Greinasafni: Skipulag
Sveitalíf í þéttbýli
  MND_70902-076_1-nota.jpg
Myndin er tekin í átt að Stokkseyri og Þjórsárósar sjást austast á myndinni. Hér sjást framkvæmdir í suðurhluta fyrsta og annars áfanga en áfangarnir eru sex og skiptast í norður- og suðurhluta og er það stofnbrautin Tjarnabraut sem skiptir þeim.

Í Tjarnabyggð í Árborg byggir hver og einn eftir sínu nefi, yfir fjölskylduna, hunda, hesta, tómata og rósir

Tjarnabyggð í sveitarfélaginu Árborg er tvímælalaust einn af nýstárlegustu og mest spennandi búsetumöguleikum sem bjóðast í dag. Þar hefur svokölluð „búgarðabyggð“ verið skipulögð á tæplega 600 hektarar svæði. Nú þegar hefur verið selt á annað hundrað lóða í fyrsta til þriðja áfanga en á hverri lóð má byggja allt að 1.500 fermetra. Jarðvegs- og gatnaframkvæmdum hefur þegar verið lokið og má segja að allt sé komið á svæðið; hitaveita, rafmagn, götur (bundið slitlag á tvo fyrstu áfangana) – og ljósleiðarar og hefur því Tjarnabyggðin bestu fjarskipti sem völ er á.

Einn af fjölmörgum kostum Tjarnabyggðar er að hver og einn ræður sínu húsi. Það er enginn sem segir hvernig hús má vera á lóðinni, hvernig íbúðarhúsið á að vera í laginu, hvort einnig megi vera þar hundakofi, hesthús, skemma fyrir fullorðinsdót, gróðurhús, listigarður, eða bara kálgarðar. Það er enginn vafi að búsetuform af þessu tagi hentar Íslendingum vel – enda segir Jörundur Gauksson framkvæmdastjóri Búgarðabyggðar að salan á lóðunum fari mjög vel af stað. Það eru núna rétt tæp tvö ár frá því að framkvæmdir hófust. Engu að síður er búið að gera 220 lóðir byggingarhæfar. Þar af eru á annað hundrað seldar, unnið í tuttugu og átta húsum - og níu fjölskyldur fluttar inn.

Þrjú hundruð fimmtíu og níu búgarðar
Búgarðabyggð segir Jörundur fyrirbæri sem kemur frá sveitarfélaginu Árborg inn á aðalskipulag 2005 til 2025. „Með því tók sveitarfélagið ákvörðun um að bjóða upp á nýjan búsetukost þar sem þér gefst kotur á að kaupa stóra lóð úti í sveit þar sem þú mátt byggja stórt einbýlishús, ásamt útihúsum en jafnframt að njóta allrar þjónustu frá sveitarfélaginu til jafns við þéttbýlisbúana. Þannig má sem dæmi taka að í Tjarnabyggðinni er hitaveita, snjómokstur, sorphirða og börnin í Tjarnabyggð fara í Sunnulækjarskóla á Selfossi. Það sem er umfram er að Árborg annast skólaakstur á svæðinu og keyrir börnin til og frá skóla. Það má því segja að þarna sé búið að skapa nýtt fyrirbæri sem hefur bæði einkenni þéttbýlis og sveitarinnar.

Helsti munurinn á þéttbýlinu og búgarðabyggð liggur í heimildunum til bygginga. Í búgarðabyggð má byggja allt að fimmtán hundruð fermetrum, sem sagt íbúðarhús og útihús og þar getur fólk verið með húsdýrahald.“

Tjarnabyggðin hefur þá sérstöðu að vera þrjú hundruð fimmtíu og níu búgarðar á sex hundruð hekturum lands. Þar er því hratt að myndast nýr byggðakjarni í Árborg. Þá verða þetta fjórir þéttbýliskjarnar; Stokkseyri og Eyrarbakki, höfuðstaðurinn Selfoss og síðan Tjarnabyggð sem verður mörg hundruð manna byggð, sem mynda sveitarfélagið Árborg.

Dagleg tengsl við náttúruna
„Sérstaða Tjarnabyggðar liggur líka í ósnortinni náttúru allt í kring, segir Jörundur. „Þar eru víðáttumiklar bújarðir, lönd á náttúruminjaskrá og fuglafriðlönd sveitarfélagsins.“

Um það bil allt land norðan Tjarnabyggðar – að Ölfusá – er í eigu fjölskyldunnar í Kaldraðanesi. Sjálfur er Jörundur er fæddur í Kaldaðaranesi og ólst þar upp. Fyrir þremur árum keypti hann gömlu hjáleiguna Hreiðurborg í því skyni að hafa forræði á náttúruvernd á svæðinu. „Okkar lönd ligja að fuglafriðlandi sveitarfélagsins,“ segir hann. „Við höfum í áratugi tryggt friðinn hér fyrir fuglana og teljum okkur vera líklegust til að lífríkið fái að haldast í friði. Þetta er alið upp í okkur alla tíð og við höfum hugsað okkur að skila þeirri arfleifð til okkar afkomenda, auk þess sem við getum stýrt því hvernig gengið er um svæðið.“

Jörundur segir mannlífsflóruna koma til með að verða afar fjölbreytta í Tjarnabyggð. „Í upphafi keyptu nokkrir verktakar nokkrar lóðir hver en eftir það hafa þetta verið einstaklingar. Flestir hafa ákveðið sjálfir að byggja yfir sig og fjölskyldur sínar í Tjarnabyggð. Þetta er nánast allt fjölskyldfólk, nokkrar af Suðurlandi en langflestar af Stór-Reykjavíkursvæðinu. Meirihlutinn er fólk í yngra kantinum, með börn, en þó er inn á milli fólk sem er farið að reskjast og ætlar að enda hér, fólk sem vill hafa nóg pláss, vill geta ræktað sinn garð, haft heitan pott og látið fara virkilega vel um sig.“

Breyting á lífsstíltb-0006-minni.jpg
„Það sem er þó einkennandi fyrir hópinn er að þetta er fólk sem hefur áhuga á að hanna sitt eigið einbýlishús og umhverfið í kringum það og fletta því saman við sitt áhugasvið. Sumir vilja bara njóta friðsældar sveitarinnar og þess að eiga stóra jörð, á meðan aðrir hafa áhuga á að byggja yfir áhugamálin, hvort sem það er skemma yfir fullorðinsleikföngin eða hestana.“

Það er töluvert um það að þeir sem eru að byggja þarna vinni á höfuðborgarsvæðinu og ætli sér að gera það áfram. Sumir eiga hunda – sem er tómt basl í borginni, að ekki sé talað um hesta. Þeir sem búa í borginni og eru með hesta, eru hreinlega aldrei heima. Eftir langan vinnudag, skreppa þeir heim til að skipta um föt til að fara upp í Víðidal að sinna hestunum. Það er algengt að konan sé alltaf ein heima með börnin. Hér koma menn heim úr vinnunni og rölta sér út í hesthúsið sem er á þeirra eigin lóð. Það þarf ekkert að fara út fyrir bæinn til að sinna hestunum og börnin geta tekið þátt í því. Þetta er breyting á lífsstíl. Það er sífellt algengara að ungu fólki með börn finnist eftirsóknarvert að flytja út fyrir borgina, byggja sitt hús eftir eigin höfði og skynsemi, sameina heimilishald og áhugamál – og þurfa ekkert að hafa áhyggjur af því að keyra börnin og sækja. Þeim er ekið í skólann og heim aftur.“

Að rækta garðinn sinn
En ekki eru allir með dýrahald eða börn. Þegar Jörundur er spurður hvaða kostum Tjarnabyggðin sé búin fyrir þá sem ekki hafa áhuga á að rækta truntur, eða „geldfuglinn,“ það er að segja, hópinn sem á börn sem eru flogin úr hreiðrinu, minnir hann á að hver og einn geti gert það sem hann langar til á sinni lóð. Þar sé, til dæmis, hægt að hafa vænan, listigarð, tb-00089-tjarnastemning.jpgmatjurtargarð og gróðurhús. „Þarna er hitaveita og það eru margir með græna fingur, einkum fólk sem er að eldast. Þegar hraðinn minnkar áttar fólk sig á því að það hefur allt sem það þarf og getur snúið sér að því að rækta garðinn sinn. Lóðin er það stór að það er hægt að njóta þess að rækta nánast hvað sem er. Kosturinn við veðráttuna á þessum slóðum er að hér er alltaf blíða. Landið liggur lágt, þannig að þetta er snjólétt svæði og fremur hlýtt, ekki vandræði með færð. Suðurland er nokkuð vandamálalaust í veðri. Það er ekkert sem veldur töfum í samgöngum og það er undantekning ef menn lenda í vandræðum.

Í því samhengi má líka nefna að um Tjarnabyggðina liggja göngu og reiðstígar sem tengja þessa byggð við göngu- og reiðleiðir í sýslunni. Þú getur því gengið út um dyrnar heima hjá þér með tjald og bakpoka – og haldið nánast hvert á fjöll sem er; eða skellt þér á bak þínum hesti í þínum túngarði og sömuleiðis notið þess að ríða út, hvert sem hugurinn stefnir. Og ég myndi kannski bæta því við að líklega eru bestu meðmælin þau að nú þegar hafa tveir sveitarstjórnarmenn í Árborg keypt sér lóðir hér.“

RR0Z1026.jpgFyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér enn fremur kosti þessa áhugaverða samfélags, skal bent á heimasíðuna www.tjarnarbyggd.is

Sumir vilja bara njóta friðsældar sveitarinnar og þess að eiga stóra jörð, á meðan aðrir hafa áhuga á að byggja yfir áhugamálin, hvort sem það er skemma yfir fullorðinsleikföngin eða hestana.“


Jörundur Gauksson framkvæmdastjóri Búgarðabyggðar. Mynd Ingó.

Kosturinn við veðráttuna á þessum slóðum er að hér er alltaf blíða. Landið liggur lágt, þannig að þetta er snjólétt svæði og fremur hlýtt, ekki vandræði með færð. Suðurland er nokkuð vandamálalaust í veðri.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga