Lítil byggð – en mikið fjör

Í Kaldrananeshreppi er fylgst með hvölunum úr heitu pottunum sem eru listaverk í fjörunni.
Í Kaldrananeshreppi búa um hundrað manns og Drangsnesið þar sem búa um 65 manns er eini þéttbýliskjarninn í hreppnum. „Okkur hefur fækkað stórlega, segir oddvitinn, Jenný Jensdóttir. „Ástæðan er sú að ungt fólk sest ekki lengur að á svona stöðum. Ungir menn geta ekki komið hingað til að fara á sjó. 

Jenný Jensdóttir.

Það er innbyggt í kvótakerfið að þessir litlu staðir eigi að deyja. Þeir sem selja ekki frá sér, eldast upp úr þessu, eða deyja frá því og þá er kvótinn seldur. Það getur enginn í heimabyggð keypt kvótann því til þess þarf óskaplegt fjármagn. Svo þarf líka mikið til að reka þetta. Síðan er annað, að við höfum menntað öll börnin okkar í burtu. Þau sem fara í burtu, koma aldrei aftur nema í heimsókn - sem þau eru reyndar dugleg að gera. Við höfum auðvitað lítið annað en sjóinn svo atvinnulíf er fábreytt og fólk fer af ýmsum ástæðum.“

Veisla á Bryggjuhátíð

Fjölskylduhátíð 
En þeir sem búa á staðnum una glaðir við sitt og hafa ýmislegt upp á að bjóða. „Við erum mjög stolt af Bryggjuhátíðinni sem við höldum í júlí. Við erum að halda hana í tólfta sinn í sumar. Við erum líka stolt af því hvernig við framkvæmum hana. Hún stendur í einn dag en flestir íbúar á aldrinum 10 ára til sjötugs eru settir á vinnuplan. Það vinna allir í sjálfboðavinnu við Bryggjuhátíðina. Hún snýst um að skemmta sér og hafa gaman. Við erum með dorgveiði fyrir börnin og bjóðum við upp á sjávarréttasmakk sem er orðið mjög þekkt. Kvenfélagið framleiðir allt sem kemur úr sjónum. Þar kennir ýmissa grasa, til dæmis er boðið upp á sel og grásleppu og ýmsar sérstæðar afurðir.

Lundafundur í Grímsey,

Við erum með myndlistasýningar, hoppukastala fyrir krakkana, stöðugar ferðir út í Grímsey sem á þessum tíma er full af lunda - en þar er ein stærsta lundabyggð í heimi á einni eyju. Auk þessa bjóða Strandahestar upp á hestaleigu fyrir krakka. Kaffihús í gangi, þar sem er haldin grillveisla, bjóðum upp á kvöldskemmtun, varðeld og dansleik. Þetta er mjög fjölskylduvæn hátíð. Ef við tökum grillveisluna sem dæmi, þá seljum við matinn frekar ódýrt og börn undir tíu ára aldri fá frítt. Það sama á við ferðirnar út í Grímsey. Það kostar heldur ekkert að taka þátt í dorgveiðinni og kvöldskemmtuninni. Þar er frítt á meðan húsrúm leyfi og alltaf rosalega mikil stemming.“

Heitir pottar í fjörunni.


Söfn og siglingar
 
Svo erum við með heita potta í fjörunni - allt árið. Þar mega allir fara í heita potta þegar þeir vilja - og þeir eru opnir allan sólarhringinn. Pottarnir eru mikið notaðir af bæjarbúum og það er ekki óalgengt að sjá bæjarbúa á leiðina í pottana á náttsloppnum. Hér eiga allir pottsloppa og pottskó. Eftir að hafa setið í pottunum og spjallað fer fólk síðan í sturtu heima hjá sér. Svo eigum við nýja sundlaug sem var opnuð 2005. Þar er líka heitur pottur og gufubað. Auk þess eigum við aðra sundlaug í Bjarnarfirði, náttúrulaug, þar sem vatnið rennur í laugina og úr henni aftur. Það er settur í hana klór til að gæta hreinlætis. Þar er líka heitur pottur við laugina þar sem vatnið kemur í réttu hitastigi upp úr jörðinni.“ Kotbýli kuklarans sem er hluti af Galdrasýningunni er í Kaldrananeshreppi. „Sú sýning er byggð gagngert til að sýna hvernig fátæklingar bjuggu í gamla daga. Menn þurftu að leita ýmissa leiða til að komast af, beita allri þeirri fjölkynngi sem þeir kunnu. Þetta er mjög sérstök sýning og skemmtileg sem er opin allt sumarið. Auk þess erum við með ferðaþjónustu í gangi mjög víða. Nú er verið að opna nýtt gistiheimili á Drangsnesi og verið er að breyta þar húsi sem var fiskverkunarhús og gera það að kaffihúsi með útsýni beint út í Grímsey. Sá sem stendur fyrir þessu er sami aðili og er með siglingar út í Grímsey og Húnaflóa - og býður bæði upp á sjóstöng og hvalaskoðun. Steingrímsfjörðurinn er fullur af hvölum. Við skoðum þá héðan úr heitu pottunum. Við komumst ekki hjá því að sjá þá.“

Bryggjuhátíð á Drangsnesi


Ljósmyndir –
heimildir framtíðarinnar 
En heitu pottarir eru ekki bara heitir pottar heldur hluti af listaverki í dag. Miriam Samper var listamaður Bryggjuhátíðar í fyrra og hún hjó listaverkið, la Grima, í kringum pottana og gaf sveitarfélaginu það. „Þannig að þegar við erum í pottunum erum við í miðju listaverkinu,“ segir Jenný. „Þetta er mjög skemmtilegt. Listamennirnir sem hafa verið hér, hafa stundum gefið okkur verk eftir sig, svo við erum að verða miklu menningarlegri og auðugri eftir að við tókum upp á að halda Bryggjuhátíðina. Við erum líka alltaf með ljósmyndasýningu á Bryggjuhátíðinni. Við höfum verið að safna gömlum myndum og eigum orðið dágótt safn af þeim. Í fyrra tóku allir nemendur grunnskólans þátt í ljósmyndasýningunni. Myndirnar þeirra voru stækkaðar, plastaðar og hengdar upp. Sýningin heldur síðan áfram eftir hátíðina því þetta er nokkuð ferðamannavænt. Krakkarnir tóku myndir af öllu sem þeim datt í hug. Myndasýningin í sumar verður að líkindum húsin í hreppnum - nema einhver komi með betri hugmynd. Þetta er skemmtun á meðan sýningin varir en verður að menningarverðmætum seinna. Við eigum myndirnar og getum litið til baka og séð hvað var í gangi þetta árið. 
 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga