Stórbrotin náttúra, fámenn byggð

 Í Árneshreppi á Ströndum spretta ferðamenn upp eins og flugur á sumrin.

Árneshreppur er nyrsta sveit Strandasýslu og ákaflega landmikil. Landslag í Árneshreppi er víða stórbrotið og sérstakt. Ströndin er vogskorin, undirlendi lítið og há hamrafjöll gnæfa yfir byggð. En þótt náttúran sé stórbrotin og saga svæðisins mikil að burðum, er sveitarfélagið nokkuð fámennt. Oddný Þórðardóttir oddviti segir íbúa rétt tæplega fimmtíu. Héraðið er fyrst og fremst sauðfjárræktarsvæði. Þar er enginn þéttbýliskjarni en í Norðurfirði er þjónustukjarni, verslun og bankaútibú. Þar eru einnig tvær gistingar og bryggja þar sem tekið er á móti fiski. „Hér er rólegt á veturna en þó nokkuð mikið að gera á sumrin,“ segir Oddný. 


Drangaskörð

„Hér er nokkuð mikil traffík á sumrin, ekki síst í kringum bátinn sem flytur fólk norður á Strandir - og þegar veður er gott, þá sprettur fólk hér upp eins og flugur. Sem er ekki skrýtið, því hér er mikið að sjá og margt að skoða. „Já, landslag er hér mjög fallegt,“ segir Oddný, „og þetta svæði á sér mikla sögu. Hér voru til dæmis galdrabrennurnar í Kistuvogi.“ Við þetta má bæta að á Gjögri var á öldum áður hákarlaverstöð og skammt undan landi í Trékyllisvík liggur Árnesey, sem er einna frægust úr Sturlunga sögu fyrir það að þar vígbjó Þórður kakali sig til Flóabardaga við Norðlendinga árið 1244, einu sjóorrustu sem Íslendingar hafa háð. 


Drangavík


Góð þjónusta 
En í Árneshreppi er enn þá rekinn grunnskóli, þrátt fyrir fámennið. „Það verða tvö börn í skólanum næsta vetur, voru þrjú í fyrra,“ segir Oddný. Við erum með kennslu upp í níunda bekk en í tíunda bekk fara krakkarnir þangað sem ættingjar og vinir geta tekið við þeim. Flest fara þau á Stór- Reykjavíkursvæðið.“ Á sumrin er mikill ferðamannastraumur í Árneshrepp og nokkuð fjölbreyttir gistimöguleikar í boði og má segja að fyrir utan sauðfjárrækt sé ferðaþjónusta nokkuð öflug atvinnugrein á svæðinu. „Við erum með Hótel Djúpavík, síðan er hreppurinn með Finnbogastaðaskóla sem býður upp á svefnpokagistingu á sumrin sem og tjaldstæði. Síðan keypti Ferðafélag Íslands jörð sem heitir Norðurfjörður fyrir nokkrum árum. Þar er bæði svefnpokapláss, tjaldstæði og fín aðstaða fyrir tjaldstæðið. Svo eru tvær aðrar gistingar hér, í Kaupfélagshúsi í Norðurfirði, bæði uppbúin rúm og svefnpokapláss, sem og á Bergistanga hér inni í Norðurfirði. Síðan erum við með sundlaug í fjörunni og heitan pott á Krossnesi.“ 


Reykjaneshyrna séð frá Trékyllisvík.

Sjóferðir og gönguleiðsögn

Ferðaþjónustuaðilar eru smám saman að bæta við fjölbreytnina. Hótelið í Djúpuvík er með kajakaleigu og áætlar að bjóða upp á sjóstangaveiði í sumar. En Oddný segir líka mikið af fólki koma á eigin vegum. Það sé að mestu fólk sem er að láta ferja sig norður á Hornstrandir og fuglaskoðunarfólk. „Í Árneshreppi er líka minja- og handverkshús, sem heitir Kört og fólkið sem er með safnið, Valgeir Benediktsson og Rakel, dóttir hans, hafa tekið að sér að fara með fólk í gönguferðir um staðina hér,“ segir Oddný. Hvað félagslíf varðar segir hún það mjög fjörugt. „Barnaskólinn hefur haldið úti félagsvist, sem og vorskemmtun og jólaskemmtun í samvinnu við Kvenfélagið. Á veturna hittist fólk hér á bæjunum hálfsmánaðarlega, frá áramótum og fram á vor. Það eru karlarnir að spila bridds og konurnar með handavinnu. Krakkarnir leika sér og spila. Það koma allir, enginn er skilinn eftir heima. Um þetta er mikil og góð samstaða í sveitinni. Flestir taka þátt í þessu og mæta oftast.“ 


Djúpavík

En þótt Árneshreppur sé nyrstur byggða á Vestfjörðum, eru íbúar síður en svo einangraðir. Tvisvar í viku er áætlunarflug á Gjögur sem Oddný segir tryggustu samgöngur heimamanna. Og þótt íbúar séu fáir, búa þeir fremur þétt saman. „Byggðin er í þyrpingu í Trékyllisvík og svo aftur í Norðurfirði. Þetta er stórt og mikið landsvæði en þeir sem búa hér, búa fremur þétt saman,“ segir hún. 

 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga