Kleppa

Tröllkona ein hét Kleppa og bjó í Staðardal í Steingrímsfirði um það leyti sem kristni barst til landsins. Var henni afar uppsigað við kristna trú og afrekaði það meðal annars að eyðileggja steinboga sem lá yfir á við Kirkjutungur í norðanverðum Steingrímsfirði til að spilla leiðinni til kirkjunnar á Stað.

Kirkjan á Stað.

Kleppa fór oftsinnis norður í Trékyllisvík til að sækja stórviði í hof sem hún hafði í byggingu. Þá bjó Finnbogi rammi á Finnbogastöðum og hafði hann reist kirkju á bæ sínum. Þegar Kleppa var í ferðum sínum stríddi Finnbogi henni gjarnan með því að hringja kirkjuklukkunum. Varð henni ætíð svo bilt við að hún fleygði frá sér byrðunum og stökk í burtu með ópum og óhljóðum. Einhverju sinni er Kleppa var búin að fá sig fullsadda af stríðni Finnboga, tók hún sig til og klippti allt gras af grundunum í kringum bæ hans. Síðan meig hún þvílíku flóði að gríðarmiklar mýrar mynduðust við býlið. Finnboga þótti meira en nóg um þessa framtakssemi skessunnar, skundaði upp í fjall og spyrnti heljarmiklu bjargi niður yfir hana. Segja menn að hóllinn sem stendur upp við hlíðarrótina milli Finnbogastaða og Bæjar hafi orðið til úr skriðunni og ber hann nafn Kleppu.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga