Hótelið við nyrstu höf

Í Djúpuvík hafa Eva og Ásbjörn unnið við að byggja ferðaþjónustu síðustu tuttugu árin - og enn stendur til að bæta þjónustuna

Eva og Ásbjörn.

„Maðurinn minn, Ásbjörn Þorgilsson, fór hingað vestur 1983 vegna þess að afi hans, sem hann hafði ekki kynnst, hafði búð hér á árum áður. Hann langaði að sjá Djúpuvík áður en hún legðist í eyði,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, sem rekur Hótel Djúpuvík, heilsárshótel á Ströndum, ásamt eiginmanni sínum - auk þess sem þau hjónin eru að byggja upp síldarminjasafn. „Ásbjörn hitti hér síðustu íbúana sem gátu frætt hann heilmikið um afa hans og sýndu honum staðinn,“ heldur Eva áfram. „Síðar bauðst honum að kaupa síldarverksmiðjuna. Við ætluðum út í fiskirækt - en vorum með svo hógværa áætlun að við fengum engin lán. Við vorum búin að loka verksmiðjunni og glerja, og settumst niður til að velta möguleikunum fyrir okkur. Við sáum að hér var heilmikill ferðamannastraumur en engin þjónusta. Svo einn daginn þar sem við stóðum uppi á verksmiðjuþakinu, fékk maðurinn minn þá hugmynd að kaupa Kvennabraggann og byggja upp hótel. Við vissum að okkur vantaði hús til að búa í ef eitthvað yrði úr fiskeldinu og höfðum komið okkur upp heimili þar. Enn í dag er hótelið okkar heimili. Við fjárfestum líka í vegavinnuhúsum sem eru þjónustuíbúðirnar okkar. Þar búa börnin þegar þau koma, sem og starfsfólkið.


Hótel Djúpavík í vetrarbúningi

Markviss uppbygging
Hótelreksturinn hófu þau Ásbjörn og Eva 1985, fluttu alfarið í Djúpvík 1986 og hafa búið þar síðan. Börnin farin að heiman og þau bara tvö eftir í víkinni. „Ég datt alveg óvart inn í reksturinn,“ segir hún. „Ég vissi ekkert um hótelrekstur og þurfti að læra erfiðu leiðina.“ Hótelið er opið allt árið en þó er hlé á ferðamannastraumnum yfir harðasta veturinn og þá fara þau hjónin gjarnan í sín frí. Hótel Djúpavík getur tekið á móti nokkrum fjölda af fólki. „Í upphafi vorum við með átta tveggja manna herbergi,“ segir Eva. 


Hótel Djúpavík að sumri til.

„Okkur var sagt af ferðaskrifstofum að þetta væri allt of lítið svo við byggðum við hliðina. Við vorum þar með hellu þar sem við ætluðum að byggja hjall til að þurrka þvotta í rigningum en sáum að við gætum notað þennan gólfflöt til nytsamlegri hluta. Við bættum við tveimur fjögurra manna herbergjum, salernisaðstöðu og sturtu. Þarna getur fólk bæði fengið svefnpokagistingu og uppbúin rúm. Árið 2000 tókum við þriðja húsið í gegn. Það var partur af húsi sem hafði gengið undir nafninu Matsalan. Það gerði maðurinn minn upp á tveimur vetrum og við gáfum því húsi heitið Álfasteinn. Þetta er mjög fallegt hús á tveimur hæðum og tekur átta til tíu manns í rúm.“

Matur, kajakar og sjóstöng
Alls eru 32 til 34 gistirými á Hótel Djúpvík. En þegar stærri hópar mæta á svæðið er bara leitað til nágrannanna og þá getur það gerst að gestirnir búi í sex til sjö húsum á staðnum. Eva segist stundum hafa fengið fimmtíu manna hópa og það hafi gengið ágætlega. Og auðvitað er boðið upp á veitingar á hótelinu. Þar er alltaf morgunverðarhlaðborð, léttar veitingar á daginn og kvöldmatur milli 7 og 9. Þá er alltaf boðið upp á tvo fasta rétti, fisk og kjöt, oftast nær súpu, auk þess sem fólk getur fengið sér einhvern eftirrétt því Eva segist alltaf eiga ís og kökur. Auk þess að reka hótelið eru Ásbjörn og Eva með kajakaleigu og bjóða upp á sýningarferðir í gegnum verksmiðjuna. „Árið 2003 opnuðum við sögusýningu Djúpavíkur í vélarsalnum í verksmiðjunni. Hún er mjög vinsæl. Ætluðum að stækka hana í fyrra en urðum að fresta því vegna viðgerða á þakinu. En nú ætlum við að bretta upp ermar seinna á þessu ári og stækka sýninguna. Þar fyrir utan erum við að fara að kaupa okkur bát sem við ætlum að nota til að bjóða upp á sjóstangveiði. Höfum verið með lítinn bát, leyft fólki að prófa handfærarúllur, en ætlum að gefa fólki kost á því að prófa sjóstöng. Við hlökkum mikið til þess.“

 Hótel Djúpavík
Djúpuvík
522 Kjörvogi
Sími 4514037
www.djupavik.com
djupavik@snerpa.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga