Af draugum, tröllum og öðrum forynjum
Strandagaldur hefur dafnað vel á þeim sjö árum sem stofnunin hefur starfað og er sífellt að færa út kvíarnar.

 Strandagaldur er sjálfseignarstofnun sem rekur Galdrasýninguna á Ströndum. Sýningin sjálf er á tveimur stöðum og heitir Galdrasafnið á Hólmavík og Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði. Síðan er þriðja sýningin í undirbúningi norður í Trékyllisvík. Hún fjallar um þau galdramál sem upp komu þar á 17. öld - en ekki er enn ákveðið hvenær hún opnar. Strandagaldur stofnaður árið 2000 og framkvæmdastjóri er Sigurður Atlason. „En Strandagaldur er ekki eingöngu í þessum sýningargeira með galdra á svæðinu,“ segir hann, „heldur erum við að vinna að hvers kyns öðrum rannsóknum, t.d. fornleifum baskneskra hvalveiðimanna. Þeir voru með hvalveiðistöð hér úti með firði fyrr á öldum. Síðan höfum við á undanförnum árum verið að vinna að Þjóðtrúarstofu, fræðastofnun um íslenska þjóðtrú.“ Og ekki er annað að sjá en að tekið hafi verið eftir því átaki sem unnið hefur verið í Galdrasafninu á Ströndum, því síðastliðinn vetur hlaut safnið Eyrarrósina, verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Sigurður segir þau verðlaun hafa verið mikla vítamínsprautu. Drauga- og þjóðtrúardagar
 
Sigurður Atlason er í fullu starfi við Galdrasafnið en aðrir eru í hlutastarfi eða taka að sér sérstök verkefni. „Við stefnum að því að Þjóðtrúarstofa verði vinnustaður 4-5 sérfræðinga á sviði þjóðfræði og sagnfræði. Yfir sumarið er svo fleira starfsfólk í hinum og þessum störfum í kringum sýningarnar og Baskarannsóknirnar. Þess ber að geta að að baki öllum þessum stofnunum liggja miklar rannsóknir.“ Þegar Sigurður er spurður hvernig Galdrasafnið sé upp byggt, segir hann: „Við byggjum þetta upp á leikmyndum sem við tengjum við atburðarás eða þætti. Yfir sumarið erum við með uppákomur nokkuð reglulegar. Þá eru sérstakir draugadagar og þjóðtrúardagar. Í kringum Kotbýli Kuklarans verðum við í sumar að vinna að sýningarsvæðinu utandyra. Þar erum við fjalla um íslensk tröll, leiðum fólk um sagnir trölla. Þetta verður eins konar skemmtigarður þar sem fólk fer á milli pósta og kynnist tröllunum. Helstu tröllin eru Kerlingin á Drangsnesi og tröllin í Kollafirði. En það eru tröll hér í hverjum firði. Þömb er, til dæmis, inni í Bitrufirði en hún hefur nú ekki sést lengi.“ Af draugum, tröllum og öðrum forynjum Strandagaldur hefur dafnað vel á þeim sjö árum sem stofnunin hefur starfað og er sífellt að færa út kvíarnar. 

Fögnum Yaris-fólkinu 
Á hverju sumri koma um átta þúsund manns inn á Galdrasafnið á Hólmavík og Sigurður segist vona að við fjögur þúsund manns heimsæki Kotbýlið í sumar. „Mest eru þetta Íslendingar enn þá en bilið er að minnka með hverju árinu. Á síðasta ári voru Íslendingar um 60- 70% gesta okkar. Fjölgun erlendu ferðamannanna er helst að þakka ferðamynstri þeirra. „Yaris-fólkið,“ það er að segja bílaleigufólkið, stjórnar sínum ferðum miklu meira en það gerði fyrir örfáum árið. Fyrir vikið erum við að fá mun meira af útlendingum en þegar þeir voru að ferðast um í rútum. Ferðaskrifstofur voru ekkert að koma á þetta svæði og eru ekki enn. En eftir að þetta ferðamynstur fór að breytast hefur þetta stórlagast. Við fögnum komu Yaris-fólksins því gríðarlega. Það er líka miklu fyrr á ferðinni en áður. Það er þegar farið að streyma hingað.“ Sigurður segir útlendinga ekki vita mikið um þjóðtrú og galdra en finnist þetta allt mjög forvitnilegt. „Það er ein ástæðan fyrir því að við erum að stofna Þjóðtrúarstofu. Við sjáum þörfina fyrir að selja íslenska þjóðtrú, bæði til námsmanna erlendis og til erlendra ferðamanna. Við fáum svo margar fyrirspurnir á sumrin um allt sem viðkemur þessu fyrirbæri. Við stefnum að því í framtíðinni að fólk geti komið hingað í sérstakar tröllaskoðunarferðir, til dæmis, þeir sem þora ekki á sjóinn að skoða hvali. Í staðinn geta þeir kysst tröllin og klappað þeim.“ 

Ástargaldrar og að gera sig ósýnilegan 
Meðal gesta Galdrasafnsins eru börn að sjálfsögðu nokkuð stór hópur. Sigurður segir misjafnt hvernig þau taki sýningu safnsins. „Mörg þeirra fatta þetta ekki. Þau eru í Harry Potter buxunum og verða dálítið stúmm þegar þau koma hingað, sérstaklega þegar þau lenda inni á Draugadegi eða Sagnadögum. En það þarf að hafa dálítið mikið fyrir börnunum, sem eru með hausinn fullan af „action“ Harry Potter og Lord of the Rings kvikmyndanna. Í lok skólaárs fáum við líka marga og stóra hópa af grunnskólanemum í skólaferðalagi. Í þessari viku koma til dæmis um hundrað nemendur til okkar. Ef þetta eru krakkar á gelgjuskeiði, fer maður út í ástargaldra en fyrir yngri börnin fer maður út í tröllin og aðra galdra, eins og að gera sig ósýnilegan.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga