Gönguleið fyrir Kamb
Gönguleið fyrir Kamb Gönguleiðin fyrir Kamb er þrettán til fjórtán kílómetrar og tekur ekki nema sex til sjö klukkustundir að ganga hana. Hún er fremur auðveld, ómerkt en liggur að mestu með sjó.
Strandir Kambur er sérkennilegt og áberandi fjall á nesinu milli Reykjarfjarðar og Veiðileysufjarðar. Upp úr Kambinum rísa þverhníptir tindar sem álengdar minna á tröllagreiðu. Ekki er akvegur fyrir Kamb en á þessari leið er margt að sjá. Gott er að hefja gönguna uppi á Veiðileysuhálsi, þar er hægt að finna góðan stað til að leggja bifreiðinni þá dagstund sem gangan tekur. Eins væri hægt að fara rólega og gista eina nótt í tjaldi úti við eyðibýlið Kamb. Ganga kringum Kamb er fremur auðveld og við hæfi allra fjölskyldumeðlima. Gengið er niður af Veiðileysuhálsi og sneitt niður Hjallana þar til komið er niður undir sjóinn rétt utan við norðanverðan botn Veiðileysufjarðar. Samkvæmt þjóðsögunni er nafn fjarðarins þannig til komið að kerling nokkur sem Kráka hét missti tvo syni sína í róðri á firðinum. Lagði hún þá á fjörðinn að þar myndi aldrei fást framar bein úr sjó. Þóttu orð hennar verða að áhrínisorðum.

Gengið er út með firðinum eftir greinilegum slóða um svæði sem einkennist af undarlegum sandsteinsmyndunum. Þar er upplagt að stansa, gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn um tíma og virða fyrir sér listaverk náttúrunnar. Utarlega á nesinu stendur eyðibýlið Kambur. Neðan við bæinn, við sjóinn, er gamall stekkur þar sem upplagt er að tjalda ef menn ætla að stoppa lengur. Á Kambi var búið til ársins 1954 og húsið stendur enn. Í grennd við bæinn er grjótdys sem heitir Spænskradys.

Þegar gengið er áfram breytist landslag lítillega og komið er að Látrum en þar var heyjað á engjum frá Kambi. Frá Látrum var nokkuð útræði fyrrum og talsverður reki er þar. Sýn opnast nú inn Reykjarfjörð og á vinstri hönd rís mikil klettaborg með ótal glufum og gjám og miklu fuglalífi. Gatan breikkar og að hluta er hún hlaðin hönduglega yfir mestu farartálmana. Inn í ströndina skerast ótal litlar víkur og komið er að eyðibýlinu Halldórsstöðum sem ekki er vitað með vissu hvenær fór í eyði. Úr landi Halldórsstaða byggðist verslunarstaðurinn Kúvíkur sem um 250 ára bil var eini verslunarstaðurinn á Ströndum frá því um aldamótin 1600. Þar voru um tíma tvær verslanir og heimavistarskóli var rekinn þar einn vetur (1916). Þar má enn þá sjá merki umsvifanna, til dæmis pott þar sem hákarlalýsið var soðið í og tóftir sem gefa hugmynd um skipulag kaupstaðarins. Frá Kúvíkum er gengið upp á þjóðveginn og með honum upp á Veiðileysuhálsinn á ný.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga