Greinasafni: Skipulag
Aðgengi fyrir alla

Ferlimál fatlaðra snúast um ótal smáatriði sem ófötluðum sést auðveldlega yfir. Guðmundur Magnússon og Harpa Ingólfsdóttir hjá Aðgengi bjóða upp á ráðgjöf fyrir hönnuði og úttektir fyrir einstaklinga og fyrirtæki um hvað megi betur fara

RR0Z0523.jpg
Eigendur Aðgengis, Harpa Ingólfsdóttir og Guðmundur Magnússon. Myndir Ingó

Aðgengi ehf. býður fyrirtækjum, einstaklingum og opinberum aðilum að gera nákvæma úttekt á aðgengi fatlaðra að öllu húsnæði þeirra. Aðgengi var stofnað árið 2005 og var fyrst í stað með eitt og eitt verkefni á stangli og var rekið upp úr skrifborðsskúffu og á eldhúsborði. Verkefnin urðu svo fleiri og stærri og í janúar síðastliðnum flutti Aðgengi í nýuppgerða skrifstofuaðstöðu í gömlu Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg.

Eigendur aðgengis eru þau Guðmundur Magnússon og Harpa Ingólfsdóttir. Guðmundur hefur verið hjólastólanotandi frá því 1976 og lengi unnið að úrbótum í ferlimálum fatlaðra, meðal annars unnið að úttektum með tilliti til fatlaðra sem aukastarf í hátt í áratug. Jónína er byggingafræðingur og löggiltur mannvirkjahönnuður. Þegar þau eru spurð hvað þau eigi við með nákvæmar úttektir, segja þau Guðmundur og Harpa að þar sé, meðal annars, átt við aðkomu að húsnæði; bílastæði og leiðinni þaðan að útidyrum, tröppur, handrið, dyrabreidd og þröskuldar, anddyrum og umferðarleiðum innanhúss, stigum, lyftum, göngum, skrifstofum og öðrum herbergjum. Einnig skoði þau vinnuaðstöðu, til dæmis hæð undir borð og svo framvegis.

Ekki sjálfgefin vitneskja
Úttektin er gerð með hliðsjón af grunnreglum Sameinuðu þjóðanna um jafna þátttöku fatlaðra í samfélaginu., en samkvæmt þeim verður aðgengi að mannvirkjum sem ætluð eru til almenningsnota að vera fullnægjandi fyrir alla. Þau Guðmundur og Harpa segja að þótt þetta gefi auga leið, þá sé kunnátta og vitneskja um þessi málefni ekki sjálfgefin. Þess vegna sé mikilvægt að til sé fyrirtæki sem getur leiðbeint við byggingu nýrra mannvirkja, tekið út og greint eldra húsnæði með tilliti til allra. Aðgengi bjóði upp á þessa þjónustu og til þess telji þau sig hafa góðar forsendur.

„ Harpa hefur réttindi til að hanna og leggja teikningar inn til byggingafulltrúa – en best segir hún að fyrirtækið komi inn sem ráðgefandi aðili strax í upphafi, vinni með hönnuðum áður en byrjað sé að byggja.
RR0Z1098.jpg
Hér sést að hægt er að leysa aðgengismál svo vel sé í eldra húsi, mynd af Höfða í Reykjavík.

Hurðamál
„Við sjáum verkefnið allt öðru vísi en þeir sem hafa unnið að hönnun og þótt til séu lög og reglugerðir um aðgengismál, þarf alltaf að vera að skerpa á hlutunum. Þess vegna er það stefna okkar að halda kynningar fyrir hönnuði og aðra um aðgengismál. Og þótt til séu lög og reglugerðir um aðgengismál er alls ekki allt tekið inn í þær reglugerðir. Núna liggur fyrir Alþingi frumvarp að nýjum lögum um mannvirki og við bíðum eftir að þau verði samþykkt. Af þeim verður mikil réttarbót.“

Guðmundur og Harpa segja ekkert frekar hugað að ferlimálum fatlaðra í nýjum húsum en gömlum, þótt ástandið sé aðeins betra í þeim nýju. „Þegar við skoðum teikningar sjáum við fljótt hvernig aðgengismálum er háttað t.d. stærð rýma breidd og opnun hurða o.þ.h.. Við sjáum sem betur fer ekki lengur 65 og 70 cm breiðar hurðir á teikningum – en það þarf hugarfarsbreytingu til að litið sé á það sem sjálfsagðan hlut að hurðir séu 90 cm breiðar, með því gætu flestar íbúðir orðið lífstíðaríbúðir. Svo sjáum við líka teikningar þar sem hurðir eru 90 cm breiðar en opnast inn í rýmið, en þá er plássið sem ætlað var fyrir hjólastól oft farið.“

Mikilvægi ferlihönnunar í upphafi
Gott dæmi um mikilvægi ferlihönnunar, segir Harpa.er t.d. eitt tilfelli þar sem einungis þurfti að færa vegg í rými til um tíu sentímetra – á grunnteikningu áður en hafist var handa við byggingarframkvæmdir– til að ferlimálin væru í lagi. Þetta var töluvert hentugra en aðgerðirnar sem hefði þurft að ráðast í ef enginn hefði hugað að þessu fyrr en eftir á. Þá hefði þurft að brjóta niður veggi og vera með töluvert rask.

Guðmundur og Harpa segja slagorðið „Aðgengi fyrir alla“ ekki bara snúast um aðgengi fyrir fatlaða. „Þetta á við um alla sem eiga erindi í bygginguna, ekki síst starfsfólk – og ræstitæknar eru starfsfólk. Það er mjög algengt að ræstigeymslur séu pínulitlar, jafnvel undir stigum og nánast undantekningarlaust að hurðin opnast inn. Eins lítið og einfalt atriði og að láta hurðina opnast út, getur gert gæfumuninn. Þá er jafnvel hægt að renna ræstivagninum inn í geymsluna. Þegar við höfum bent á þetta, eiga menn það til að segja að slíkt loki fyrir flóttaleiðir og það séu rökin fyrir því að hurðirnar opnist inn. En ræstitæknar mæta oft þegar allir aðrir eru farnir úr byggingunni, auk þess sem geymslur og ræstikompur eru oft staðsettar þannig að það er ekki mikil hætta á að þær séu flóttaleiðir hvort sem er.“

Svo er mikilvægt að hafa í huga að það eru ekki allir fatlaðir í hjólastól og fötlun er ekki alltaf sýnileg, má þar t.d telja sjón- og heyrnarskerta.

Engin viðurlög
„Annað vandamál er að það eru engin viðurlög þótt hönnuðir og byggingaraðilar fari ekki að lögum, því er ekkert hægt að gera sé vilji til breytinga ekki til staðar. Það eru viðurlög við því að fara ekki að lögum um brunavarnir og við viljum að aðgengismál verði jafn rétthá og þær.“

Hvað breytingar á eldri húsum varðar, segja Guðmundur og Harpa oftast hægt að finna lausnir. „Það er kannski ekki hægt að uppfylla öll skilyrði, en það er yfirleitt hægt að finna ásættanlegar lausnir. Iðnó og Geysishúsið eru gott dæmi um vel heppnaðar endurbætur á ferlimálum.

Læstar dyr
Eitt sem Guðmundur og Harpa nefna eru snyrtingar á stöðum ætluðum almenningi og jafnvel í skólabyggingum. „Ef þær eru merktar fötluðum, er eins og allir haldi að aðrir megi ekki nota þær og mjög oft hafa þær verið gerða að geymslum eða ræstikompum og hafðar læstar. Þetta er bara salerni og ófatlaðir geta alveg notað það.“

Það þarf ekki að fara langt til að sjá að pottur er ekki aðeins brotin víða – heldur má eiginlega orða það þannig að flestir pottar séu mölbrotnir um borg og bý varðandi ferlimál fatlaðra. Þau Guðmundur og Harpa hafa því svo sannarlega verk að vinna – enda segjast þau vilja vinna með arkitektum, verkfræðingum, iðjuþjálfum, áhugafélögum og öðrum sem vilja láta framkvæma kannanir á þörfum fatlaðra varðandi aðgengi.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga