Furðuleikar, hrútaþukl og skemmtileg sögusýning
Sauðfjársetur á Ströndum er skemmtilegt safn fyrir alla fjölskylduna í félagsheimilinu Sævangi við Steingrímsfjörð, 12 kílómetra sunnan við Hólmavík.

Í Sævangi er sögusýningin Sauðfé í sögu þjóðar, en hún fjallar um sauðfjárbúskap fyrr og nú frá öllum mögulegum hliðum. Í Sauðfjársetrinu er einnig notaleg kaffistofa og handverksbúð, vísindahorn fyrir fræðimennina í fjölskyldunni, barnahorn með fullt af leikföngum fyrir yngstu kynslóðina og utandyra eru hressir heimalningar sem allir geta fengið að gefa mjólk úr pela. Sauðfjársetrið stendur fyrir fjölmörgum stórskemmtilegum atburðum og hátíðum yfir sumarið sem hafa jafnan vakið mikla athygli.

Meðal þeirra eru hinir stórundarlegu Furðuleikar, en á þeim sameinast kynslóðirnar og keppa í skemmtilegum íþróttum sem ekki hafa hlotið samþykki Alþjóða Ólympíunefndarinnar. Meðal keppnisgreina á Furðuleikunum má nefna öskurkeppni, 40 metra kvennahlaup með frjálsri aðferð (þar sem karlarnir halda á konum sínum og leysa ýmsar þrautir), ruslatínslu, girðingarstaurakast, trjónufótbolta, belgjahopp og skítkast. Furðuleikarnir fara fram sunnudaginn 1. júlí í sumar. Meistaramót í hrútadómum fer síðan fram sunnudaginn 26. ágúst. Þar raðar dómnefnd, skipuð færustu sérfræðingum, fjórum hrútum í gæðaröð. Síðan eiga keppendur að reyna sig við matið á hrútunum með hendurnar og hyggjuvitið að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir. 

Þeir óvönu þurfa aðeins að númera hrútana frá einum og upp í fjóra og færa rök fyrir máli sínu. Þeir vönu gefa hins vegar hrútunum stig fyrir einstaka þætti eins og t.d. bakbreidd, útlit og samræmi og fara þá eftir stigakerfi sem bændur gjörþekkja. Þessi keppni hefur verið geysivinsæl síðustu ár og keppendur og sigurvegarar verið hvaðanæva að af landinu og á öllum aldri.

Margir fleiri atburðir fara fram á vegum Sauðfjársetursins í sumar, t.d. Dráttarvéladagur, kraftakeppnin Kraftar í kögglum og Strandamannamót. Þá verður einnig haldið landsmót í spuna, haldið upp á 50 ára afmæli Sævangs og farið í skipulagðar gönguferðir. Hægt er að fræðast meira um Sauðfjársetrið með því að kíkja á vefinn: www.strandir.is/saudfjarsetur. Sýningin verður opin frá kl. 10.00-18.00 alla daga sumarið 2007, á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst. 
 

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga