Greinasafni: Ferðaþjónusta
Vestfirðingur
„Ég er innfæddur Vestfirðingur og stoltur af því,“ segir Jón Páll Hreinsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Vestfjarða, aðspurður um uppruna sinn. „Á Vestfjörðum á ég heima og vill hvergi annars staðar vera. Hér er þessi einstaka samblanda af náttúru, menningu og kraftmiklu fólki sem mér fellur vel við. Eins og flestir Vestfirðingar er ég náttúrubarn og því er það kærkomið að fá tækifæri til að vinna með ferðaþjónustunni að því að kynna svæðið okkar fyrir innlendum og erlendum ferðamönnum.”

„Þeim sem ferðast um Vestfirði fjölgar með hverju árinu sem líður, enda er stórbrotin náttúra þessa fjórðungs afar heillandi og hefur mikið aðdráttarafl. Látrabjarg, Rauðisandur, Fjallfoss í Dynjanda og Hornstrandir til að mynda eru náttúruvættir sem eru einstök í sinni röð. Þá hefur allt markaðsstarf í ferðaþjónustu vestra verið eflt að mun síðustu árin og afrakstur þess starfs er að koma sífellt betur í ljós,” segir Jón Páll Hreinsson. „Í dag ríkir bjartsýni í vestfirskri ferðaþjónustu. Sumarið, aðalbjargræðistíminn er framundan og menn að jafnaði kátir með byrjun vertíðar.“ Ný upplýsingasíða um Vestfirði var opnuð á dögunum og er hægt að nálgast upplýsingar um Vestfirði og ferðamöguleika á www.westfjords.is.

„Fólk hefur gjarnan sett vegina á Vestfirði fyrir sig. Nú er þetta viðhorf hins vegar á undanhaldi, enda hafa samgöngur í fjórðungnum verið bættar til muna. Nú er komið slitlag úr Reykjavík vestur í Reykhólasveit og um alla Barðaströnd til Patreksfjarðar er líka bærilegur vegur, líka sá vegbútur sem ómalbikaður er. Þá verður leiðin til Ísafjarðar um Djúpið sífellt betri, enda hefur mikil áhersla verið lögð á framkvæmdir þar um slóðir. Framkvæmdir við nýjan veg um Arnkötludal milli Stranda og Reykhólasveitar sem hófust í vor munu sömuleiðis styrkja Vestfirðina sem heild,“ segir Jón Páll. Sjávarþorpin á Vestfjörðum eru mörg hver býsna heillandi í hugum ferðamanna; lítil kauptún á eyraroddum sem ganga í sjó fram undan háum fjallshlíðum – og bera gjarnan svipmót hvers annars.
 
„Sjávarplássin draga að sér fjölda ferðamanna, enda framandi til dæmis í vitund þéttbýlisfólks. Þar og raunar hvarvetna á Vestfjörðum hefur verið unnið af krafti síðustu ár að uppbygginu ferðaþjónustu; svo sem veitinga- og kaffihúsa, gistihúsa, afþreyingar og annars slíks. Víða hefur til dæmis verið komið á laggirnar skemmtilegum söfnum og menningarsetrum. Galdrasýningin á Ströndum er til dæmis eitt af því sem hefur slegið rækilega í gegn og þar er frekari uppbygging á teikniborðinu. Þá eru víða volgrur fyrir vestan, heitar uppsprettulindir í fjörunum sem eru sundlaugar frá náttúrunnar hendi. Ferðamönnum þykir mikil upplifun að busla þar, enda eru þessar sérstæðu sundlaugar fæstu líkar.”

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga