Greinasafni: Ferðaþjónusta
Góð þjónusta fyrir barnafjölskyldur

Ásdís Leifsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar, segir uppbyggingu skóla og leikskóla á Hólmavík með því besta sem þekkist á landinu.

Strandir eru æðistórt svæði að flatarmáli - en fámennt. Fjórir hreppar eru innan byggðarinnar, Bæjarhreppur, Strandabyggð, Kaldrananeshreppur og Árneshreppur. 
Þéttbýliskjarnar eru tveir: á Hólmavík og á Drangsnesi. Íbúar í Strandabyggð eru 507 samkvæmt manntali í des. 2006. 
Hólmavík
Það er óhætt að segja að Strandamenn búi við kvennaríki, því sveitarstjórinn í Strandabyggð er kona, einnig oddvitar í Bæjarhreppi, Kaldrananeshreppi og Árneshreppi, sem og sýslumaður byggðarinnar og prestur. Eini karlmaðurinn í þessu embættisog valdakerfi er oddvitinn á Hólmavík. Þegar sveitarstjórinn á Hólmavík, Ásdís Leifsdóttir, er spurð hvað sveitungunum finnist um þetta mikla kvennaveldi, segist hún halda að þeir séu bara afskaplega ánægðir með það. „Þegar ég réði mig hingað fyrir fimm árum var sagt við mig að líklega væri þetta besta fyrirkomulagið. Konur hefðu alltaf ráðið öllu á bak við tjöldin - en það væri best að hafa það sýnilegt.“ 


 Í hátíðarskapi.


Galdur og hamingja 
En þótt byggðin sé ekki fjölmenn er mannlíf skemmtilegt og fjölbreytt og víst er að engum sem hana heimsækir þarf að láta sér leiðast. Þar eru sérstæð söfn, eins og Galdrasýningin sem er í boði á Hólmavík og í Bjarnarfirði, sem og sögusýning Sauðfjársetursins á Ströndum - en það er staðsett um fimmtán kílómetra utan við Hólmavík. Mesta aðdráttaraflið hljóta þó Hamingjudagar á Hólmavík að hafa. Þessi bæjarhátíð er nú haldin í þriðja sinn og stendur frá 29. júní til 1. júlí. „Þetta er mikil veisla og mikil gleði,“ segir Ásdís. „Hingað til hefur hún staðið frá fimmtudegi fram á sunnudag en í ár ætlum að vera aðeins hógværari og hefja hana á föstudegi. Hátíðinni lýkur alltaf með Furðuleikum, sem er hreinasta snilld. Þá er verið að keppa í greinum sem þú finnur örugglega hvergi annars staðar, til dæmis trjónufótbolta. Hann er Strandaútgáfan að sérstökum uppátækjum.“ 


Selir við Kirkjuból.

Sundlaugar í fjörunni
 
Hátíðina segir Ásdís opna öllum, þótt vissulega sé áherslan á fjölskyldufólk. „Við erum með frábæra tjaldaðstöðu og erum komin með sérsvæði fyrir húsbíla og þá sem þurfa að tengja sig við rafmagn. Síðan erum við með venjulegt tjaldstæði sem stendur uppi við sundlaugina og er mjög vel varið fyrir vindum. Við erum með eldunaraðstöðu inni, sem og þvottavél og fólk hefur aðgang að snyrtingu allan sólarhringinn í Félagsheimilinu. Einnig erum með splunkunýja sundlaug, útisundlaug og heita potta, þannig að aðstaðan fyrir ferðamenn er orðin alveg frábær. Ég efast um að það séu eins margar sundlaugar á haus og hér í Strandasýslu. Við erum með 25 metra laug hér á Hólmavík og í Bjarnarfirði er 25 metra laug. Drangsnes er með 12 metra laug og tvo potta sem eru í fjörunni, í brimgarðinum í raun og veru. Þú hefur á tilfinningunni að þú sért úti í heitum sjó. Síðan er Krossneslaugin í Árneshreppi sem er líka alveg við sjávarmálið. Þú situr nánast úti í beljandi hafinu.“ 


Selströnd við Steingrímsfjörð

Kassabílarallí og furðuleikar
 
Hamingjudagarnir hefjast á föstudagskvöldinu með diskóteki fyrir yngstu kynslóðina og Ásdís segir ekki ólíklegt að einnig verði þá boðið upp á sýningu á „Þið munið hann Jörund“ sem leikfélag byggðarlagsins hefur verið að sýna. „Við ætlum að reyna að vera með þá sýningu, en það er nokkurt púsluspil þar sem þetta er mannmörg sýning og sumarfrí almennt byrjuð. Á laugardeginum er heljarmikið skemmtiprógram, meðal annars kassabílar fyrir yngstu kynslóðina. Þá er byrjað á því að yfirfara gripina og betrumbæta - og síðan er svaka rallí. Síðan verður hér töframaður, fjölbreytt söng- og tónlistaratriði - og mikið af því kemur frá heimamönnum sjálfum. Við erum með sölubása þar sem seldar verða til dæmis rækjur, djúpsteiktar rækjur og ýmiskonar handverk. Galdrasýningin er opin og svo lýkur herlegheitunum með balli um kvöldið - svo það þarf engum að leiðast. Á sunnudeginum er þessu slúttað með furðuleikum á Sævangi. Þeir eru ævintýralega skemmtilegir.“ 


Ungir sem aldnir taka þátt í hátíðinni

Öflugt félagslíf 
Ásdís segir félagslíf mjög fjölbreytt. „Við erum með gífurlega öflugt leikfélag. Það er ekki lítið þrekvirki fyrir svona lítið samfélag að setja upp eins stóra sýningu og „Þið munið hann Jörund“ en þar fer Sigurður Atlason, sem er með Galdrasafnið, á kostum. Fjölhæfur maður sem ávallt tekur þátt í hinni árlegu karókíkeppni sem haldin er hjá okkur á haustin - og ég hef nú líka látið draga mig út í. Síðan er hér kvennakór og blandaður kór. Við erum með tónlistarskóla og það er frábært að geta sagt frá því að í grunnskólanum eru 82 nemendur og þar af eru sextíu í tónlistarnámi. Síðan er 90% þátttaka í íþróttaþjálfun. Þetta er yndislegur staður til að vera með börn. Skólinn er frábær og við bjóðum til dæmis upp á heilsdagsskóla, þar sem nemendur geta unnið heimanámið sitt undir leiðsögn kennara. Íþróttaiðkun og tónlsitarnám er inni í skólastarfinu. Við höfum lagt mikla áherslu á að byggja upp góða þjónustu fyrir barnafjölskyldur. Leikskólinn er alveg í sérflokki. Núna erum við að byrja að taka inn eins árs börn – hingað til höfum við aðeins getað tekið inn átján mánaða börn. Við höfum stækkað leikskólann um helming og aðstaða þar er til fyrirmyndar. Bjóðum þjónustu eins og hún gerist best og með því ódýrasta á landinu.“ 

Fjölbreytt atvinnulíf Atvinnulíf 
segir Ásdís einnig fjölbreytt. „Fyrir utan rækjuvinnsluna sem veitir 25 manns atvinnu, erum við með heilbrigðisstofnun og heilsugæslu sem er ansi stór vinnustaður, sem og grunnskóla, leikskóla og áhaldahús. Vegagerðin er með útibú hér, einnig Orkubú Vestfjarða. Nýr vegur um Arnkötludal og Gautsdal verður opnaður á næsta ári og það verður mikil samgöngubót fyrir okkur; hann tengir saman Reykhóla og Strandir og þá verður hægt að skreppa á bundnu slitlagi alla leið til Reykjavíkur og til Ísafjarðar.“ Það er enginn barlómur í Ásdísi þegar hún er spurð hvort á Hólmavík séu atvinnutækifæri og pláss fyrir fleir íbúa. „Já,“ svarar hún af bragði. „Eins og er stendur skortur á húsnæði okkur fyrir þrifum. Það stefnir í að hér verði fljótlega byrjað að byggja. Hér er kaupfélag, eitt af fáum sem stendur enn og veitir þó nokkuð mörgum atvinnu. Þannig að hér er fjölbreytni. Tveir bankar og sýslumannsembættið, að ógleymdri smábátaútgerðinni. Það er ekki hægt annað en að láta sér líða vel hérna.

.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga