Sveitarfélag með vaxtarverki - Árborg

Óvíða hefur fjölgun íbúa verið eins hröð og í sveitarfélaginu Árborg – enda sveitin fögur og fjölbreyttir búsetumöguleikar í boði

Sveitarfélagið Árborg hefur vaxið æði hratt síðustu árin. Í desember 2002 töldust íbúar 6.161, um síðustu áramóti voru þeir 7.597 og sigla núna hratt í átta þúsund. Fjölgunin hefur því verið fjögur til sex prósent á ári síðasliðin fimm til sex ár, enda segir bæjarstjóri sveitarfélagsins Árborgar, Ragnheiður Hergeirsdóttir, sveitarfélagið um þessar mundir glíma við vaxtaverki.

ingo_ragnheidur_hergeirsd_2006.eps

Sveitarfélagið Árborg er ekki nema tíu ára sem slíkt, eða frá því fjögur sveitarfélög sameinuðust, það er að segja, Selfoss, Sandvíkurhreppur (sem er sveitin milli Selfoss og þorpann þar sem nú rís Tjarnabyggð), Eyrarbakki og Stokkseyri. Og nú er þessi byggð að þéttast, einkum eftir að settar voru á aðalskipulag árið 2005 það sem kallast búgarðabyggðir, bæði í Tjarnabyggð og í Byggðarhorni, rétt utan við Selfoss.

Ragnheiður segir bæjarstjórnina nú vinna að breytingum á þessu aðalskipulagi frá 2005, meðal annars vegna þess að fleiri íbúða- og atvinnulóðir vanti á Selfossi. Nú þegar eru fjögur hverfi í byggingu eða að fara í byggingu í bænum – en eru öll í einkaeign. Auk þess er í undirbúningi bygging fjölda íbúða í miðbæ Selfoss. „Það eru mjög margar íbúðir á ýmsum byggingastigum hér á Selfossi,“ segir Ragnheiður. „Hins vegar teljum við að sveitarfélagið sjálft þurfi alltaf að eiga næsta hverfi skipulagt. Svo er alltaf spurning um hvenær verður farið í framkvæmdir við að gera hverfi byggingarhæft, það veltur á eftirspurninni.“

Fyrirtaks þjónusta við alla aldurshópa
„Sveitarfélagið á mjög skemmtilegt land undir íbúðabyggð suðvestan við bæinn og síðan erum við að skipuleggja atvinnulóðir niður með Eyravegi og Eyrarbakkavegi. Þar verður væntanlega næsta nýja svæðið undir iðnaðar- og atvinnulóðir.“

Það er nokkuð ljóst að sveitarfélagið Árborg hefur dafnað nokkuð hraðar en flest önnur sveitarfélög á landinu. Þegar Ragnheiður er spurð hvaða skýringu hún hafi á því, segir hún: „Ég held að það séu nokkrir samverkandi þættir, til dæmis aukinn áhugi fólks á höfuðborgarsvæðinu á því að búa í minna samfélagi og hátt fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu. Hér áttu möguleika á einbýli fyrir sama verð og litla íbúð í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu. Hér hefurðu gott umhverfi fyrir börnin, góða þjónustu og fjölbreytt tómstundatilboð. Einnig erum við með góða þjónustu við eldri borgara og við verðum vör við að eldra fólk flytur hingað þess vegna. Hér er heilbrigðisstofnun með gott sjúkrahús og heilsugæslu, öflugur fjölbrautaskóli og hér getur fólk stundað fjarnám á háskólastigi. Það eru mjög öflug fyrirtæki hérna, stutt út í náttúruna og fjölbreyttir búsetukostir. Hér er bara allt til alls og það dregur fólk að.“

Hestar, hænsni eða kálgarður
„Þú getur búið á Selfossi þar sem er kjarni þjónustu og verslunar. Svo eru það þorpin við sjóinn, Stokkseyri og Eyrarbakki, sem bæði hafa ákveðna sérstöðu. Á Eyrarbakka er sagan ríkur þáttur í þorpsmenningunni og þar hafa , til dæmis, mörg gömul og falleg hús verið gerð upp og setja svip á þorpið. Á Stokkseyri hefur á seinustu árum byggst upp einstök menningartengd ferðaþjónusta, auk þess sem aðstaða listamanna hefur verið byggð upp. Svo er búgarðabyggðin í Tjarnabyggðinni og Byggðarhorni þar sem þú getur búið í sveit án þess að vera með heila jörð. Ég held að það heilli marga. Þú mátt vera með hesta, eða kálgarð eða hænsni, hefur miklu meira frelsi en í þéttbýlinu. Og þú ert í rauninni ekki farin út á land. Þú ert í mikilli nálægð við höfuðborgina.“

Hvað skóla varðar, segir Ragnheiður Árborg vera með góða grunnskóla og leikskóla. „Við miðum við tveggja ára aldur á leikskólanum – en okkur hefur tekist það vel að byggja upp þrátt fyrir mikla íbúafjölgun, að við erum að taka inn 18 mánaða og munum gera það þegar hægt er. Síðan erum við að byggja nýjan grunnskóla á Stokkseyri og í framhaldi á Eyrarbakka, þannig að við ætlum að hafa skóla í þorpunum.

Víða taka menn þann pól að skipuleggja skólauppbyggingu fyrst og fremst út frá hagkvæmnishugsun en við erum að leggja áherslu á að samfélögin fái að njóta þess að hafa skólana hjá sér vegna þess að þeir eru svo ríkur þáttur í því hvernig samfélagið þróast. Það þarf að horfa á fleira en krónurnar hér og nú. Það er svo margt fleira sem skiptir máli. Ég trúi því að þessi ákvörðun verði til þess að þorpin styrkist enn frekar. Það hefur ekki fjölgað eins hratt þar og á Selfossi – en það hefur heldur ekki fækkað þar eins og í svo mörgum þorpum landsins.“

Útivistarsvæði í fjörum og fjöllum
„Við erum með ákaflega falleg útivistarsvæði hér, meðfram Ölfusánni. Norðan megin við hana erum við með Hellisskóg sem er skógrækt og útivistarsvæði með göngustígum. Þar er sveitarfélagið í samstarfi við Skógræktarfélag Selfoss um hirðu og uppbyggingu svæðisins. Svo eigum við á Selfossi, við hliðina á íþróttavellinum, mjög skemmtilegt útivistarsvæði, oft nefnt Gesthúsasvæði, sem er bæði tjaldstæði og opið útivistarsvæði, skógrækt og göngustígar. Þar verður ekki byggt, heldur hlúð að því sem útivistarsvæði.

Svo er fjaran á Eyrarbakka og Stokkseyri mjög falleg. Fólk sækir mikið þangað. Við erum að kaupa meira af landinu milli Stokkseyrar og Eyrarbakka þar sem við hugsum okkur frekara útivistarsvæði í framtíðinni, erum meðal annars í viðræðum við Golfklúbbinn hér um mögulega nýtingu á því.

En hvaða fólk er það sem flytur í Árborg? Ragnheiður segir að það sé öll breiddin, „fólk á öllum aldri. Það hefur orðið mikil fjölgun á leik- og grunnskólabörnum sem og eldra fólki. Þetta dreifist nokkuð jafnt á alla aldurshópa. Það er mjög skemmtilegt að við skulum geta boðið upp á kosti fyrir alla aldurshópa, enda hefur störfum hér fjölgað í kjölfarið.

Sveitarfélagið var til dæmis að taka í notkun nýtt íþróttahús við Sunnulækjarskóla á Selfossi og ný skólavistun er að taka til starfa við þann skóla. Þar kemur nýtt fólk inn. Við opnuðum nýjan leikskóla fyrir rúmu ári síðan og þar kom nýtt fólk til starfa svo dæmi séu tekin. Íbúafjölgun fylgir aukin þjónusta hjá sveitarfélaginu og þar með fjölgar starfsfólkinu okkar smám saman á flestum sviðum. Störfum almennt hér í Árborg fjölgar samhliða fjölgun íbúa – fyrirtæki og stofnanir sem fyrir eru, eru að auka þjónustu sína og það eru líka að koma hingað ný fyrirtæki og stofnanir. En hér er líka fjöldi fólks sem sækir vinnu annað og margt af því fólki myndi gjarnan vilja vinna hér. Ég vil sjá hér fleiri sérhæfð störf, til dæmis störf fyrir háskólamenntað fólk og meiri fjölbreytni í almennum störfum.“

Spennandi tímar
„Þótt við teljumst með stærri sveitarfélögum á Íslandi erum við ennþá ekki nema tæplega átta þúsund. Það eru alls konar vaxtaverkir sem fylgja svona hraðri uppbyggingu, þótt í því felist líka fjölmörg stórkostleg tækifæri og áskoranir. Svo kemur ekki allt í einu, heldur leiðir eitt af öðru. Fyrst kemur fólkið og í kjölfarið fjölgar störfum og þau verða fjölbreyttari. Þjónusta sveitarfélagsins skiptir miklu máli og við höfum mikinn metnað í þeim efnum. Hér er gríðarlega mikill félagsauður og við þurfum að bera gæfu til þess að nýta hann sem allra best. Það gerum við jákvæðri nálgun á verkefnin okkar og uppbyggilegri umræðu um það sem fram undan er. Eftir því sem við verðum fleiri, þess betur verðum við í stakk búin að bjóða upp á fjölbreytni í þjónustu. Við erum nú þegar komin með strætó til að tengja Stokkseyri, Eyrarbakka og Selfoss. Næst á dagskrá í samgöngumálum verður að koma á ferðum innanbæjar á Selfossi. Þetta eru mjög spennandi tímar og það er áhugavert að sjá hvernig áhrif þessi hraða uppbygging kemur til með að hafa á samfélagsgerðina hér.

Við erum í gríðarmiklum fjárfestingum og framkvæmdum á hverju ári. Allt eru þetta verkefni til að taka á móti fleiri íbúum og bæta aðstöðu þeirra sem fyrir eru, til dæmis með því að byggja leikskóla og grunnskóla, og til að gera sveitarfélagið eftirsóknarverðara með því að byggja upp íþróttamannvirki. Það var hér í alltof langan tíma ákveðin stöðnun varðandi þann þátt – og íþróttamannvirkin okkar voru úr sér gengin. Síðustu árin höfum við smám saman verið að byggja þau upp m.a. með nýjum upphituðum gervigrasvelli, fjórum battavöllum og nýju íþróttahúsi. Framundan eru stór verkefni, eins og endurbygging og endurnýjun á Sundhöll Selfoss sem verður byrjað á á þessu ári, einnig uppbygging á íþróttavallasvæðinu þar sem bæði þarf að byggja upp aðalleikvang fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Verðum með landsmót UMFÍ árið 2012 og þá verður þetta allt að vera klárt. Svo þarf að koma hér upp fjölnota íþróttahúsi á næstu árum. Við erum að tala um fjárfestingar sveitarfélagsins í íþróttamannvirkjum upp á ríflega einn milljarð. Árborg ætlar innan fárra ára að vera komin í hóp sveitarfélaga sem eru í fremstu röð á þessu sviði.“

Blómlegt menningarlíf
Tónlistarlíf mjög öflugt í Árborg. Þar er rekinn Tónlistarskóla Árnesinga sem er rekin af héraðsnefnd Árnesinga. Aðalaðsetur skólans er á Selfossi, auk þess sem útibú eru víða í sýslunni. Tónlistarskólinn er með stærstu tónlistarskólum landsins og þar er kennt á öll almenn hljóðfæri. „Tónlistarlífið er mjög blómlegt og margir góðir tónlistarmenn sem hafa vaxið hér upp og gengið í þennan skóla,“ segir Ragnheiður. „Það má alveg segja að sé ein af rósunum í vendinum okkar. Hér eru líka margir kórar starfandi, menningarlífið blómstrar almennt mjög vel hér. Leikfélagið okkar á 50 ára starfsafmæli á þessu ári og við erum mjög stolt af þeirri starfsemi. Við erum nú að láta gera þarfagreiningu vegna húsnæðis fyrir menningarstarfsemi og eiga niðurstöður að liggja fyrir í lok sumars. Ég vildi sjá þessa starfsemi í miðbæ Selfoss, þar á eftir að verða fjölbreytt mannlíf innan fárra ára.

Við höfum verið með menningarhátíð hér frá árinu 2003 – Vor í Árborg – þar sem við leggjum áherslu á að hátíðin fari fram í öllum byggðakjörnunum og núna í vor stendur hún í tíu daga vegna þess að við erum að halda upp á tíu ára afmæli sveitarfélagsins. Þá er áherslan á að allir þeir sem taka þátt í menningarstarfi í sveitarfélagi fái þarna tækifæri til að kynna og koma fram með sína afurð. Það er kallað í alla til að vera þátttakendur. Undirbúningur er hafinn og mikill hugur í fólki. Hátíðin hefur fram til þessa verið mjög vel sótt og stendur að þessu sinni frá 8. til 18. maí. Í tilefni afmælisins þá verður líka gefið út sérstakt afmælisblað sem dreift verður í öll hús í sveitarfélaginu.

Við létum nýlega vinna fyrir okkur stefnumörkun fyrir íþrótta- og tómstundastarf. Sú stefnumörkun var unnin í samstarfi við öll félög og klúbba sem vinna að íþrótta- og tómstundastarfi í sveitarfélaginu. Öflugt íþrótta- og tómstundastarf er mjög mikilvægt fyrir sveitarfélagið og alla sem þar búa. Það er nauðsynlegt að vinna markvisst að uppbygginu þess og því tókum við ákvörðun um að fara í vandlega greiningu á því hvað og hvernig best sé að haga málum mati þeirra sem starfa á þessum vettvangi. Það er mat þeirra sem gera skýrsluna að það sé mikill félagsauður í þessu samfélagi. Það er jafnframt þeirra álit að brýnasta verkefnið sé að stilla saman þessa krafta til að byggja upp enn betra umhverfi.

Arborg-adalskipulag2005-2015-Eyrarbakki-minnkadur.jpg  

Þetta eru mjög spennandi tímar og það er áhugavert að sjá hvernig áhrif þessi hraða uppbygging kemur til með að hafa á samfélagsgerðina hér.

Arborg-adalskipulag2005-2015-Selfoss-minnkadur.jpg 

Eftir því sem við verðum fleiri, þess betur verðum við í stakk búin að bjóða upp á fjölbreytni í þjónustu. Við erum nú þegar komin með strætó til að tengja Stokkseyri, Eyrarbakka og Selfoss. Næst á dagskrá í samgöngumálum verður að koma á ferðum innanbæjar á Selfossi.

Arborg-adalskipulag2005-2015-Stokkseyri-minnkadur.jpg

Framundan eru stór verkefni, eins og endurbygging og endurnýjun á Sundhöll Selfoss sem verður byrjað á á þessu ári, einnig uppbygging á íþróttavallasvæðinu þar sem bæði þarf að byggja upp aðalleikvang fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga