög algengt að fólk vilji vera áfram í því hverfi sem það hefur lifað og hrærst í um áraraðir, jafnvel áratugi. Svo eru þessar þjónustuíbúðir ákaflega miðsvæðis, samgöngur eru mjög góðar og greiðar í allar áttir, hvort sem þú ætlar út úr borginni eða hreyfa þig innan hennar. Margir eru orðnir þreyttir á endurbótum á húsum sínum en þarna fá þeir nýjar íbúðir þar sem þeir eiga aldrei eftir að þurfa að hafa áhyggjur af neinu sem viðkemur viðhaldi á húsinu og sameigninni. Í þessu hverfi er líka stór og öflugur verslunarkjarni, þannig að það er býsna margt sem gerir þessar íbúðir eftirsóknarverðar.“

Suðursvalir og skjólgóðir garðar
„Húsin og þjónustumiðstöðin, sem er að fara í byggingu, eru hugsuð sem ein heild og það verður innangengt frá húsunum yfir í þjónustumiðstöðina. Sjálfar eru íbúðirnar mjög skemmtilegar og skilast fullbúnar, með gólfefnum, hluta heimilistækja, þ.e. ofni, viftu og helluborði – fallegum eikarinnréttingum frá HTH, eikarparketi og eikarhurðum. Það hefur verið lögð áhersla á að allt útlit íbúðanna sé mjög fallegt og smekklegt. Íbúðirnar snúa móti suðri og eru með útsýni yfir skjólgóða garða með göngustígum sem tengjast göngustígum borgarinnar.

Á flestum íbúðunum eru stórar og góðar suðursvalir en nokkrar íbúðir eru með svalir sem snúa í austur. Þeim er hægt að loka, svo hægt er að njóta svalanna allan ársins hring. Glerin í gluggum íbúðanna eru sérstaklega hljóðeinangrandi og er hljóðeinangrunin mest í húsi nr. 62 sem er næst Miklubrautinni, en einnig á efri hæðum hússins númer 60. Einnig er gert ráð fyrir loftrist með hljóðgildru í þeim íbúðum sem verða fyrir mestri hljóðmengun frá Miklubrautinni og er þetta gert til þess að fólk þurfi ekki að opna gluggann til að lofta um íbúðin.

Aðgengi og aðstaða góð
Haraldur og Helga segja meiri lofthæð en gengur og gerist í þessum íbúðum og sérstaklega mikið lagt upp úr hljóðeinangrun, til dæmis með filterum og hljóðdúkum undir parketi. „Íbúðirnar eru sérstaklega hugsaðar þannig að fatlaðir geti farið um þær og hjólastólaaðgengi er sérlega gott. Í hveri íbúð er að sjálfsögðu mynddyrasími.“

Hvað þvottaaðstöðu varðar, þá er gert ráð fyrir tengingu þvottavélar og þurrkara á baðherberginu í flestum íbúðunum – en í stærstu íbúðunum við Suðurlandsbraut 60 er sérþvottahús í íbúðinni. Einnig eru sameiginleg þvottahús á hverri hæð, þannig að sex til sjö íbúðir deila þeirri aðstöðu. Íbúðirnar eru misstórar, frá tveggja upp í fjögurra herbergja. „Hver og einn ætti því að geta fundið íbúð sem hentar honum. Það eru níu gerðir af íbúðum, frá 80 fermetrum, upp í 138 fermetra – og fljótlega bætist þjónustumiðstöðin við, en í þeirri byggingu verða einnig íbúðir. „Á neðstu hæðinni verður þjónustumiðstöðin sjálf,“ segir Helga.

Þjónustumiðstöðin
„Þjónustumiðstöðin hefur hlotið heitið Heilsusetrið. Þangað kemur fólk sem sækist eftir góðri og heilbrigðri hreyfingu, skemmtun, virku félagsstarfi, aðhlynningu, þjálfun, góðum og hollum mat og ekki síst til að láta dekra svolítið við sig. Hægt er að skipta þjónustumiðstöðinni upp í sex þætti; heilsulind, líkamsrækt, félagsstarf, veitinga-og kaffihús, snyrti- og hársnyrtistofa og að lokum þjónusta í húsunum sjálfum. Í heilsulindinni verður meðal annars gert ráð fyrir sundlaug, sauna og gufu ásamt því að fólk getur fengið ýmsar líkamsmeðferðir og nudd. Í líkamsræktinni verður til dæmis boðið upp á sjúkraþjálfun, fit-pilates, einkaþjálfun og kennslu í tækjasal, yoga, boccia, , golf/púttkennsla, dans, vatnsleikfimi og skipulagðar gönguferðir. Íbúum við Suðurlandsbraut 58-64 mun standa til boða margs konar þjónusta svo sem aðstoð við að koma þvotti í hreinsun, aðstoð við minniháttar viðhald í íbúðum, aðstoð við þrif á íbúðum, aðgangur að veislusölum og þeir sem þurfa á heimahjúkrun að halda, munu frá hana. Þjónustan er fjölbreytt og ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi.“

Séð um allt viðhald
Sem fyrr segir mun Nýsir annast rekstur húsanna. „Við sjáum um allt viðhald og rekstur sem við kemur húsunum, lóð, og sameignum. Fólk mun ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur af þessu. Í hverri íbúð eru öryggishnappar með sólahringsvöktun. Hverri íbúð fylgir eitt stæði í bílakjallara og innangengt er úr honum inn í húsin, bæði með lyftu og stigagangi.

„Inngangur í íbúðirnar er frá svölum sem þó eru að mestu lokaðar með gleri, en þó þannig að íbúar eru alltaf með gott loft á svölunum og geta opnað glugga sem snúa að þeim. Á milli húsanna eru garðar fyrir íbúana. Á veturna munum við sjá um að moka alla stígana, sem og bílastæðin framan við húsin, en þar eru gestastæði.“

Skuldbinding um endurgreiðslu
En hvað þýðir að Nýsir eigi íbúðirnar og reki þær? Jú, það þýðir að fólk kaupir sér búseturétt. „Fólk borgar fyrir íbúðina, býr svo í henni eins lengi og það vill og skilar henni aftur inn þegar því sjálfu hentar, eða við andlát viðkomandi. Íbúðarverðið er þá framreiknað miðað við ákveðnar forsendur og upphæðin endurgreidd. Fólk er ekki að borga ákveðna upphæð á mánuði inn á eignarhlut eða leigu, heldur er aðeins ein greiðsla strax í upphafi. Það eina sem þarf að borga í hverjum mánuði er hússjóður,“ segir Helga og bætir við: „Einn kosturinn við þetta er sá að það er sama hvernig markaðurinn verður, þá verðum við að endurgreiða íbúðina ef fólk segir henni upp eða fellur frá. Við skuldbindum okkur til þess.“

Þeir sem vilja nálgast meiri upplýsingar um íbúðirnar og skoða tilbúnar sýningaríbúðir er bent á að hafa samband við Eignamiðlun í síma 588-9090.

Haraldur og Helga.jpg
Helga Elísa Þorkelsdóttir verkefnastjór hjá Nýsi og 
Haraldur L. Haraldsson framkvæmdastjóri Markarinnar.
Mynd Ingó.

RR0Z0646.jpg

„Þjónustumiðstöðin hefur hlotið heitið Heilsusetrið. Þangað kemur fólk sem sækist eftir góðri og heilbrigðri hreyfingu, skemmtun, virku félagsstarfi, aðhlynningu, þjálfun, góðum og hollum mat og ekki síst til að láta dekra svolítið við sig.

SBR_0008.jpg RR0Z0645.jpg RR0Z0654.jpg RR0Z0661.jpg

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga