Fjölskylduaðstaða í fuglaparadís
 Á Kirkjubóli í Steingrímsfirði geta ungir sem aldnir hæglega gleymt sér í náttúrufegurðinni og litríku dýralífinu.

Í gistihúsunum á Kirkjubóli er boðið upp á tólf herbergi yfir sumartímann, en dálítið færri yfir háveturinn og hægt er að fá hvort heldur uppbúin rúm eða svefnpokapláss. Þrjú herbergjanna eru stærri, tvö eru með koju til viðbótar við hjónarúm og í það þriðja er hægt að bæta við aukarúmi og barnarúmi. Sérstök áhersla er lögð á að þjónusta við fjölskyldufólk sé góð á Kirkjubóli. Setustofur er í gistihúsunum, sjónvarp, bækur og spil. Sameiginleg baðherbergi með sturtum eru í húsunum og eldhúskrókur með öllum búnaði fyrir gesti. Gasgrill í garðinum. Gistiheimilið var opnað 1. júní 2001 og auk gistingar er þar boðið upp á morgunmat. Engin matsala er þar fyrir utan enda býlið staðsett steinsnar frá Hólmavík, auk þess sem eldunaraðstaða er fyrir hendi. 

Fjaran við Kirkjuból.

Á Kirkjubóli hefur verið byggt upp útileiksvæði því markmiðið er að laða barnafólk að staðnum. Og á Kirkjubóli er ýmislegt að skoða. Ábúendur eru um þessar mundir að fara af stað með það verkefni að gera æðarvarpið aðgengilegt. Veittar verða upplýsingar um æðafuglinn og hreiður eru merkt svo fólk geti gengið um varpið. Í Kirkjubólsfjöru er nokkur reki, skeljar og allmikið fuglalíf. 

Kirkjuból

Æðarfuglinn 
Segja má að það séu fjórir fuglar sem setji mestan svip á náttúruna í kringum Kirkjuból. Það er æðarfuglinn sem á nokkur hreiður í Orrustutanganum, tjaldurinn sem verpir víða í vegkantinum, krían og teistan sem setur sérstakan svip á lífið í fjörunni. Það er aðeins lítilsháttar æðarvarp á Kirkjubóli - um það bil 30 hreiður – þótt fuglinn sé mjög áberandi. Kollurnar eru tiltölulega gæfar og það er gaman að rölta í rólegheitum um varpið. Æðarfuglinn er einkvænisfugl og heitir kvenfuglinn kolla en karlinn bliki. Kollan er tryggari aðilinn í sambandinu og hún þolir illa nærveru annarra en maka síns. Varptíminn hefst um miðjan maí. Æðarfuglar eru félagslyndir og kollurnar verpa í nágrenni við aðra fugla, að jafnaði 4-6 eggjum. Blikinn verndar konu sína í varpinu, en fer síðan til að fella fjaðrir eftir að ungarnir eru komnir úr eggjunum. Þá er víða hægt að sjá stóra hópa af blikum hafa það náðugt í fjörunni. Æðarungarnir koma úr eggjum um miðjan júní og eru komnir niður að sjó daginn eftir. Þegar ungarnir líta dagsins ljós passar kollan upp á þá, leiðir þá á góða fæðustaði og varar þá við hættum. Stundum hjálpa aðrar kollur við uppeldið. Þær eru geldfuglar sem taka barnapíuhlutverkið að sér með glöðu geði og taka stundum uppeldið alveg í sínar hendur. 

Tjaldurinn 
Tjaldurinn er einstaklega hávaðasamur fugl og hrópar og orgar sem mest hann má ef einhver nálgast hreiðrið hans. Á Kirkjubóli á tjaldurinn fullt af hreiðrum. Flest heiðrin á Kirkjubóli eru í vegkantinum og tjaldurinn er oft búinn að verpa snemma í maí. Hreiðurstæðið er furðulegt, fuglinn býr til smáskál og verpir svo bara beint í grjótið. Hjónin skiptast á um að liggja á. Ungarnir verða seint sjálfbjarga og eru undir verndarvæng foreldranna allt fram í ágúst þegar þeir fara til vetrarstöðvanna.

Teistan 
Teistan er einn af einkennisfuglum fjörunnar á Kirkjubóli. Hér er líklega eitt stærsta og þéttasta teistuvarp á Ströndum. Sérkennileg hljóð teistunnar vekja jafnan mikla athygli og hún er fallegur fugl. Teistan verpir í klettaveggjum, rekaviðardrumbahrúgum og stórgrýti. Síðustu árin hafa líka allmargar teistur verpt í þar til gerða varpkassa á Kirkjubóli, en þar er á ferðinni tilraun fuglafræðinga sem fylgjast með varpinu og eru að rannsaka atferli teistunnar og annarra fugla. Hægt er að kíkja í kassana og skoða eggin og ungana. Teisturnar ala unga sína á sprettfiski, sem stundum er nefndur teistufiskur, þar til þeir fara úr hreiðri. Þegar ungarnir eru komnir á legg má sjá þá um miðjar nætur að æfa vængjatök. Stór hluti ungfuglanna fer til Grænlands um haustið, en eldri fuglarnir halda sig við Ísland. 

Teistudansinn 
Háttalag teistunnar er í mörgu frábrugðið öðrum fuglum. Þar á meðal er hægt að nefna hinn svokallaða trönudans. Þá dansar teistan í gleði sinni á sjó eða landi. Þessir dansleikir eru skemmtilegir á að horfa og svo vinsælir að aðrar teistur fljúga langar leiðir til að vera með. Hvað dansinn merkir veit enginn nema teisturnar sjálfar. 

Krían 
Dálítið kríuvarp er á Kirkjubóli, bæði í Orrustutanga norðanverðum og Langatanga. Krían er samt ekkert sérstaklega aðgangshörð við fólk sem labbar um fjöruna, þó sumum finnist betra að fara varlega. Á Kirkjubóli er krían vanaföst. Hér má að öllu eðlilegu sjá fyrstu kríu sumarsins þann 10. maí. Krían er einkvænisfugl sem verður trygglyndari með árunum. Tryggðin er svo mikil að krían verpir ekki ef hún missir maka sinn. Krían byrjar að verpa laust eftir miðjan maí. Hún býr sér ekki til hreiður heldur verpir beint á jörðina, einu eða tveimur eggjum. Báðir foreldrarnir gæta að eggjunum og liggja á. Kríur eru duglegir fuglar. Á vorin eru þær í ætisleit megnið af deginum, en um lágnættið fá þær sér kríu. Þær eru geysilega færar í fluglistinni og á haustin fljúga þær lengstu vegalengd allra íslenskra farfugla, alla leið til Afríku. Þar dvelja þær þar til vorar aftur á Íslandi. 

Heimalningar og gönguleið 
Enn er ekki allt upp talið sem gerir Kirkjuból að athyglisverðum áningarstað. Þar hefst bráðskemmtileg gönguleið, svokallaður Kirkjubólshringur. Þá er gengið frá bænum, upp á fjallið og síðan fjöruleiðina heim. Gangan er ekki erfiðari en svo að hægt er að ganga hana á tveimur tímum - með börnin með sér. Á leiðinni er margt að sjá og örnefni eru merkt á leiðinni. Og ekki má gleyma Sauðfjársetrinu beint á móti Kirkjubóli. Þangað er vinsælt að ganga til að gefa heimalningunum að drekka. Gistihúsin á Kirkjubóli eru opin allt árið en mesta umferðin er yfir sumarmánuðina þrjá, þótt vissulega sé sú umferð alltaf að teygja sig lengra inn í september. Aðalumferðin byrjar upp úr miðjum júní en farið að lengjast í hinn endann, farið að vera fram í miðjan september. 
 
 . 
 

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga