Borðeyri við Hrútafjörð
Þorpið Borðeyri stendur í Bæjarhreppi við vestanverðan Hrútafjörð og er eitt fámennasta þorp landsins með um það bil 30 íbúa.
Á Borðeyri er seld gisting í Tangahúsi, þar er kaffistofa Lækjargarðs, ágætt tjaldsvæði, skóli, sparisjóður og bíla- og vélaverkstæði. Borðeyri er sögufrægur verslunarstaður og þar er verið að vinna að viðamiklum endurbótum á elsta húsi staðarins, Riishúsi sem áður hét Faktorshús. 
Er það reyndar eitt elsta hús við Húnaflóa. Verslunar er oft getið á Borðeyri í Íslendingasögum og öðrum fornum heimildum, en á meðan einokunarverslun Dana var ráðandi frá 1600 fram undir miðja 19. öld lá verslun þar niðri. 
Síðan var Borðeyri miðstöð verslunar fyrir býsna stórt svæði og stundum er sagt að þorpin á Hvammstanga og Hólmavík hafi upphaflega verið útibú frá verslunarmönnum á Borðeyri. Seint á 19. öld voru mikil harðindi á Íslandi sem juku mjög ferðir manna til Vesturheims og þá var Borðeyri ein stærsta útflutningshöfnin norðanlands. Frá því er sagt að á hverju ári hafi safnast saman á Borðeyri hópar af vesturförum sem biðu eftir skipi, stundum vikum saman, oftast við lélegan kost og slæman aðbúnað. 
Þar var einnig aðalútflutningshöfn Norðurlands á lifandi sauðfé á síðari hluta 19. aldar, þegar sauðasala til Bretlands setti svip á mann- og atvinnulíf.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga