Mikil aukning á milli ára

Reimar Vilmundarson segist nær eingöngu ferja Íslendinga milli norðurfjarðanna á Ströndum og Hornströndum.

Þótt báturinn heiti Freydís, heitir fyrirtækið Sædís ÍS - batsferðir. Þjónustan sem fyrirtækið veitir, er siglingar, trússflutningar og farþegaflutningar. Áætlunarferðir verða í sumar frá 25. júní til 15. ágúst. En reyndar fer ég fyrstu ferðirnar í kringum 10. júní, segir Reimar. „Þetta er bara sumarferðatíminn hjá Íslendingum og 97% af þeim sem hafa bókað hjá mér í sumar eru Íslendingar.“ Nú þegar hafa 1.200 manns bókað sig í siglingar hjá Sædísi sem Reimar segir að sé mjög fínt. 

„Ég flutti rétt tæplega 1.300 manns í fyrra og á þessum tíma höfðu aðeins sex til sjö hundruð bókað sig. Það virðist því ætla að verða mikil fjölgun íslenskra ferðamanna hingað til okkar á milli ára. Á þeim gististöðum sem við erum að þjóna er nánast að verða fullbókað fyrir hópa, sérstaklega í Látravík og í Reykjarfirði.“ Reimar segir Sædísi ÍS - bátsferðir vera allsherjar ferjuþjónustu, flytji bæði ferðalanga og allt þeirra trúss. „Ef fólk vill ekki ganga með farangurinn sinn, þá ferjum við hann fyrir það.“ Fyrir utan áætlunarferðirnar sem eru á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum, klukkan 10.30 frá Norðurfirði, er búið að bóka aukaferðir nánast alla daga í júlí - aðeins þrír dagar sem ekki er búið að panta. Reimar segist fara aukaferðir eftir þörfum; ekki þurfi nema átta til tíu manns, þá sé hann farinn af stað með þá. Siglingarnar á milli norðurfjarðanna eru sumarstarf Reimars, sem annars býr á Bolungarvík við Ísafjörð. 

„Þetta er svona útilega á sumrin og ákaflega skemmtilegt starf,“ segir hann. „Ferðirnar eru svo margbreytilegar, engar tvær ferðir eins. Þetta fer eftir fólkinu sem siglir með okkur. Svo geta ferðirnar lengst ef fólkið er skemmtilegt eða veðrið er gott. Þá getur verið gaman að fara hægar og skoða náttúruna. Ef sjórinn er sléttur, leggjumst við upp að Hornbjargi til að fólk geti klappað bjarginu. Svo í Látravík, rétt við Hornbjargsvita, er foss sem heitir Blakkibás. Ég sigli upp að honum og fer með bátinn í bað undir fossinn - ef aðstæður leyfa. Hann er örugglega eina bátasturtan í heiminum. Þetta er mjög falleg og skemmtileg siglingarleið. Það er siglt mjög nálægt landi og á leiðinni er mikið fuglalíf og sjávarlíf, bæði hvalur og selur - og allt sem landkrabbar vilja sjá.“

Það er hann Reimar Vilmundarson sem siglir Sædísinni milli Árneshrepps og Hornstranda. Reimar hefur stundað ferðamannaflutninga frá 1995, fyrst við Ísafjarðardjúp en flutti sig fyrir tveimur árum austur fyrir Vestfjarðakjálkann til Norðurfjarðar. Sædísin tekur þrjátíu farþega og er eins konar hraðbátur ef miðað er við þá báta sem áður hafa verið í förum á þessum slóðum. Algeng sigling frá Norðurfirði og norður í Reykjarfjörð, sem áður tók þrjá tíma, tekur nú um klukkustund og tíu mínútur, að sögn Reimars. Siglingin að Hornbjargi tekur rétt um tvo tíma.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga