Góðir Íslendingar eru bestir, en...

Á Laugarhóli í Bjarnarfirði rekur Matthías Jóhannsson, eða Matti, hótel í húsnæði sem áður fyrr var skóli. Hótelið er heilsárshótel, „galopið frá 1. maí til 1. október“ eins og Matti, segir en opið samkvæmt pöntunum á öðrum árstímum vegna þess að það er of lítil götuumferð til að hafa opið.

Á hótelinu eru ellefu herbergi með baði og fimm án baðs og einungis er hægt að fá uppbúin rúm yfir sumartímann. „Þetta er samkvæmt stöðlum frá Evrópusambandinu,“ segir Matti. „Til að geta titlað sig hótel verður að bjóða upp á upp-búin rúm. Þetta gengur alveg ef þú ert í miðborg Parísar en getur reynst snúið hér fyrir vestan. Við hliðina á hótelinu er tjaldstæði og stundum koma heilu fjölskyldurnar og tjalda þar. Svo, allt í einu, gerir hávaðarok og allt fýkur um koll. Þá vill fólkið fá svefnpokapláss hjá Matta.
 
Það er ekkert hægt að segja nei. Maður verður að leyfa fólki að koma inn með svefnpokana sína.“ Á Laugarhóli er boðið upp á morgunverð, hádegisverð og kvöldverð. Matti, sem er af frönsku bergi brotinn segist þó ekki vera með franskt eldhús. „Ég býð það sem ég kann að búa til og er eingöngu með rétt dagsins vegna þess að flestir sem koma hingað eru smáhópar. Þeir eru allir með það sama, svo maður er með tvo rétti á hverjum degi, fiskrétt og kjötrétt, auk grænmetisréttar ef þess er óskað. Ferðamannatíminn hjá Matta hefst fyrr en gengur og gerist á landsbyggðinni, eða í lok apríl. Nú þegar hefur töluverð umferð verið hjá honum og hótelið er fullbókað frá 10. júní til 1. september. 

„Gestir mínir eru aðallega útlendingar. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt með árunum. Aðallega frá Sviss og Bretlandi, síðan Hollandi, Þýskalandi og Frakklandi. Eftir 11. september 2001, varð mér ljóst að straumur ferðamanna frá Bandaríkjunum hingað myndi hrynja og ákvað að markaðssetja mig í Sviss. Svisslendingar eru svo ofboðslega þægilegt fólk. Vel agaðir, Hollendingar líka. Svisslendingar mæta alltaf á hárréttum tíma, eða láta vita ef eitthvað er að. Þeir eru kurteisir og allir farnir inn að sofa klukkan tíu. Svo greiða þeir sína reikninga á hárréttum tíma. Hollendingar eru þannig að þeir hafa alltaf verið klemmdir á milli Frakklands og Þýskalands. Þeir eru búnir að taka það besta frá báðum þjóðum, léttir og skemmtilegir eins og Frakkar en vel agaðir eins og Þjóðverjar. Borga líka sína reikninga stundvíslega. Svo gerðist það sjálfkrafa að Frakkar kæmu til mín þar sem ég er af frönsku bergi brotinn.“ 

Matthías, sem hefur verið búsettur á Íslandi í tuttugu og fimm ár, er ekki með fjölskyldu á Laugarbóli, heldur býr þar einn. Þegar hann er spurður hvort hann verði aldrei einmana þar, spyr hann á móti hvort maður verði aldrei einmana í Reykjavík. Og hvað íslenska gesti varðar, þá segir hann sáralítið af þeim gista á Laugarbóli - sem séu bæði góðar og slæmar fréttir, vegna þess að „góðir Íslendingar séu bestu gestir sem til eru, en vondir Íslendingar séu það alversta sem maður kemst í tæri við.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga